fbpx

Þriðji desember 1994 var markverður dagur í sögu tölvuleikjaspilara, því þá setti japanski raftækjarisinn Sony fyrstu leikjatölvu sína á markað. Sony réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur ákvað að etja kappi við fyrirtæki á borð við Nintendo, Sega og Atari sem voru risar á markaðnum.

Sex árum síðar, árið 2000, kom PlayStation 2 út, og PlayStation 3 árið 2006, þannig að margir voru farnir að halda að ný tölva kæmi á sex ára fresti og margir neytendur fóru í fjárhagslega endurskipulagningu árið 2012 í þeirri von að PlayStation 4 myndi koma á markað það ár. Tveimur árum síðar er þessi nýja tölva komin á markað, og við hjá Einstein.is vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að prófa gripinn.

PlayStation 4

Auk Sony PlayStation 4 eru ein önnur leikjatölva á heimsmarkaði með svipaða eiginleika, Xbox One leikjatölvan frá Microsoft sem er komin í sölu hérlendis en er nokkru dýrari. Nintendo Wii U kemur þar á eftir, en hún er talsvert ódýrari og lakari með tilliti til vélbúnaðar, og höfðar í raun ekki til sama notendahóps.

Vélbúnaður

PlayStation 4 tölvan er hlaðin góðum vélbúnaði:

  • Örgjörvi: PlayStation 4 er hlaðin tveimur fjögurra-kjarna x86-64 AMD Jagúar örgjörvum.
  • Skjástýring: 1.84 TFLOPS AMD Radeon örgjörvi.
  • Vinnsluminni: 8GB GDDR5 vinnsluminni
  • Harður diskur: 500GB harður diskur sem notendur geta skipt út ef þeir vilja stærri og/eða hraðari disk.
  • Önnur tengi: HDMI útgangur, stafrænn hljóðútgangur, Gigabit Ethernet tengi auk Aux tengis fyrir PlayStation myndavélina. Þá eru 2 USB tengi á framhlið tölvunnar.
  • Þráðlaus tækni: 802.11 b/g/n Wi-Fi (2.4 GHz) og Bluetooth 2.1+EDR.

Athygli vekur að örgjörvarnir eru þróaðir í x86 skipanamenginu, en það mun auðvelda þróun leikja talsvert, bæði hjá fyrirtækjum sem dæla út leikjum árlega (t.d. FIFA og Call of Duty) og hafa ekki tíma til að kafa ofan í kjölinn á hinum öfluga Cell örgjörva PS3 tölvunnar, en einnig minni fyrirtækjums em vilja þróa leiki fyrir fleiri tölvur en PlayStation.

Þetta hopp úr Cell yfir í x86 örgjörva er líka meginástæða þess að notendur geta ekki spilað PlayStation 3 leiki á vélunum sínum.

Við urðum fyrir örlitlum vonbrigðum þegar við sáum að PS4 styður hvorki 802.11ac staðalinn né 5 GHz gagnaflutning á þráðlausu neti, sem getur flutt gögn á allt að 1,3 Gbps hraða (þótt eiginlegur hraði sé oftast minni). Þetta fælir eflaust engan hugsanlegan kaupanda í burtu, en hefði samt verið skemmtilegt, og kemur vonandi í næstu útgáfu af vélinni. Flestir vanari notendur tengja tölvuna hvort sem er með netsnúru, og þá kemur þetta ekki til skoðunar.

Hönnun

PS4 - Vél og fjarstýring

Útlit tölvunnar vegur ekki þungt þegar neytendur velja á milli PlayStation eða Xbox, en ljóst er að einstaklingar af báðum kynjum geta fært fram haldbær rök fyrir því að PlayStation 4 sé fallegur gripur inn á heimilið, ef svo ólíklega vill til að betri helmingurinn hefur ekki brennandi áhuga á tölvuleikjum.

Hugbúnaður og notendaviðmót

PS4 - Notendaviðmót

Um leið og kveikt er á tölvunni, þá þarftu að tengjast PSN netinu og sækja svokallaða Day-One uppfærslu, sem er rúmlega 300MB að stærð.

Ekki er hægt að spila hvorki hefðbundna geisladiska né mp3 skrár á tölvunni að svo stöddu, en Shuhei Yoshida hjá Sony hefur greint frá því að bætt verði úr þessu með uppfærslu eftir hörð viðbrögð spilara. Spurningin er þá bara hvenær það verður.

Viðmótið er mun fegurra en á PlayStation 3, en leggur þó meiri áherslu á leikina, sem eru alltaf á forsíðu þegar tölvan er ræst á meðan öllum þáttum var gefið jafnt vægi í XMB viðmótinu á PS3 (þ.e. leikjum, tónlist, stillingum o.s.frv.)

PlayStation 4 hefur stuðning við allar helstu streymiþjónustur heims líkt og forverinn, þ.e. Netflix, Hulu Plus o.fl. Við spiluðum efni frá þessum þjónustum þegar tölvan var í prófun og það gekk eins og í sögu. Forritin sjálf eru alveg eins þannig að Sony hefur greinilega bara notað gömlu forritin og uppfært þau fyrir PS4.

PS4 - Online Multiplayer
Áskrift að PlayStation Plus er nauðsynleg fyrir netspilun

Ein stór breyting verður á spilun leikja á netinu, en notendur þurfa nú að kaupa PlayStation Plus áskrift svo það sé mögulegt. PlayStation Plus kostar 40 pund árið (u.þ.b. 7800 krónur miðað við núverandi gengi).

 

Grafík

Eins og gefur að skilja þá er öll grafík í leiknum miklu betri heldur en í síðustu kynslóð tölvunnar. Við prófuðum fyrst að spila Killzone: Shadow Fall, og myndgæðin voru ómótstæðileg. Við höfðum reyndar engan samanburð við fyrri útgáfur leiksins á PS3, en næst prófuðum við FIFA 14 frá EA Sports. Þar tókum við eftir því að allar hreyfingar í leiknum voru mun mýkri, þökk sé Ignite vélinni frá EA, og grafíkin miklum mun betri en í PS3 útgáfunni.

Þeir sem vilja sjá með eigin augum hversu góð grafíkin er í PS4 leikjum án þess að kaupa tölvuna geta fylgt þessum tengli og sótt rúmlega 500MB myndband sem sýnir spilun Killzone: Shadow Fall í fullri upplausn.

 

Stýripinni

PS4 - Fjarstýring
DualShock 4 fjarstýringin er betri en forveri sinn á öllum sviðum. Frábær.

Fyrir utan þessa annars mögnuðu tölvu, þá er stýripinninn eitt af því sem stóð upp úr við prófun hennar. Undirritaður átti áður Xbox360, en við spilun leikja á PS3 þá saknaði ég alltaf Xbox360 stýripinnans, af því hann fór betur í hendi og var þægilegri að nánast öllu leyti.

Allar slíkar hugsanir heyra fortíðinni til eftir að maður fær sér PlayStation 4, því stýripinninn var betrumbættur á öllum sviðum.

  • Lögun L2/R2 takkanna var fínpússuð svo fingur spilarans liggja betur á þeim.
  • Analog takkanir eru örlítið niðurhleyptir þannig að þumlarnir renna síður til við spilun.
  • Snertiskjárinn kemur til með að vera nýtilegur í fjölda leikja, t.d. fyrstu-persónu skotleikjum eins og Killzone og Call of Duty.
  • Nýr Share eða Deila takki er á fjarstýringunni, en með honum geta sett mynd eða myndband af stund sem þeir eru stoltir af inn á netið með einföldum hætti. Þegar ýtt er á hnappinn þá geturðu búið til skjáskot eða myndband af síðustu 15 mínútum sem þú spilaðir og sent á netið. Einnig er hægt að sjónvarpa spilun leiksins í beinni með Ustream eða Twitch.
  • Neðst á fjarstýringunni er tengi fyrir heyrnatól, þannig að þú þarft ekki að spila leiki með hljóðstyrkinn stilltan á 2 í sjónvarpinu, heldur getur spilað leikinn í miklum fíling án þess að trufla nágrannann.
PS4 - Fjarstýring og heyrnartól
Með heyrnartólatengi á fjarstýringu þá geturðu lifað þig inn í leikinn án þess að trufla nágranna þína.

Samantekt

Kostir:

  • Ný kynslóð af leikjatölvu
  • Yndislegur stýripinni
  • Hljóðlátari en PS3
  • Ódýrari en Xbox One

Gallar:

  • PS3 leikir virka ekki
  • PS Plus áskrift nauðsynleg fyrir netspilun
  • Tónlist bara möguleg með Music Unlimited (í bili)

Write A Comment