fbpx

TL;DR: Leikir eru ekki læstir á svæði, en aukapakkar eru það.

Ég er að fara til Bandaríkjanna og langar að kaupa FIFA á PS4 fyrir krónprinsinn. Er samt með tölvu keypta á Íslandi. Er það eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af?

Þessa spurningu fengum við um daginn, og af því við fáum sambærilegar spurningar með reglulegu millibili þá fannst tímabært okkur að skrifa lítið greinarkorn um stöðu mála við leikjakaup.

Leikirnir á PS4 / PS5 eru án svæðislæsingar

Leikirnir sjálfir eru ekki með neinni svæðislæsingu.

Það þýðir að þú getur keypt leiki hvar sem er í heiminum og spilað þá á PlayStation 4 eða PlayStation 5 leikjatölvum sem keyptar eru hérlendis. Að sama skapi geturðu þá einnig keypt leiki hérna á Íslandi og spilað á erlendum tölvum.

En… aukapakkar eru læstir á svæði

Aukapakkar, eða niðurhalanlegt aukaefni ef við þýðum enska heitið downloadable content (eða DLC), eru með svæðislæsingu.

Það þýðir að ef þú kaupir aukapakka fyrir leik í bandarísku PSN búðinni, þá verður leikurinn einnig að vera keyptur í Bandaríkjunum (eða bandarísku PSN búðinni) svo þú getir notað viðkomandi pakka.

Síðan er hægt að benda á að ef þú færð einhvern leik sem er keyptur í Bandaríkjunum og dauðlangar í einhvern aukapakka með viðkomandi leik, þá geturðu búið til bandarískan PSN reikning, og keypt inneign á þann reikning til að næla þér í hann.