fbpx
  • Apple HomePod var kynntur á WWDC ráðstefnunni í júní á síðasta ári. Á kynningunni var sagt að hann kæmi fyrir jól, hann myndi styðja AirPlay 2, uppfærða útgáfu af AirPlay tækninni frá Apple, stuðning fyrir samstillta spilun í mörgum tækjum (e.multi-room audio) og víðóma hljóm ef tvö HomePod væru notuð saman. Stærsti skemmtistaður í heimi, Nova, er einn af söluaðilum HomePod á Íslandi og lánaði mér tæki til prófunar.

HomePod kom í sölu rúmum tveimur mánuðum eftir að hann átti upphaflega að koma á markað og án allra þessara eiginleika sem voru taldir upp að ofan. Með öðrum orðum, þá mætti segja að HomePod hafi komið of snemma á markað, þrátt fyrir að Apple hafi seinkað útgáfu tækisins. Samkvæmt Apple munu allir þessir eiginleikar koma í HomePod síðar á árinu með hugbúnaðaruppfærslu.

Sögustund

Apple var fyrsta fyrirtækið til að kynna „persónulegan aðstoðarmann“ þegar það kynnti iPhone 4S haustið 2011 með Siri, sem fagnar því 7 ára afmæli sínu í Apple vistkerfinu núna í haust. Síðan þá hefur Siri tekið einhverjum framförum, en betur má en duga skal er álit flestra sem nota (eðra reyna að nota) Siri reglulega. Í grein sem birtist nýlega í The Information (einungis fyrir skráða notendur) er því haldið fram að Apple hafi tapað forskotinu sem fyrirtækið hafði á Google Assistant og Alexa frá Amazon.

Það má segja að HomePod verkefnið hafi verið sett af stað árið 2012, en þá byrjaði Apple að þróa ýmsar frumgerðir af hátölurunum til að setja í almenna sölu. Upphaflega átti hátalarinn ekki að koma með Siri stuðningi, en innreið Amazon Echo, ásamt aðstoðarkonunni Alexa, á hátalaramarkaðinn 2014 breytti öllu. Þegar Echo kom fyrst á markað tóku margir tækinu ekki alvarlega, því útgáfa tækisins kom í kjölfar Amazon Fire símans sem var vægast sagt algjört flopp. Echo náði svo meiri vinsældum en notendur bjuggust við og bjó í raun til þennan snjallhátalaramarkað.

Þróun HomePod hélt áfram. Apple leggur ríka áherslu á þagnarskyldu starfsmanna, og hún leiddi til þess að teymið sem vinnur að þróun Siri frétti ekki af þróun HomePod fyrr en árið 2015. Apple skipti því ekki algjörlega um gír eftir að Echo kom á markað, en veitti verkefninu meiri athygli þegar vinsældir þess komu í ljós.

Hvernig er svo HomePod?

Vélbúnaður

Þegar þú lest umsagnir um 8 litlu hátalarana í HomePod, hversu þungur hann er, hversu mörgum íhlutum Apple pakkaði í hátalarann, og hversu dýr hann er í framleiðslu, þá mun stærðin á HomePod koma þér á óvart.

HomePod er nefnilega einungis 17,2 cm hár og 14,2 cm breiður en vegur 2,5 kg (tvöfalt þyngri en Amazon Echo, 600g þyngri en Sonos Play:1).

Uppsetning

Uppsetningin á HomePod er sáraeinföld. Svo einföld að ef þú lætur ómálga barn fá iPhone eða iPad og það labbar með símann að HomePod (þarf að vera frekar nálægt tækinu) þá gæti það óvart sett upp tækið. Uppsetningin tók minna en mínútu.

Hér komum við samt að kjarna málsins. Þú getur ekki sett upp HomePod án þess að eiga iPhone eða iPad. Ef þú átt Android síma og vilt ólmur kaupa þér snjallhátalara þá mælum við frekar með Amazon Echo eða Google Home. Tækið styður heldur ekki Bluetooth tengingar (þótt það sé með Bluetooth 5.0) þannig að þú getur einungis notað AirPlay tæknina frá Apple til að spila hljóð á tækinu.

Raddstýrð tónlist

Mikilvægur fyrirvari. Ef þig dreymir um að geta labbað upp að hátalaranum þínum og sagt „Hey Siri. Play Abbey Road“ eða einhverja aðra sígilda plötu þá þarftu að vera með Apple Music. Til þess að geta gerst áskrifandi að Apple Music þá þarftu síðan að vera með erlendan iTunes reikning. Apple Music er í boði í yfir 130 löndum, en ekki á Íslandi. (Það er nánast efni í aðra grein hversu takmarkaðan aðgang við Íslendingar fáum að Apple hagkerfinu, og þess vegna mæli ég eindregið með því að vera frekar með bandarískan eða breskan reikning).

Apple Music kostar $9.99/mán ef þú ert með bandarískan reikning, eða $99/ári. Þú getur svo verið með fjölskyldureikning fyrir $14.99/mán sem styður allt að sex tæki.

Eitt áhugavert sem ég komst að við prófun á HomePod er að Apple Music leyfir tvo samtímastrauma á sama reikningi, án þess að þú sért með fjölskylduáskrift. Ég spilaði t.d. Dr. Dre – Compton á HomePod og Bjartmar Guðlaugsson – Súrmjólk í hádeginu á sama tíma. Það er ekki mögulegt á Spotify, því á almennum Spotify reikningi rænir maður straumnum af þeim sem er að spila (mörg pör sem deila almennum Spotify reikningi kannast við þá stund þegar það skiptist óvænt úr barnatónlist í bílnum yfir í gamalt rokk eða öfugt).

[adsanity id=“13659″ align=“center“]

Raddstýring fyrir aðrar þjónustur takmarkar við skiptingu yfir fyrra/næsta lag („Hey Siri, next song“) eða stillingu hljóðstyrks, eftir að þú velur að spila úr viðkomandi þjónustu yfir í hátalarann með AirPlay.

Þú getur líka raddstýrt tónlist sem þú hefur sett inn í iCloud Music Library, sem hét áður iTunes Match.

Hljómgæði og „Siri heyrn“

Hérna sker HomePod sig úr frá öðrum snjallhátölurum. Það mun ekki koma neinum á óvart að HomePod sé betri hátalari en Amazon Echo og Google Home, þar sem hann er meira en tvöfalt dýrari en þeir báðir.

HomePod er með nokkuð flatan hljóm, sem hljóðáhugamenn (e. audiophiles) kunna gjarnan að meta, þ.e. hann magnar t.d. ekki upp bassa svo hinn almenni notandi telji hátalarann betri þegar hann spilar Puff Daddy – I’ll Be Missing You eða Lou Reed – Walk on the Wild Side. Lagahöfundar notast oft við flata stúdíó mónitora þegar þeir klára sköpun sína, því þá er erfiðara að fela einhverja galla.

Við gerð þessarar umfjöllunar prófaði ég að spila eftirfarandi lög, og kannaði hvernig þau komu út:

  • The Prodigy – Poison. Þegar lagið sjálft „byrjar“ eftir rúma mínútu, þá ættirðu að finna fyrir því, ef svo má að orði komast, á góðum hátalara eða hátölurum.
  • Taylor Swift – Blank Space – Ekkert merkilegt nema að þetta er lag gert af sænska ofurpródúsentinum honum Max Martin við bestu mögulegu aðstæður, og þú ættir að heyra muninn á vondum hátölurum og góðum miðað við hljómgæði lagsins. Ef þú ert almennt að spá í hátölurum og þetta lag hljómar ekki vel, þá skaltu sleppa þeim.
  • Carmen – Avec la garde montante. Strákakórinn úr Carmen er fínn til að kanna hversu tært hljóðið er úr hátalaranum.
  • Björk – Bachelorette: Í góðum hátölurum þá ætti þetta lag að vera einhvern veginn alltumlykjandi í rýminu.
  • Cypress Hill – Insane in the Brain: Eitt þreyttasta skemmtistaðalag í heimi, en fínt fyrir bassatékk.
  • Massive Attack – Teardrop: Annað bassatékk.
  • Dire Straits – Money for Nothing: Sígilt lag sem fer út um víðan völl.

Heilt yfir var HomePod að skila öllum þessum lögum vel frá sér. Bassalínan í Insane In The Brain var allsráðandi þegar það var í spilun, og strákakórinn í Avec la garde montante var tær og flottur. Einnig heyrði maður vel uppbygginguna í Blank Space, þ.e. þegar bassinn og síðan gítarinn kemur í brúna/viðlagið. Einnig heyrðust aldrei neinir brestir í HomePod þegar hljóðstyrkurinn var hækkaður upp í 100%, en það er algengt á verri hátölurunum.

Hér er svo hlekkur á sama lagalista á Apple Music.

Siri heyrirðu í mér?

Fyrir utan almennt góðan hljóm í HomePod þá fannst mér ofurheyrn Siri vera einn besti eiginleiki hátalarans. Hvað á ég við með því? Á heimilinu mínu er til Amazon Echo. Ef einhver er að hlusta á tónlist með það miklum styrk að aðilar geta ekki talað saman þá þarf maður að hækka róminn nokkuð svo Alexa heyri í manni. Þetta á við þótt Alexa heyri almennt vel í manni, jafnvel á milli herbergja ef maður hækkar róminn aðeins. HomePod stendur framar en keppinautarnir við greiningu raddskipana, því maður þarf almennt ekki að brýna raust sína til að ávarpa Siri.

Ég gerði prófun þar sem ég spilaði tónlist það hátt að konan mín heyrði ekki hvað ég var að segja við hana út af háum hljóðstyrk hátalarans, en HomePod heyrði „Hey Siri, volume 10 percent“ og lækkaði Say Something með Justin Timberlake samstundis. Að mínu mati var þetta mesti wow faktorinn við HomePod. Til að setja þetta í samhengi þá varð myndband sem Binni Glee setti á netið í janúar nokkuð vinsælt, sem sýnir að Google Home (eða Home Mini) mætti gera betur í þessum málum:

Helstu skipanir

Hérna kemur listi yfir helstu skipanir sem þú getur framkvæmt á HomePod:

  • „Hey Siri“ er alltaf nauðsynlegt til að virkja Siri. Þú segir t.d. „Hey Siri, what’s the weather like in Reykjavik today?” til að fá veðurspána.
  • „Hey Siri, make it louder“ til að hækka, eða „Hey Siri, turn the volume to 10/20/30/…/100 percent.”
  • Hey Siri, next song“ til að skipta yfir á næsta lag, eða „Hey Siri, previous track“ til að setja lagið á undan (ef þú ert að hlusta á lagalista eða heila plötu.
  • „Hey Siri, stop“ til stöðva vekjaraklukku eða niðurteljara.

Þú getur skoðað HomePod leiðarvísinn frá Apple hér.

Snertiskipanir

Þótt HomePod miðist við raddstýringu þá geturðu framkvæmt nokkrar skipanir með því að snerta toppinn á tækinu:

  • Snertu og haltu fingrinum inni þangað til Siri táknið ljómar. Þarft þá ekki að segja Hey Siri eins og venjulega.
  • Smelltu á / haltu inni – eða + til að hækka eða lækka.
  • Rétt smelltu á toppinn til að hefja spilun eða setja á pásu.
  • Tvísmelltu til að skipta yfir á næsta lag.
  • Þrísmelltu til að fara á fyrra lag.
  • Smelltu einhvers staðar til að slökkva á niðurteljara eða vekjaraklukku.

HomeKit

HomeKit er hugbúnaður frá Apple fyrir snjallheimili, sem þarf ávallt einhverja miðstöð á heimilinu. Áður fyrr þurfti annaðhvort Apple TV eða iPad sem er ávallt á heimilinu til að reka þessa miðstöð, og nú bætist HomePod við þau tæki sem virka sem HomeKit miðstöð heimilisins. (Til að sjá hvaða tæki virka með HomeKit þá geturðu skoðað works with Apple HomeKit á Amazon eða HomeKit accessories í vefverslun Apple). Ég er með yfir tíu Philips Hue perur á heimilinu, sem skiptast nokkuð jafnt á milli herbergja, og að mínu mati er HomeKit besta lausnin til að stýra snjallperum á heimilinu.

Í eldhúsinu mínu er ég með fjórar Hue perur, sem eru sameinaðar í eitt herbergi. Þegar Alexa fær beiðni frá mér um að slökkva á eldhúsljósunum þá nær hún beiðninni oftast rétt í fyrsta sinn (og það hefur orðið betra með tímanum) en stöku sinnum bregst hún við með svarinu „A few things share that name, which one did you want?“ vegna þess að ljósin sjálf heita svo Kitchen Table/Window/Oven/Wall.

Aðrir vankantar á Alexa koma einnig í ljós ef ég bið hana um að slökkva ljósin í baðherberginu, þar sem ég er ekki með neinar snjallperur. Þá fæ ég svarið
Hmm… Philips Hue isn’t responding“ á meðan Siri segir
I’m sorry, I can’t seem to find that room in your hoom. You can create it in the Home app.“ Þetta hljóma eflaust eins og mjög smásmuguleg atriði, en þessi litlu atriði geta haft úrslitaáhrif við val á stafrænni aðstoðarmanneskju.

Alexa er einnig aðeins lengur að framkvæma slíkar skipanir á heimilinu á meðan það gerist nánast samstundis með Siri.

Apple vistkerfið

Siri vs Alexa

Í nokkur ár var Siri eina aðstoðarforritið sem ég gat notað. Það sem er magnað við þessa „persónulegu aðstoðarmanneskjur“ er að eftir nokkrar misskildar beiðnir þá gefst maður upp. Vandinn við Siri á iOS tækjum hefur oftast verið að það var erfitt að vita hvenær raddskipunin átti að byrja, fyrir utan að svarið er síðan oft ófullnægjandi.

Á svokölluðum Prime degi (e. Prime Day) í júlí 2016 sló ég til og keypti mér Amazon Echo hátalarann frá samnefndu fyrirtæki. Amazon Echo hefur nú verið á heimilinu mínu í meira en eitt og hálft ár, og ég hef vanist notkun þess. Þessa 18 mánuði sem ég hef notað Amazon Echo, þá hefur Alexa, ólíkt Siri, nánast aldrei brugðist mér, sem leiðir til þess að ég einfaldlega tala við Alexa að vissu leyti eins og aðra manneskju.

Eiginleikar Siri eru verulega takmarkaðir miðað við Alexa og  Google Assistant. Amazon Alexa hefur núna tugi þúsunda færniforrita (e. Alexa skills), þ.e. lítil forrit sem tengjast við Amazon Echo og gera notendum kleift að framkvæma ýmsar aðgerðir. Ég hef sett upp nokkur þeirra, og get skipt um HDMI inngang á magnaranum mínum með hjálp Alexa, spilað efni á Fire TV o.fl. Ekkert af þessu er hægt á Siri, hvorki á HomePod né öðrum tækjum.

Spotify vs Apple Music

Ég hef verið Spotify notandi í mörg ár, og því vel kunnugur viðmótinu þeirra. Spotify Connect er annað fyrirbæri sem ég þekki vel. Fyrir þá sem hafa aldrei heyrt um Spotify Connect, þá virkar það þannig að á þeim tækjum sem hafa innbyggðan Spotify stuðning, þá geturðu stýrt spiluninni úr Spotify, og þarft því ekki að nota einhver forrit frá þriðja aðila (eins og Sonos, Yamaha MusicCast) til að stýra spilun.

Dæmi: Ég bið Alexa um að spila eitthvað á Spotify (eins og núna sagði ég „Alexa, play some pop hits!“ og Alexa setti „New Music Friday, Iceland“) í gang. Þegar ég fer svo í Spotify forritið þá blasir þetta við mér:

Eins og sést á myndunum að ofan þá gefur Spotify strax til kynna að spilun sé í gangi í Echo tækinu mínu, býður mér að ræna straumnum, en annars munu breytingar í forritinu einnig hafa áhrif á það sem er spilað í Amazon Echo. Þetta er líka virkilega þægilegt því oft byrjar maður á að spila einhverja tónlist með raddstýringu, en svo viltu spila lagalistann „Tiltekt júní 2014“ eða „brúðkaup Nonna og Sigga“. Þar sem þú getur ekki, eða a.m.k. ekki vandræðalaust, fengið Alexa eða Siri til að spila lagalista með íslenskum orðum þá er einnig hentugt að geta stýrt spiluninni á snjallsíma eða spjaldtölvu.

Er þetta hægt með Apple Music?
Við fyrstu prófun hélt ég að þetta væri alls ekki í boði með HomePod og nokkrar umsagnir sem ég las gáfu það til kynna, þ.e. hefja spilun í Apple Music með raddbeiðni og stýra henni svo úr símanum.

Ég bað því Siri um að spila Dr. Dre – It’s All On Me (einungis fáanlegt í Apple Music). Ég opnaði svo Apple Music og sá… þetta?

Apple HomePod spilun

„Þetta er ekki eins og hjá Spotify?“ er það fyrsta sem ég hugsaði. Ég fór aðeins á stúfana og sá að Apple Music notendur geta stýrt spilun á HomePod úr símanum, jafnvel þótt spilunin hefjist með raddstýringu.

Til þess að stýra HomePod spilun úr iOS tæki, eftir að spilun hefst með raddstýringu þá þarf notandinn að gera eftirfarandi:

  1. Smella á það sem er í spilun í Apple Music.
  2. Ýta á AirPlay táknið (sjá grænu píluna á fyrsta skjáskotinu), og því næst á litlu loftbóluna sem sýnir hvað er í spilun á HomePod (sjá grænu píluna á skjáskoti #2). Þótt þú ýtir bara einu sinni á loftbóluna en breytir engu, þá mun Apple Music á iPhone/iPad núna stýra því hvað er í spilun á HomePod.
  3. Þú sérð það á tákninu neðst á skjánum sem gefur til kynna hvar efnið er í spilun (sjá skjáskot #3 á samsettu myndinni).

Þessi stýring liggur ekki ljós fyrir, en virkar.

Mér finnst viðmótið á Apple Music alls ekki galið, og ef ég hefði eingöngu notast við Apple Music frá því það var sett á laggirnar þá myndi ég hugsanlega agnúast yfir því hvernig Spotify gerir hlutina frekar en öfugt.

Ísland hefur tekið Spotify fagnandi, þótt Rdio (sem er núna hluti af Pandora) hafi verið fyrsta erlenda streymiþjónustan hérlendis, og Google Play Music sé einnig í boði á Íslandi. Það á ekki bara við um tónlistarunnendur því íslenskir útgefendur setja núna efnið sitt nánast undantekningalaust inn á Spotify. Allur gangur er síðan á því hvort efni íslenskra tónlistarmanna sé fáanlegt á Apple Music. Ef þú vilt hlusta á erlent efni þá snýst dæmið við, því þá sérðu stundum lög sem eru til á Apple Music en ekki Spotify (tvö dæmi um það eru Of Monsters and Men – Mountain Sound og Kanye West & Jay-Z – No Church in the Wild).

Miðað við skýringarmyndina hér fyrir neðan þá greiðir Apple Music útgefendum meira fyrir hverja spilun heldur en Spotify, þannig að ef þú ert útgefandi þá viltu frekar að tónlistin þín sín spiluð í Apple Music, a.m.k. í bili.

David McCandless, InformationIsBeautiful.net.
David McCandless, InformationIsBeautiful.net.

Skortur á Spotify stuðningi er nokkuð sem allir kvarta undan. Hvort það sé meðvituð ákvörðun Apple, eða vegna þess að þjónustan hafi einfaldlega ekki verið innleidd skal ósagt látið. Amazon Echo kom á markað í nóvember 2014 og studdi ekki Spotify sem sjálfgefna tónlistarveitu fyrr en sumarið 2016. Sonos One studdi heldur ekki Spotify með raddstýringu þegar hann kom á markað, en gerir það núna. Það sýnir að framleiðendur snjallhátalara þurfa ávallt að inna einhverja vinnu af hendi til að styðja Spotify.

Viljirðu prófa Apple Music án þess að missa Spotify lagalistana þína, þá mæli ég með forriti sem heitir SongShift. Það gerir þér kleift að flytja lagalista á milli mismunandi streymiþjónusta, styður Apple Music, Spotify, Deezer, Discogs, Hype Machine, Last.fm, Napster, Pandora, Tidal og YouTube. Forritið er ókeypis en þú þarft að kaupa aukapakka (e. in-app purchase) til að nýta alla eiginleika forritsins.

Niðurstaða

HomePod kostar frá 59.990 kr. og þegar vörur eru komnar í þennan verðflokk þá lesa neytendur fleiri umsagnir um viðkomandi tæki, gera hlustunarprófun í verslun og lesa enn fleiri umsagnir til að vera vissir um að ekki sé verið að kaupa köttinn í sekknum. Vinsældir Amazon Echo og Google Home má m.a. rekja til þess að tækin eru svo ódýr að þau flokkast undir hvatvís kaup (e. impulse buy) hjá fólki, sem kaupir hátalarann í snatri án þess að spá of mikið í það.

HomePod er frábær hátalari, en bara sæmilegur snjallhátalari. Ef þú elskar allt sem kemur frá Apple þá er þetta líklega hátalarinn fyrir þig. Það sem á eftir að koma í ljós er hvort HomePod muni styðja annars vegar styðja Spotify og hins vegar hvort Siri muni saxa á eða jafna forskot Alexa og Google Assistant. Gerist það, þá gæti HomePod orðið vinsæl vara í þessum vöruflokki.

Kostir

  • Frábær hljómur
  • Falleg hönnun
  • Siri heyrir betur í þér en nokkur annar snjallhátalari

Gallar

  • Apple Music nauðsynlegt fyrir raddstýrða tónlist.
  • Hátt verð.
  • Alexa er betri en Siri.

Einkunn: 8

HomePod kostar frá 59.990 krónum og fæst á eftirfarandi stöðum: NOVAMacland  | ElkoEldhaf (Akureyri)