Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir því að reglulega koma greinar inn hér inn á Einstein.is sem lúta að því hvernig jailbreak er framkvæmt á iOS tækjum, eða jafnvel sérstökum jailbreak forritum.
Margir spyrja sig gjarnan hvaða gagn það geri að framkvæma þetta jailbreak á iPhone, iPad eða iPod Touch, og hvort tækið líði eitthvað fyrir það. Hér á eftir reynum við að svara þeim spurningum, og fara yfir kosti og galla þess að framkvæma jailbreak.
Kostir
- Cydia – Númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er það sem jailbreak-ið snýst um. Cydia Store er nokkurs konar „jailbreak“ App Store, í þeim skilningi að þar er hægt að fá mikið úrval forrita (og viðbóta), sem gefa notandanum meiri stjórn á iOS tækinu sínu.
- Gömul forrit – Eigendur gamalla iOS tækja kannast flestir við það vandamál að geta ekki lengur sótt forrit eins og Facebook eða Shazam, af því þeir eru með of gamla útgáfu af iOS. Eftir jailbreak þá geta notendur sett upp gamlar útgáfur af forritum, og einnig forrit sem App Store hefur hafnað/fjarlægt (Dæmi: VLC Media Player).
- NES/SNES leikir: Þeir sem vilja spila gamla Super Mario eða Zelda geta spilað þá með sérstökum NES/SNES hermi (e. emulator).
- Útlit og frelsi notandans – Hægt er að skipta um þema á símanum, breyta leturgerð, Lock skjánum, og nánast öllu sem þér dettur í hug. Forritin Winterboard og/eða Dreamboard gera þetta mögulegt, en með þeirra hjálp getur notandinn sagt skilið við staðlað útlit símans, og leyft hugmyndafluginu að taka völdin.
Margir vinsælir eiginleikar iOS stýrikerfisins eins og flestir þekkja það stóðu þeim sem höfðu framkvæmt jailbreak fyrr til boða en öðrum.
iPhone kom á markað árið 2007, en App Store sumarið 2008. Í rúmt ár gátu notendur ekki sett upp forrit frá óháðum aðilum nema þeir höfðu framkvæmt jailbreak, og að því búnu sett upp forritið AppSnapp. Einnig má nefna tethering, þ.e. sá möguleiki að gera símann að netpung, og sending MMS skilaboða. Tilkynningar (e. notifications) voru líka miður góðar í iOS 4 og eldri kerfum, þangað til Apple réð Peter Hajas, sem þróaði jailbreak viðbótina Mobile Notifier.
Auk framanritaðs, þá geta notendur smellt hér til að sjá umfjöllun okkar um ýmis Cydia forrit og viðbætur. Í eftirfarandi myndbandi er svo farið ansi vel (og hratt) yfir hvað stendur manni til boða eftir vel heppnað jailbreak.
Gallar
Þótt kostirnir við jailbreak séu ýmislegir, þá er einnig önnur hlið á peningnum sem einnig þarf að kynna fyrir lesendum.
- iOS uppfærslur – Þegar Apple gefur út uppfærslur á iOS stýrikerfinu þá geturðu ekki einfaldlega uppfært símann og haldið jailbreak-inu með því að fara í Settings > General > Software Updates eins og flestir gera. Notendur þurfa að fara lengri leið, taka afrit af öllum gögnum og forritum áður en stýrikerfið er uppfært.
- Öryggi – Þegar fólk framkvæmir jailbreak á iOS tækjum, þá er talað um að öryggi tækisins minnki. Ástæðuna má rekja til þess að margir opna fyrir SSH/SFTP aðgang til að auðvelda flutning gagna á milli tölvu og iOS tækisins. Slíkar tengingar eru í sjálfu sér mjög öruggar, en sjálfgefið notandanafn slíkra tækja er ávallt „root“ og sjálfgefið lykilorð „alpine“, þannig að óprúttnir aðilar með mikla tölvukunnáttu gætu nýtt sér þessa „öryggisglufu“ til að valda skaða. (Auðvelt er að komast fram hjá þessu með því að breyta lykilorðinu).
- Stöðugleiki – Sum jailbreak forrit eru verri en önnur, og minnka stöðugleika kerfisins. Það er ekki jafn strangt ferli sem forrit þurfa að standast til að vera seld í Cydia Store (en er þó mun strangara nú en áður, þökk sé vaxandi áhuga á jailbreak heiminum)
- Rafhlaðan – Það eitt að framkvæma jailbreak og setja ekki nein forrit upp ætti ekki að hafa nein teljandi áhrif á rafhlöðuendingu tækisins. Aftur á móti er hægt að setja upp jailbreak forrit og viðbætur sem eru mjög öflug, og jafnvel í sífelldri notkun þegar kveikt er á tækinu. Eðli málsins samkvæmt þá er rafhlöðuendingin minni en ella við slíka notkun.
Að gefnu tilefni er vert að taka fram að þessi skýringargrein á ekki við um Apple TV, þar sem gallar við jailbreak eru nánast engir.