Netflix þarf vart að kynna fyrir lesendum Einstein, þar sem vefurinn hefur fært lesendum leiðarvísa og ýmsar fréttir af myndveitunni síðan í maí 2011. Flestir notendur láta sér nægja að fylgja leiðarvísinum, þ.e. setja upp Netflix og hefja svo maraþonáhorf á einhverri óvæntri sjónvarpsseríu, sem er frábært. Með nokkrum einföldum leiðum er þó hægt að gera notendaupplifunina enn betri.
Gefðu titlum einkunn
Einkunnagjöfin á Netflix kemur stundum á óvart, og getur verið alveg úr takti við t.d. iMDB eða RottenTomates sem margir miða við. Ástæðan er einföld, en hún er sú að stjörnugjöfin á Netflix miðar við hversu vel eða illa talið er að viðkomandi titill muni falla þér í geð, sbr. eftirfarandi mynd.
Búðu til fleiri notendur á reikningnum þínum
Þetta tengist dálítið atriðinu að ofan, en með því að búa til séraðgang fyrir hvern þann sem notar Netflix á reikningnum, þá eru meiri líkur á að Netflix mæli með efni sem þér líkar við en ekki þér, maka og börnum. Með því að gera þetta þá geturðu líka búið til aðgang fyrir einhvern fjölskyldumeðlim eða vin sem notar Netflix ekki svo mikið að hann eða hún vilji kaupa áskrift, en hefur samt áhuga á að horfa á stöku mynd eða þátt.
Í því sambandi er einnig vert að geta þess að með algengustu áskriftarleiðinni þá geta tveir aðilar horft á efni á sama tíma. Netflix stingur nú upp á því að aðilar geri þetta við nýskráningu, en annars geturðu búið til fleiri notendur á reikningnum með því að smella á þennan hlekk
Skoðaðu bandvíddina
Ef þér finnst hlutfall Netflix í netnotkun heimilisins vera of mikil, þá geturðu hæglega takmarkað Netflix niðurhalið í notendastillingum þínum á vefnum. Þú það með því að fara í Your Account > Playback Settings. (Myndrænn leiðarvísir fyrir áhugasama hér)
InstantWatcher.com
Við höfum áður fjallað um Instant Watcher, en hún er ein af örfáum þjónustum sem fá aðgang að upplýsingakerfi Netflix, og leyfi til að birta upplýsingar um efnisúrval á síðu sinni. InstantWatcher er þægileg síða og snjallforrit, sem sýnir vinsælt efni á Netflix, skemmtilega flokka, og leyfir þér að leita að efni miðað við ákveðin tímabil, einkunn o.fl.
Á myndinni fyrir neðan má t.d. sjá vinsælustu myndirnar á Netflix frá árinu 1968.