Apple hefur boðað til fundar miðvikudaginn 7. september næstkomandi, og er þetta fimmta árið í röð sem Apple kynnir nýjan iPhone síma í byrjun hausts. Viðburðurinn verður haldinn í Bill Graham Civic Auditorium, sem tekur 7000 manns í sæti.

Hvað verður kynnt?

Fyrst og fremst mun Apple kynna nýjustu kynslóð af flaggskipi fyrirtækisins, iPhone. Undanfarin ár hefur fyrirtækið kynnt nýtt útlit annað hvert ár, og einbeitt sér að innviðum símans hitt árið (sem hefur verið kallað „tick-tock cycle“ vestanhafs).

Talið er að breyting verði á þessu í ár, þannig að síminn muni vera með sama útlit og iPhone símar síðustu tveggja ára. Helstu breytingarnar á símanum í ár eru taldar vera eftirfarandi:

  • Ekkert heyrnartólatengi: Síminn mun ekki koma með hefðbundnu 3,5mm tengi fyrir heyrnartól, heldur verður eingöngu með Lightning tengi.
  • Geymslupláss: Ódýrasta gerðin mun ekki koma með 16GB geymsluplássi eins og undanfarin ár, heldur 32GB.
  • Myndavél: Eins og venjulega þá verður myndavélin betrumbætt, og þykir líklegt að stærri iPhone síminn (sem mun þá líklega heita iPhone 7 Plus eða mögulega iPhone 7 Pro) muni koma með tveimur linsum.
  • Home takkinn: Home takkinn mun nema þrýsting, sem getur brugðist við þrýstingi með smá titringi.

Viðburðurinn byrjar kl. 10:00 að staðartíma, sem er kl. 18:00 á íslenskum tíma. Hægt verður að horfa á viðburðinn í Apple TV, iOS tækjum, Safari vafranum í Mac og Edge vafranum á Windows.