Fyrir tuttugu árum þá fór ég í fyrsta sinn á internetið heima hjá mér. Netscape Navigator var besti vafrinn, og Altavista besta leitarvélin, þær upplýsingar fékk ég frá frænda mínum sem aðstoðaði okkur við uppsetninguna (takk aftur hjálpina kæri Oddur). Google var ekki til, Amazon seldi ekkert nema bækur, flestar heimasíður hins almenna borgara voru hýstar hjá GeoCities og Apple var nánast gjaldþrota.

Tengingin sem ég var með þá var 28,8 kbps, þannig að að niðurhalshraðinn var 3,6 kB/s (kílóbæti á sekúndu). Við bestu aðstæður.

Ég rifja þetta upp því mér var boðið að vera í prufuhópi Ljósleiðarans fyrir 1 Gbps tengingu, sem er rúmlega 34 þúsund sinnum hraðari en tengingin mín árið 1996.

Til að setja þessa umfjöllun í smá samhengi þá vil ég geta þess að áhugi minn á háhraðainterneti er mikill. Hann er svo mikill að þegar ég flutti síðast (árið 2012) þá var fyrsta skref mitt þegar ég sá hugsanlegt framtíðarheimili að fletta heimilisfanginu upp á heimasíðu Gagnaveitunnar til að kanna hvort ljósleiðarinn væri í boði. Ef ekki, þá minnkaði spennan lítillega.

Hvernig er svo að vera með 1 Gbps tengingu?

Ágætt. Á minni internetsögu, þá man ég alltaf vel eftir því hversu miklu hraðara netið varð við breytingar á nettengingu, t.d. uppfærslu í ISDN (64 kb/s) og svo internet um breiðband (512 kb/s). Ég velti því fyrir mér hvernig það yrði að fara úr 100 Mb/s upp í 1000 Mb/s (og hoppa þar með yfir 500 Mb/s).

Netið er miklu hraðara, það er enginn vafi á því. Þegar maður er með svona hraða tengingu þá koma hins vegar tvenns konar „vandamál“

Hraði hinnar tengingarinnar

Áður fyrr voru tengingar vefþjóna alltaf mun hraðari heldur en heimatengingar. Í dag geta notendur með 1 Gbps tengingu lent í þeirri stöðu að tengingin þeirra er hraðari en hjá vefþjóninum þaðan sem efnið er sótt, og við því er lítið hægt að gera.

Ef þú ert að sækja skrá af vefþjóni sem er hýstur á 100 Mbit tengingu, og fimm manns eru að sækja sömu skrá, þá eðli málsins samkvæmt geturðu ekki fengið 1 Gbps niðurhalshraða (og ekki einu sinni 100 Mbit/s hraða).

Endabúnaður

Þetta er stærsti flöskuhálsinn í þessu öllu saman. Ég er með nokkuð góðan netbeini (e. router) á heimilinu, þ.e. nýjustu kynslóðina af Airport Extreme. Þessi netbeinir styður 802.11ac staðalinn og þráðlaust net á tveimur tíðnisviðum, þ.e. 2,4 GHz og 5 GHz.

Þráðlausa netið á 802.11ac virkar einungis á 5Ghz, og fræðilegur hámarkshraði þess á Airport Extreme er 1,3 Gbps. Til að ná þeim hraða þurfa tækin sem tengjast beininum einnig að styðja 802.11ac (sem er algengt, en ekki gefið). Fyrsti iPhone síminn sem studdi 802.11ac staðalinn var iPhone 6, þannig að eldri iPhone tæki eru föst á 802.11n, sem er með minni flutningsgetu.

Það er samt einn galli við þessa miklu flutningsgetu 802.11ac. Drægi. Þráðlaust net hefur mun meira drægi á 2,4 GHz heldur en 5 GHz, en hraðinn á þeirri tíðni er mun minni. Til að sýna muninn þá birti ég niðurstöður úr nokkrum hraðaprófunum sem ég framkvæmdi við gerð þessarar umfjöllunar á iPhone 7 Plus.

[column size=one_half position=first ]Staðsetning 1 (U.þ.b. 1m frá netbeini, engin hindrun)
5 GHz: 449,07 Mbps niður / 543,72 Mbps upp
2,4 GHz: 86,17 Mbps niður / 49,32 Mbps upp

Staðsetning 2 (U.þ.b. 4m frá netbeini, einn léttur veggur á milli)
5 Ghz: 433,86 Mbps niður / 460,95 Mbps upp
2,4 GHz: 94,22 Mbps niður / 96,52 Mbps upp[/column]

[column size=one_half position=last ]Staðsetning 3 (U.þ.b. 8m frá netbeini, tveir léttir veggir á milli)
5 GHz: 268,87 Mbps niður / 70,25 Mbps upp
2,4 GHz: 12,62 Mbps niður / 37,26 Mbps upp

Staðsetning 4 (U.þ.b. 8m frá netbeini, tveir burðarveggir á milli)
5 GHz: Næst ekki
2,4 GHz: 7,34 Mbps niður / 21,12 Mbps upp

[/column]

 

Það er vert að hafa í huga að járnabinding og þráðlaust net fara mjög illa saman, sem sýnir af hverju netmerkið á staðsetningu 4 er svo slæmt.

Margir netbeinar bjóða manni að hafa tvö þráðlaus net, svo hægt sé að ná meiri hraða á 5GHz netinu. Gallann við það má lýsa með eftirfarandi dæmi:

Ég tengist 5GHz netinu inni í stofu. Frábær nethraði. Ég verð svo þyrstur og fer á staðsetningu 4 í hraðaprófinu að ofan (eldhúsið). Ef ég tek iPhone símann með mér og kíki á netið. Af því síminn nemur ekki 5GHz netið, þá dettur það inn á hitt netið mitt (sem er á 2,4 GHz). Ég geng svo til baka, nema hvað að iPhone-inn skiptir ekkert aftur yfir á hraðara netið.

Þessi kampavínsvandamál hafa orðið til þess að ég fór að skoða nýjar netbeinalausnir á borð við Netgear Orbi ásamt mesh-networking lausnum frá Eero, Google Wi-Fi og fleirum. Af þessu þrennu er Netgear Orbi það eina sem er leyfilegt í Evrópu um þessar mundir, og kostar rúmlega 42.000 krónur í Bandaríkjunum (og kostar því líklega u.þ.b. 53-60 þúsund krónur hérlendis með flutningi og vsk). Það er kostnaðurinn við að fá þráðlaust internet sem dekkar heimilið þokkalega, en þessi samantekt SmallNetBuilder sýnir að með Netgear Orbi þá ætti maður að vera með yfir 150 Mbps hvar sem er á heimilinu.

Ég er með ljósleiðara. Get ég fengið mér 1 Gbps tengingu?

Þeir sem eru með nýjustu kynslóð af gagnaveituboxinu geta fengið sér 1 Gbps ljósleiðara. Ef þú ert með eldri kynslóð þá geturðu talað við fjarskiptafyrirtækið þitt og fengið að skipta því út, sem kostar 18.o00 krónur.

Uppfært 16/12/16 10:10: Okkur hafa borist upplýsingar um að þessi uppfærsla muni verða ókeypis eftir áramót, þannig að ef þig langar í 1 Gbps net þá er um að gera að hafa samband við fjarskiptafyrirtækið þitt 2. janúar og biðja um uppfærslu.

Niðurstaða

Auðvitað frábært að vera með hraðasta netið sem er í boði, og það sem mér hefur alltaf þótt vera stærsti kosturinn við ljósleiðarann er að það er sami hraði í báðar áttir.

Þessi flutningshraði getur samt verið bylting fyrir marga notendur, einkum fagfólk á sviði ljósmyndunar og kvikmyndagerðar, því það gefur þeim færi á að senda efni frá sér mun hraðar, hvort sem það er til að sýna öðrum efni eða taka afrit af því á skýjalausnir.

Eins og ég nota internetið í dag þá er ég samt ekki viss um að það myndi skipta mig miklu máli hvort ég væri með 200Mb/s tengingu, 500 Mb/s eða 1 Gbps/s. Helsta notkunin mín er netstreymi af þjónustum eins og Hulu, Netflix og HBO NOW, sem taka að hámarki 6 Mb/s fyrir HD straum og 25 Mb/s fyrir 4K straum.

Ég sé mestu tækifærin í þessari tengingu hjá litlum eða millistórum fyrirtækjum. Þá kemur samt aftur upp það vandamál að internet yfir ljósleiðara til fyrirtækja er talsvert dýrara en til heimila. Svo maður sýni eitt verðdæmi, þá kostar Ljós 1000 Mb/s 124.000 kr. með vsk. hjá Símafélaginu.

Að því undanskildu þá er það helst við torrent niðurhal með tengingu við marga jafningja sem það það er gaman að vera með svona súpernet. Á myndbandinu hér fyrir neðan sést hversu hratt maður sækir efni á torrent, þótt einungis sé verið að nýta 20% af tengingunni.

Exit mobile version