Firefox: Ég nota Google Chrome í daglegu lífi, og er mjög sáttur með það. Fyrir utan eitt. Eitt sem ég sakna úr Firefox, og það er DownThemAll. Fyrir mér er DownThemAll viðbótin sem fær mig alltaf til að fara aftur í Firefox endrum og sinnum. DownThemAll er viðbót fyrir Firefox, sem gerir notendum kleift að nýta internettenginguna til fulls (takmarkast auðvitað annars vegar af hraða á tengingu og hraða á vefþjóni) og meira til.

Þessi dásamlega viðbót styður einnig niðurhal á öllum skrám sem eru á viðkomandi síðu, þannig að með auðveldum hætti geturðu náð í allar .mp3 skrár, .doc, .pdf o.s.frv. með einum músasmelli (t.d. hentugt fyrir skólafólk sem er að ná í glærupakka eða eitthvað slíkt af nemendavef), í staðinn fyrir að þurfa að smella á hverja skrá, eina í einu, og vista sérstaklega.

Með DownThemAll geturðu líka gert hlé á niðurhalinu (eins og er reyndar hægt í flestum vöfrum nú til dags) þannig að þú þarft ekki að hala niður allri skránni í einu, heldur getur haldið áfram síðar, ef þú ert t.d. að fara á milli staða með tölvuna. Einnig er hægt að takmarka hraðann á niðurhalinu (eitthvað sem aðrir vafrar bjóða ekki upp á), svo þú getir látið stóran skráarflutning malla á meðan þú gerir annað á netinu.

DownThemAll [Firefox Add-Ons]

Author

Write A Comment

Exit mobile version