„Ein af tölvunum tveimur sem var stolið frá Hugleiki, grá MacBook Pro þakin Star Wars límmiðum, hefur að geyma ævistarf Hugleiks. Þar á meðal er leikrit sem hann hefur verið með í smíðum í nokkurn tíma og áætlað er að fari á fjalir Borgarleikhússins á komandi leikári.“
-Frétt Vísis 15.júní 2011
Þarna mátti sjá tilvitnun í frétt Vísis, sem greindi frá því þegar brotist var inn til Hugleiks Dagssonar listamanns, og tölvunni hans stolið. Fréttir á borð við þessar eru sem betur fer ekki algengar, en með því að setja upp eitt forrit, þá er maður laus við þennan vanda.
Dropbox (Windows/Mac/Linux/iOS/Android/BlackBerry) er ókeypis forrit og þjónusta frá samnefndu fyrirtæki, vistar gögn með öruggum hætti á vefþjóni sínum, þannig að notendur geta nálgast þau með auðveldum hætti í tölvum sínum, snjallsímum og öðrum tækjum eða á öruggu vefsvæði þeirra á Dropbox.com.