ps4-fjarstyring

Japanska tæknifyrirtækið Sony kynnti í gær nýja útgáfu af PlayStation leikjatölvunni, sem mun halda í gamlar hefðir og heita PlayStation 4. Greint var frá þessu á kynningu fyrirtækisins sem fram fór í New York í gær.

Engar myndir af tölvunni voru birtar, en fyrirtækið sagði frá þeim breytingum sem útgáfa tölvunnar mun hafa í för með sér. Sony segir einnig að með PS4 þá sé fyrirtækið að gefa því gaum að spilarinn hafi oft takmarkaðan aðgang að stofunni, og úrbætur hafi verið gerðar í þeim efnum.

Helsta breytingin þar á bæ verður nýtt PlayStation forrit fyrir iOS og Android. Þetta forrit mun gera notandanum kleift að nota snjallsíma eða spjaldtölvu sem aukaskjá, þannig að maður getur haldið áfram að spila sinn leik þótt betri helmingurinn vilji horfa á Landann, Downton Abbey eða einhverja aðra taumlausa skemmtun í sjónvarpinu.

Tölvan keyrir á hefðbundnum PC vélbúnaði, með sameinuðum 8 kjarna tölvu- og skjáörgjörva (e. unified 8-core processor and GPU)

 

Nýr örgjörvi

Hljómar ekki spennandi í eyrum margra, en þetta er umtalsverð breyting. PlayStation 4 mun ekki nota Cell örgjörva líkt og PS3, heldur örgjörva með x86 skipanamenginu (þ.e. 32-bita Intel Archtecture), eins og borðtölvan heima hjá flestum lesendum notast við.

Það eru eflaust margir sem vita ekki hvað það það hefur í för með sér, og því ætlum við að skýra það í stuttu máli.

PlayStation 3 notast við svokallaðan Cell örgjörva. Sá örgjörvi er virkilega öflugur, en forritarar hafa lengi kvartað undan því hversu erfitt er að þróa leiki fyrir þennan örgjörva, og þ.a.l. fyrir PlayStation 3. Fyrir vikið hafa margir leikjaframleiðendur gefið leiki sína fyrst út á Xbox 360 og Steam (dreifingakerfi fyrir tölvuleiki), og síðan einbeitt sér að PlayStation. Undantekningar frá þessu eru stærstu leikjaframleiðendur heims, sem hafa tök á því að gefa út leikina fyrir öll kerfi jafnóðum.

Þessi breyting yfir í örgjörva með x86 skipanamenginu þýðir að það verður auðveldara fyrir sjálfstæða leikjaforritara að þróa leiki fyrir PlayStation.

 

Ný fjarstýring

Þótt Sony hafi ekki sýnt PlayStation 4 tölvuna, þá sviptu þeir hulunni af nýrri DualShock 4 fjarstýringu, sem mun fylgja með í kaupunum þegar tölvan kemur á markað.

Helstu nýjungarnar á fjarstýringunni er lítill snertiflötur og ljósrein (e. light bar) sem auðveldar tölvunni að bera kennsl á fjarstýringuna.

Nýr Share möguleiki var einnig kynntur til sögunnar, en með honum geta spilarar sent myndband af einhverju stórfenglegri stund í leikjaspilun sinni á netið með einföldum hætti. Með því að ýta á Share takkann, þá fer myndband af síðustu 10-15 sekúndum í leikjaspilun þinni beint á netið. Spilun leiksins stöðvast í skamma stund á meðan þetta fer fram.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af DualShock 4 fjarstýringunni. Notendur á snjallsímum og spjaldtölvum geta „swipe-að“ til að skipta á milli mynda. Einnig er hægt að að skjá myndirnar í fullri upplausn með því að smella á Full Screen táknið ofarlega hægra megin.


Útgáfudagur tölvunnar

Þegar stórt er spurt, þá er fátt um svör. Um útgáfudag tölvunnar sagði Sony einfaldlega að tölvan myndi koma á markað fyrir næstu jól.

Author

Write A Comment

Exit mobile version