Google Chromecast er einn af þessum svokölluðu streymistautum (e. streaming stick) eins og við viljum kalla slík tæki, en þau eru að festa sig í sessi vestanhafs, með útgáfu Roku Stick og Amazon Fire Stick. Chromecast var fyrst slíkra tækja á markað, og hefur notið nokkurra vinsælda meðal neytenda.

Tækið sjálft er mjög fyrirferðalítið. Lítill kubbur á stærð við minnislykil, með HDMI tengi í sjónvarp (eða skjá) og micro-USB snúru sem notuð er til að veita tækinu straum, hvort sem það er frá hleðslutæki (fylgir með) eða frá öðru tæki með USB innstungu (t.d. leikjatölvu). Chromecast er mjög ódýrt tæki, kostar einungis 8.990 kr. hérlendis, og 35 bandaríkjadali vestanhafs.

Uppsetning Chromecast er nokkuð einföld. Þú tengir tækið við sjónvarp, og keyrir svo Chromecast forritið á einkatölvu til að tengja tækið við þráðlaust staðarnet heimilisins. En hvað svo?

Viðmót

Tækinu fylgir engin fjarstýring, og ef ekkert er í spilun, þá er skjárinn sambærilegur þeim sem þú sérð hér að ofan. Ef þú vilt horfa á efni, þá verðuru að varpa því frá snjallsíma, spjaldtölvu eða einkatölvu sem er nærri þér. Þú getur einungis notað þjónustu ef forritið þeirra í iOS/Android styður Chromecast sérstaklega. Þar að auki geturðu varpað flipa úr Google Chrome yfir í Chromecast ef þú setur upp Google Cast viðbótina á vafranum.

https://www.youtube.com/watch?v=cKG5HDyTW8o

Hvaða forrit/þjónustur styðja Chromecast?

Chromecast kom á markað í júlí 2013, þannig að ýmsar þjónustur hafa bætt Chromecast stuðningi við snjallforritin sín. Hérna eru helstu forritin sem styðja tækið:

  • YouTube: Stærsta myndbandasíða heims. Er í eigu Google. Auðvitað styður hún Chromecast.
  • Plex: Ef þú halar mikið af efni niður á tölvuna þína eða hefur tekið afrit af DVD/Blu-ray myndunum þínum, þá getur verið að þú notir Plex, sem er vinsæl lausn. Plex er með vinsælli forritum sem styðja Chromecast. Plex krefst þó þess að forritið Plex Media Server (PMS) sé uppsett og í gangi á einkatölvu eða nettengdum flakkara sem styður forritið.
  • Rdio: Betamax streymiþjónustanna, hefur verið í boði á Íslandi lengur en Spotify og styður Chromecast, en er notuð af fáum. Google Play Music styður einnig Chromecast.
  • Netflix/Hulu/Pandora/BBC iPlayer: Sjá næstu málsgrein.
  • Videostream (Google Chrome viðbót): Viðbót sem gerir þér kleift að spila skrár af tölvunni þinni á Chromecast með einföldum hætti.

Spotify styður ekki Chromecast. Hérna má sjá lista yfir öll forrit sem styðja Chromecast.

Netflix og Hulu styðja Chromecast. Frábært!… eða hvað?

Flestir íslenskir söluaðilar nefna að Chromecast styðji Netflix, Hulu og þvíumlíkar þjónustur. Að gefnu tilefni viljum við benda á að notkun Chromecast með þessum þjónustum er vægast sagt erfið.

Allir sem nota Netflix eru kunnugir þeim DNS æfingum sem eru nauðsynlegar, svo hægt sé að nota þjónustuna á Íslandi. Google hafa séð við þessu, og hafa fest DNS þjóna sína í tækið, þannig að Chromecast spyr alltaf DNS þjóna Google „Hvar er ég staddur núna?“ þannig að það hefur engin áhrif að setja DNS gildi hjá þar til gerðum þjónustum í beininn (e. router) þinn.

Til þess að fá Netflix, Hulu og fleiri þjónustur á Chromecast þarftu því að:
1. Setja DNS gildi þjónustunnar sem þú notar í routerinn þinn og
2. Loka á allar beiðnir til DNS þjóna Google í beininum þínum – Þetta er ekki hægt í öll beinum (ok… routerum), og ef það er tilfellið þá geturðu því ekki notað þessar þjónustur á Chromecast. Glatað.

Af þessum ástæðum viljum við beina þeim tilmælum til allra söluaðila tækisins á Íslandi að upplýsa væntanlega kaupendur um hvað er nauðsynlegt að gera til að nota áðurnefndar þjónustur með Chromecast. svo kaupendur sitji ekki eftir með sárt ennið og gagnslaust tæki þegar heim er komið.

Er einhver munur á Chromecast streymi og AirPlay?

Já, og þetta er einn helsti kostur Chromecast tækisins. AirPlay tæknin á milli iOS tækja (og Mac tölva) og Apple TV margmiðlunartækisins er þannig að ef notandinn sem er að streyma efni slekkur t.d. á iPhone símanum sínum eða yfirgefur rýmið þar sem efnið er í spilun, þá rofnar straumurinn.

Chromecast gerir þetta öðruvísi. Þegar þú varpar efni yfir, þá tekur Chromecast við merkinu, þannig að þér er frjálst að loka forritinu, slökkva á símanum eða yfirgefa heimilið án þess að raska spilun á einhvern hátt. Þægilegur, en nauðsynlegur eiginleiki, þar sem fjarstýring fylgir ekki.

Niðurstaða

Chromecast er frábær hugmynd, og nokkuð sem við mælum alveg með fyrir tæknisinnaða einstaklinga. Helsti vandinn er sá að það er litlar líkur á að þú verðir að horfa á einhvern sjónvarpsþátt kortéri eftir að þú tengir tækir, eins og maður vill gjarnan að sé raunin. Þeir sem fá tækið í jólagjöf, munu því líklegast verja heilli kvöldstund í að fá eitthvað til að spilast á skjánum, nema þeir viti nákvæmlega að hverju þeir ganga.

Write A Comment

Exit mobile version