Eins og við greindum frá fyrir liðlega tveimur vikum þá verður Apple með viðburð á morgun í San Francisco, þar sem fyrirtækið mun kynna nýjustu iPhone 6S og 6S Plus. Viðburðurinn byrjar kl. 10.00 á staðartíma, eða 17:00 að íslenskum tíma.

Margir velta fyrir sér hvað nákvæmlega kemur í þessum tækjum, og hvað annað Apple muni kynna á morgun. Það er því ágætt að fara yfir það helsta sem hefur lekið í fjölmiðla.

iPhone 6S/6S Plus

Þar sem þetta er S-útgáfan af iPhone, þá verður útliti tækjanna ekki breytt svo nokkru nemi, en síminn fær í staðinn stærri vélbúnaðaruppfærslu. Símarnir verða þó aðeins þykkari en forverinn, en það er svo Apple geti komið Force Touch skjá fyrir í símanum. Þessi tækni er komin í Apple Watch, en hún gerir tækjunum kleift að nema þegar ýtt er á skjáinn með einhverjum þrýstingi, og framkvæma ýmsar aðgerðir út frá því.

6S/6S Plus mun líka fá nýjan og hraðari A9 örgjörva, 2GB af vinnsluminni og 12 megadíla myndavél með stuðningi fyrir myndbönd í 4K upplausn.

Apple TV 4

Mikið var að kýrin bar segja margir. Önnur kynslóð af Apple TV kom á markað 2010, og síðan þá hefur tækið einungis fengið örlitla vélbúnaðaruppfærslu, en annars hefur lítið breyst. Á síðustu viðburðum hafa margir spáð því að Apple kynni nýtt Apple TV, en á morgun virðist loksins vera komið að kynningu tækisins.

Samkvæmt sterkum orðrómi innan tækniheimisins þá mun Apple TV 4 vera örlítið þykkara en núverandi kynslóð. Það verður gert til að koma 802.11ac íhlutum fyrir, með allt að 1,3 Gbps flutningsgetu. Notendur munu einnig geta leitað að efni og séð í hvaða þjónustu efnið er í boði, auk hljóðnema í fjarstýringu svo hægt sé að finna efni með hjálp Siri.

New York Times, sem mætti nánast kalla opinberan leka-fjölmiðill Apple, greindi nýverið frá því að Apple sé að beina sjónum sínum að leikjum, og vilji brúa bilið á milli margmiðlunarspilara og stærri leikjatölva eins og PlayStation og Xbox. App Store fyrir Apple TV mun einnig loksins líta dagsins ljós, en það er nokkuð sem margir hafa beðið með mikilli eftirvæntingu. Tækið verður nokkru dýrara en núverandi kynslóð af Apple TV (sem fékk mikla verðlækkun í mars), og mun líklega kosta um $149 vestanhafs.

iPad Pro

Ef almannarómur lýgur ekki þá mun Apple einnig kynna iPad Pro, sem kemur með 12,9 tommu skjá og 2732 x 2048 upplausn (svona til samanburðar þá er þessi klassíski iPad með 9,7 tommu skjá), og með möguleika á að keyra tvö iPad forrit í fullri stærð þegar tækið er notað í landscape mode. Grunnútgáfanaf tækinu kemur með 64 GB geymsluplássi, en verðið á iPad Pro mun vera nálægt Macbook ef neytendur kjósa mikið geymslupláss og 4G.

 

Það verður spennandi að fylgjast með þessu á morgun. Einstein.is mun fylgjast með viðburðinum í beinni og tísta (eða twitta ef þér finnst það betra hugtak) það sem fyrir augu okkar ber.

Endilega fylgstu með okkur á Twitter, og taktu þátt í umræðunni með því að nota krossmerkið #AppleIS.

Write A Comment

Exit mobile version