Apple hélt einkafundi í byrjun vikunnar með nokkrum blaðamönnum stærstu tæknivefja heims, auk vinsælla YouTube stjarna í tæknigeiranum. Tilefnið var ný MacBook Pro tölva sem fyrirtækið kynnti svo á miðvikudaginn.

Nýja tölvan kemur með 16-tommu skjá, sex hátölurum (með Dolby Atmos stuðningi), betri hljóðnema og nýju lyklaborði. Rafhlöðuending er sögð vera allt að 11 klukkustundir í vefrápi, sem er klukkustund meira en forverinn.

Apple segir að gæði hljóðnemans í tölvunni séu slík að notandinn þurfi ekki lengur að kaupa ódýran USB hljóðnema fyrir símtöl eða myndbönd. Það varð til þess að Jonathan Morrison, sem er vinsæll fyrir tækniumfjöllun á YouTube rásinni sinni ræddi um tölvuna við Phil Schiller, markaðsstjóra Apple, og notaði eingöngu hljóðnemann á tölvunni til að taka upp viðtalið.

Geymslupláss og vinnsluminni hefur einnig verið aukið. Áður var ekki hægt að fá meira pláss en 512GB SSD disk og 16GB af vinnsluminni, en núna er hægt að fá allt að 8TB SSD disk, og 64 GB í vinnsluminni. Sé tölvan keypt með öllum dýrasta vélbúnaði sem völ er á þá kostar hún rúmlega 6000 dollara vestanhafs, sem vel yfir milljón hér heima.

Lyklaborðið

Það mikilvægasta af öllu við nýja gripinn. Þessi tölva kemur í stað 15 tommu útgáfunnar, og markar á nokkurn hátt endurkomu lyklaborðsins sem var í 2015 módeli tölvunnar, sem var áreiðanlegra í notkun en kynslóðin sem var í sölu síðustu ár. Kynning þessarar tölvu markar því upphafið að endalokum hins svokallaða fiðrildalyklaborðs (e. butterfly keyboard). Það eru skiptar skoðanir um lyklaborðið, en heilt yfir er ekki hægt að segja að notendur hafi tekið því fagnandi þar sem enginn Escape hnappur var á lyklaborðinu, auk þess sem að örvahnapparnir voru endurhannaðir til að samræma útlit, á kostnað þæginda í notkun. Þótt skoðanir notenda séu látnar liggja á milli hluta þá var það lyklaborð bara einfaldlega ekki nógu áreiðanlegt.

Apple kallar lyklaborðið á þessari tölvu New Magic Keyboard, og segir að það sé mjög líkt Magic Keyboard lyklaborðinu sem fylgir iMac/Mac Pro tölvum og er líka fáanlegt eitt og sér. Á þessu lyklaborði má finna Escape hnapp, auk þess sem örvahnapparnir eru aftur komnir í fyrra horf, þannig að þeir raðast eins og stafurinn T á hvolfi (e. inverted T formation).

Ódýrasta módelið af tölvunni kemur með 512 GB SSD disk í stað 256 GB eins og áður. Það módel byrjaði í 430.000 krónum hérlendis, þannig að það verður áhugavert að sjá hvort það verð haldist.

Exit mobile version