1. Pláss, pláss og meira pláss
Gmail notendur hafa 7,3 GB pláss á póstinum sínum (og eru alltaf að reyna að bæta það). Reyndar deilist þetta pláss á allar þjónusturnar í Google-reikningi manns, þannig að maður hefur 7,3 GB án þess að borga krónu fyrir. Með allt þetta pláss þá er hægt að nota póstinn til að senda sjálfum sér skjöl, tónlistarskrár o.fl. og geyma í pósthólfinu, í stað þess að vera að færa þau á milli með USB kubbi. Ef manni finnst 7,3 GB vera of lítið, þá er er hægt að kaupa meira pláss, allt frá 20GB ($5/ár) og upp í 16TB ($4096/ár).
2. Öflug ruslpóst-sía
Í Hotmail póstinum mínum var ég iðulega ýmist að lenda í því að góður og gildur póstur var flokkaður sem ruslpóstur, eða að ruslpóstur færi í innhólfið (e. inbox) mitt. Með Gmail-ið hef ég lent í þessu sjaldnar en 10 sinnum.
3. Einfalt viðmót
Þegar ég skrái mig inn á Hotmail til að sjá póstinn minn, þá er mér boðið að gera fullt af öðrum hlutum en að lesa póst (lesa MSN headlines, skoða messenger social o.fl.). Þegar notendur skrá sig inn á Gmail, þá sjá þeir póstinn sinn tafarlaust. Sjá eftirfarandi mynd:
4. Leitarmöguleikar
Google notar öflugt leitarkerfi sitt í Gmail, sem gerir það að verkum að hægt er að finna gamla tölvupósta á svipstundu.
5. Flokkar (e. Labels)
Engin þörf er á að setja póst í þar til gerðar möppur, heldur er hægt að flokka póstinn með þessum hætti, og m.a. hægt að setja sum skilaboð í marga flokka.
6. Lyklaborðs flýtivísanir
Fyrir notendur sem gera meiri kröfur heldur meðaljóninn (e. power users) þá eru til fjölmargar flýtivísanir sem hægt er að framkvæma á lyklaborðinu í Gmail. Flýtivísanirnar þarf þó að virkja sérstaklega í Mail Settings > General.[/tab]
7. Samtalsyfirsýn
Samtalsyfirsýn (e. conversation view) á tölvupóstum er mjög heillandi. Það virkar þannig að ef þú færð svar við pósti þá birtist það sem eitt heildsætt samtal, sem gerir manni auðvelt um vik að skoða pósta sem tengjast efninu sem um er rætt.
8. Öryggi
Gmail tengingar eru á öruggum vefþjóni (https), þannig að notendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að upplýsingar úr tölvupóstinum þeirra komist í hendur óprúttinna aðila.
9. Gmail Labs
Gmail býður upp á ýmsa möguleika, sem notendur geta virkjað á meðan þeir eru á prófunarstigi. Gmail Labs er í Mail Settings og Labs flipanum þar.
Dæmi um einn fídus sem er í miklu uppáhaldi hjá mér er „Undo Send“ . Hann gefur manni nokkrar sekúndur til að hætta við að senda póst í 5-30 sekúndur (eins og hentar notanda) eftir að hann er sendur, svo maður geti breytt efni pósts eða hætt við hann. Ef maður stillir „Undo Send“ á 10 sekúndur þá sendist pósturinn (eðlilega) ekki fyrr en að 10 sekúndum liðnum.
10. Gmail getur náð í póst frá öðrum tölvupóstþjónustum
Ef þú ert með fleiri en eitt netfang þá getur Gmail náð í tölvupóst frá þeim og birt í Gmailinu. Þá þarftu ekki lengur að vera að kanna póst á fjölmörgum stöðum ef þú ert t.d. með sér póst í skóla og/eða vinnu.
Bónus: Einnig er hægt að hafa Gmail á íslensku, sem getur haft eitthvað að segja fyrir suma notendur.