Það er okkur hjá Einstein.is sönn ánægja að birta eftirfarandi gestapistil frá Sveini Birki Björnssyni. Sveinn Birkir er reyndur íslenskur blaðamaður, starfar nú sem verkefnastjóri Íslandsstofu auk þess sem hann ritar vikulega í sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Fyrir skömmu kynntu Google og tímaritið Time metnaðarfullt verkefni sem þau hafa unnið í samvinnu við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) og Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna (USGS). Í sameiningu notuðu þessir aðilar gögn í sinni vörslu til þess að skapa tímamyndskeið (e. timelapse) af allri jörðinni sem spannar nærri þrjátíu ár.

Þetta tímamyndskeið notar gervihnattamyndir frá NASA sem lagðar eru ofan á kortaþjónustu Google. Hægt er velja sér stað á jörðinni og sjá hvernig hann breytist frá 1984 fram til 2012. Það er mjög forvitnilegt að sjá að fylgjast með breytingum hinum ýmsu landsvæðum á þessum tíma. Þarna má sjá breytingar sem orðið hafa á Reykjavíkurborg á þessum tíma. Landfyllingar breyta landslaginu, ný hverfi spretta upp og borgin dreifir úr sér.

Það er einnig forvitnilegt að fylgjast með áhrifum stórra framkvæmda á borð við Eyrasundsbrúnna, eða að sjá Hálslón við Kárahnjúka birtast árið 2007. En áhrifa mannsins gætir víðar. Það er ekki síður áhugavert að sjá afleiðingar lofslagsbreytinga á þessum tíma. Jöklar hopa og eyðimerkur breiða úr sér. Þá má sjá hvernig regnskógar Amazon hafa látið undan á síðustu áratugum.

Það er ekki heiglum hent að setja saman jafn mikið magn af gögnum og hér má finna. Vinna við verkefnið hófst árið 2009, og þá var farið að finna myndir sem væru nothæfar til verksins með aðstoð tölvuforrits. Myndunum var safnað frá átta gervihnöttum frá NASA, sem sveima um jörðina í rúmlega 700 km hæð. Úr þeirri hæð tekur það um 84 mínútur að fara hringinn í kringum jörðina.

Alls voru notaðar rúmlega tvær milljón gervihnattamyndir til að gera myndskeiðið. Þessar myndir voru notaðar til þess að finna punkta (e. pixel) sem hver og einn sýnir svæði sem er um það bil 30 m2. Sérvelja þurfti hvern punkt sem notaður var til að tryggja að ekki væru ský eða þoka sem skyggði á myndefnið. Alls nema þessi punktar trilljónum, enn það eru um 909 terabæt af gögnum sem liggja að baki myndskeiðinu. Hvert ár, eða hver “mynd” sem sett er saman samanstendur af 1,78 terapunktum, en til samanburðar má nefna að hefðbundnar snjallsímamyndavélar taka myndir sem eru um 8 megapunktar.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá áhrif Kárahnjúkavirkjunar á nærliggjandi landsvæði

Write A Comment

Exit mobile version