Windows 10

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft hefur að mati margra gjörbreyst (til hins betra) eftir að Satya Nadella tók við stjórnartaumunum af Steve Ballmer. Sá síðarnefndi hætti störfum hjá fyrirtækinu árið 2014, og einbeitir sér að því að styðja Los Angeles Clippers, körfuboltaliðið sem hann keypti á 2 milljarða dala fyrir rétt tæpu ári, til sigurs í NBA deildinni.

Sem dæmi um frábærar ákvarðanir sem teknar hafa verið í stjórnartíð Nadella má nefna eftirfarandi:

  • Microsoft Office pakkinn er kominn á iOS og Android,
  • Microsoft hefur keypt nokkur framsækin hugbúnaðarfyrirtæki eins og tölvupóstforritið Acompli og dagatalsforritið Sunrise. Acompli var síðar innlimað í Microsoft Outlook, sem er af mörgum talið besta tölvupóstforritið fyrir iOS í dag.
  • Visual Studio er ekki lengur takmarkað við Windows stýrikerfið, þannig að forritarar geta þróað hugbúnað fyrir Windows á Mac og Linux.
  • Windows 10 mun geta keyrt iOS og Android forrit, þannig að appleysi verður ekki jafn mikið vandamál á stýrikerfinu.
  • Netvafrinn Internet Explorer fór í Recycle Bin hjá forriturum við gerð Windows 10, sem kemur með nýjum netvafra, Microsoft Edge.
  • Windows 10 verður ókeypis fyrir þá sem eru með Windows 7 eða Windows 8 uppsett á tölvunum sínum.
Satya Nadella, forstjóri Microsoft

Nadella hefur samt haldið í eitt, en það eru þessar mismunandi útgáfur af Windows stýrikerfinu sem Microsoft sendir frá sér. Þegar Windows 10 kemur á markað í haust þá munu notendur geta valið á milli þessara stýrikerfa:

  1. Windows 10 HomeHefðbundna útgáfan sem er stíluð á almenna notendur. Þetta er líklega útgáfan sem kemur sem ókeypis uppfærsla.
  2. Windows 10 Mobile – Snjalltækjaútgáfa fyrir farsíma og minni spjaldtölvur.
  3. Windows 10 Pro – „desktop edition“ fyrir einkatölvur (PC), spjaldtölvur og hybrid tölvur.
  4. Windows 10 Enterprise – Þessi útgáfa líkist Windows 10 Pro, nema að hún kemur með eiginleikum til að mæta þörfum miðlungs og stærri fyrirtækja.
  5. Windows 10 Education – Útgáfa sem er miðuð við Windows 10 Enterprise, mætir þörfum skóla, bæði kennara og nemenda.
  6. Windows 10 Mobile Enterprise – Önnur útgáfa af Windows 10 Mobile, sérsniðin fyrir þá sem nota síma eða litla spjaldtölvu í vinnu.
  7. Windows 10 IoT Core Fyrir ódýrari tæki eins og Raspberry Pi og annað þvíumlíkt.
Það er skiljanlegt að það sé ekki sama útgáfa fyrir einkatölvur og spjaldtölvur, en það er ekki laust við að maður spyrji sig af hverju það sé ekki bara hægt að hafa eina útgáfu fyrir einkatölvu, eina fyrir snjalltæki, og svo þriðju fyrir önnur nettengjanlegt tæki (IoT).

Write A Comment

Exit mobile version