Hönnun

LG G3 er látlaus, stílhreinn og virkilega nettur sími miðað við stærð. 5,5 tommu QuadHD skjár símans fær að njóta sín, og tekur nánast allt pláss á framhlið símans. Það skilar sér í því að enginn heima-takki er á framhliðinni, og síminn eins lítill og hann getur orðið miðað við skjástærð. Til samanburðar þá er iPhone 6 Plus 12mm hærri og 2mm breiðari en G3.

Bakhliðin er sveigð (e. curved) þannig að hann fer vel í hendi, og á henni má finna takka til að hækka/lækka og slökkva á símanum. Við fyrstu sýn lítur skelin út fyrir að vera úr burstuðu stáli, en er í reynd úr plasti. Aðalhönnuður LG sagði að hann hefði viljað gera símann úr stáli, en þá hefði umgjörð símans verið stærri. LG ákvað því að fórna stáli fyrir stærð, og útkoman er ágæt.

Skjárinn er frábær, með 2560×1440 díla (eða 534 ppi) upplausn. Algeng skjástærð á snjallsímum í dag er á 3,7–4,5 tommur, og því er það ágætis hástökk að fara upp í 5,5 tommu skjá, og skiljanlegt að margir séu efins í þeim efnum.

Stærð símans venst þó merkilega fljótt. Í vissum tilvikum kemur fyrir að stærðin hái símanum, en þar fyrir utan er hún einn helsti kostur hans. Þegar maður er með þennan stóra skjá þá er loksins þægilegt að horfa á sjónvarpsefni í símanum, og ágætis valkostur frekar en ekki redding í neyðartilvikum.

Það var helst þegar ég ætlaði „bara aaaðeins“ að kíkja í símann sem að maður þurfa að vega og meta hvort það væri þess virði að taka þennan stóra síma úr vasanum. Slíkt getur þó haft sína kosti, og ætti t.d. að leiða til þess að bílstjórar grípi síður í símann á rauðu ljósi og missi samband við umferðina.

Vélbúnaður

Það er 2,5 GHz fjórkjarna Snapdragon örgjörvi sem keyrir LG G3, ásamt 2GB/3GB vinnsluminni (fer eftir gerð), og hefur rauf fyrir SD kort, þannig að þeir sem vilja enn meira pláss eru vel settir. Þrátt fyrir stærðina er G3 léttari en poki af Lays flögum, einungis 149g, og 27g léttari en helsti kepinauturinn, Samsung Galaxy Note 4.

Myndavélarnar á G3 eru tvær, eins og á öllum snjallsímum í dag. 13 MP myndavélin á bakhlið símans er mögnuð, með laser autofókus sem gerir manni kleift að taka margar myndir á svipstundu. Myndir teknar við minni birtuskilyrði voru einnig allt í lagi. Á framhliðinni er svo 2,1 MP myndavél fyrir sjálfsmyndir og myndsímtöl. Hér fyrir neðan má sjá örfáar myndir sem voru teknar á símanum.

 

 

 

Rafhlaðan er 3000 mAh (ef það hefur einhverja þýðingu fyrir þig). Með hefðbundinni notkun var rafhlöðuendingin fín, entist frá átta að morgni til tæplega fjögur daginn eftir. Aftur á móti var rafhlaðan fljót í orkufrekum aðgerðum á borð við tjóðrun (e. tethering) eða spilun leikja í hæsta birtustigi. Hægt er að skipta út rafhlöðunni, þannig að það er ráðlegt að kaupa eina aukalega ef stefnan er sett á vikulangt tjaldferðalag.

Þráðlaus hleðsla er einnig möguleg á G3, sem óhætt er að mæla með þar sem það getur verið erfitt að stinga litlum micro-USB kapli í samband þegar gengið er til náða í dimmu svefnherbergi. Þráðlaust hleðslutæki fylgir þó ekki með símanum heldur þarf að kaupa það aukalega.

Hugbúnaður/Viðmót

G3 kemur með Android KitKat (4.4.x) sem hefur lítillega breytt viðmót frá LG. LG eru stoltir af „bank kóðanum“ sem þeir hafa þróað til að opna símann, og mega vera það, en hann er einföld, örugg og þægileg leið til að opna símann úr svefni. Í því sambandi er einnig vert að geta þess að ekki þarf að ýta á neinn takka á bakhlið til að kveikja á skjánum fyrst, heldur er hægt að banka beint á svartan skjáinn til að opna símann.

Laser fókusinn á myndavélinni er hannaður þannig að við myndatökur er nóg að smella á brennidepil myndar á skjánum, og síminn tekur mynd af viðkomandi fyrirbæri með fókusinn stilltan á það. Á framhliðs-myndavélinni er svo hægt að taka myndir með því að halda uppi flötum lófa og kreppa svo hnefann.

Af því G3 er nokkuð stór, þá býður hann manni að stilla á einnar handar ham í vissum forritum, eins og sjálfum símanum og nokkrum öðrum til viðbótar. Það var ekki að gera mikið, því það þjappar takkaborðinu bara aðeins saman og færir til vinstri eða hægri að ósk notanda.

Tæknilegar upplýsingar

Stýrikerfi: Android KitKat (4.4.2)
Örgjörvi: Qualcomm Snapdragon 2,5GHz fjórkjarna örgjörvi
Vinnsluminni: 2GB (16GB útgáfan) eða 3GB (32GB útgáfan)
Rauf fyrir SD-kort: Já
Myndavél: 13MP með laser autofókus og tvöföldu LED flassi. 2,1MP myndavél á framhlið símans fyrir sjálfsmyndirnar. 2160p myndbandsupptaka í 30 römmum á sekúndu.
Hljóð: 1W hátalari
Stærð: 74,6 x 146,3 x 9,1 mm
Aðrir fídusar: LTE, NFC, Bluetooth 4.0 með BLE og þráðlaus hleðsla
Þyngd: 149g

Niðurstaða

Mjög athyglisverður Android sími. Frumleg og skemmtileg hönnun hjá LG, sem fer sínar eigin leiðir í stað þess að apa eftir öðrum framleiðendum. Einstaklega skarpur skjár, með skemmtilegum eiginleikum eins og bank-kóða og þráðlausri hleðslu.

Write A Comment

Exit mobile version