iOS 6 stýrikerfið hefur hingað verið þrándur í götu þeirra sem vilja framkvæma jailbreak á tækjunum sínum. Einungis er hægt að framkvæma svokallað tethered jailbreak á iPhone 4 og eldri tækjum, sem krefst þess að notendur ræsi símann með hjálp tölvu ef hann rafhlaðan tæmist eða einhver slekkur á símanum.
Hið eftirsóknarverða untethered jailbreak er ekki komið fyrir sömu tæki, og ekkert jailbreak fyrir iOS 6 fyrir þá sem eiga iPad 2, iPhone 4S eða nýrri tæki. Bráðum kemur þó betri tíð með blóm í haga, ef eitthvað er að marka forritarann og jailbreak sérfræðinginn Planetbeing.
Planetbeing er hluti af hinu margrómaða iPhone Dev-Team, sem eru á bak við forritið Redsn0w, sem flestir nota til að framkvæma jailbreak á tækjum sínum. Hann greindi nýverið frá því að hann væri með untethered jailbreak á iPhone 5 sem væri að keyra iOS 6.0.2.
Hann segir þó að ekki muni vera gefið út jailbreak sem almenningur geti nýtt sér (þ.e. Redsn0w eða sambærilegt forrit sem styður iOS 6.0.2), því þá muni Apple loka fyrir öryggisglufuna sem þeir nýta sér til að framkvæma jailbreak þegar iOS 6.1 kemur út, sem er talið að verði fyrr heldur en síðar.