fbpx

Apple, eigandi Beats, mun gefa út ný heyrnartól, Beats PowerBeats Pro, í næsta mánuði. Með útgáfu heyrnartólanna mun Apple nú bjóða notendum sínum upp á tvo valkosti í alveg þráðlausum heyrnartólum (sem hafa verið kölluð totally wireless vestanhafs).

Forpantanir á heyrnartólunum hefjast 3. maí í Bandaríkjunum og Kanada, og verðið er $249 (fyrir söluskatt).

PowerBeats Pro eða AirPods?

PowerBeats Pro sitja alveg inni í eyrunum, en AirPods hanga meira á þeim, ef svo má að orði komast. Það þýðir að AirPods bjóða ekki upp á neina hljóðeinangrun (e. noise isolation), sem þú færð með PowerBeats Pro.

PowerBeats Pro eru líka með allt að 9 klst rafhlöðuendingu, en AirPods með allt að 5 klst, þannig að þú nærð meiri hlustun á hverri hleðslu.

Loks má nefna að það eru vængir á PowerBeats Pro sem fara utan um eyrað, þannig að þú ættir að geta notað þau við æfingar, þar sem AirPods eru líkleg til að detta úr eyrunum.

Að þessu frátöldu þá koma heyrnartólin með H1 kubbinum sem er í annarri kynslóð af AirPods og „Hey Siri“ stuðningi sem gerir þér kleift að tala við aðstoðarforritið án þess að ýta á nokkurn hnapp.

Hvenær koma þau til Íslands? Hvað munu þau kosta?

Það er óvíst hvort þau komi í næsta mánuði til Íslands, en þau munu líklega kosta 30-35 þúsund krónur. Einnig er vert að geta þess skv. upplýsingum á beatsbydre.com verður eingöngu hægt að kaupa þau í svörtum lit fyrst um sinn.