Ef þú ert vefstjóri á síðu, einni eða fleiri, þá getur verið skelfilegt að lenda í því að þú skreppur í bíó, kemur heim, og sérð þá að síðan þín er búin að vera niðri í 2-3 tíma. Pingdom er reyndar ekki svo gott að það komi í veg fyrir að síðan hrynji, en þjónustan kannar með reglulegu millibili hvort síðan þín sé uppi.
Ef Pingdom sér að síðan liggur niðri, þá færðu tilkynningu um hæl, ýmist í tölvupósti, sms-i, eða með tilkynningu í iPhone eða Android forritinu þeirra.
Hægt er að nota Pingdom ókeypis ef maður er bara með eina vefsíðu, en annars þarf maður að borga mánaðargjald til þeirra, sem er $9.95 fyrir allt að 5 vefsíður og $39.95 fyrir allt að 30 vefsíður. Uppsetning á Pingdom tekur minna en 5 mínútur, og Einstein.is mælir eindregið með þjónustunni.