fbpx

Apple gefur út iOS 11 síðar í dag, og með nýrri útgáfu af iOS stýrikerfinu fyrir iPhone, iPad og iPod touch koma jafnan fjölmargir nýjungar. Eigendur iPad spjaldtölva ættu að fagna uppfærslunni, því iOS 11 gjörbreytir því hvernig hægt er að nota tækið, með sérstöku forriti sem heldur utan um allar skrár (þ.e. Files appið), „Drag and drop“ stuðningi (sem gerir notendum kleift að draga myndir og aðra hluti í ritvinnsluforritum o.s.frv.), betrumbættu Control Center o.fl.

Áður en tækið er uppfært er þó vissara að kanna nokkur atriði.

Styður tækið mitt iOS 11?

Í stuttu máli er svarið já ef þú átt iPhone 5S / iPad Air eða nýrra iOS tæki. Ef þú vilt samt vera handviss þá geturðu séð á myndinni fyrir neðan hvaða tæki styðja iOS 11.

Ef þú ert með elstu tækin á listanum þá viltu kannski bíða og lesa þér til um hvernig tækið virkar á iOS 11. Ástæðan er sú að stundum hafa stórar iOS uppfærslur hægt á tækjum, og eftir að uppfært er í nýrri útgáfu þá er ekki hægt að fara til baka.

Er ég með nógu mikið pláss fyrir iOS 11?

Til að geta sótt iOS 11 beint af tækinu þínu þarftu að vera með u.þ.b. 2 GB af lausu plássi. Við mælum með 2,5 GB eða meira svo þú sért alveg örugg/öruggur.

Ef þú ert ekki með nóg pláss til að uppfæra beint úr iPhone símanum eða iPad spjaldtölvunni, þá geturðu líka tengt tækið við iTunes, sótt uppfærsluna þar og uppfært tækið.

Afrit, afrit afrit

Góð vísa er aldrei of oft kveðin, og það á svo sannarlega við um afrit áður en stór stýrikerfisuppfærsla er keyrð í gegn.

Þótt uppfærslan sé lipur hjá flestum þá geta ýmis atvik komið upp á, og þá viltu svo sannarlega eiga afrit af símanum þínum.

Þú getur tekið afrit af tækinu þínu með tvennum hætti:

  1. Tengja tækið við iTunes, hægri-smella á tækið og velja Back Up.
  2. Sett afrit á iCloud beint úr iOS tækinu með því að fara í Settings > iCloud > Storage & Backup og velja Back Up Now.

Við mælum með þessu því það getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis við uppfærsluna, og þá er mun betra að geta valið Restore from Backup þegar allt er komið í lag á ný.

Hvenær nákvæmlega kemur iOS 11?

Undanfarin ár hefur Apple sent stórar iOS uppfærslur frá sér kl. 10. Apple er á kyrrahafstíma (GMT –7 á sumartíma) þannig að hún ætti að detta í hús um fimmleytið.

Ekki búast við því að niðurhalshraðinn á uppfærslunni sé mikill ef þú reynir að sækja iOS 11 í dag, einfaldlega vegna álags á vefþjónum Apple, sem er algengt fyrsta daginn.