Þegar þetta er ritað þá eru yfir tvö milljón forrit í App Store. Í Google Play má finna yfir 2,2 millljón forrit, 669 þúsund í Windows Store, og 234 þúsund forrit í BlackBerry World.
Á árdögum þessara forritabúða var óformleg keppni á milli Apple og Google um hvor búðin væri með meira úrval forrita. Auk þess sáu fyrirtæki víða um heim sig knúin til að „vera með app. Verðum að vera með app!“ óháð því hvort það hentaði myndi bæta stöðu þeirra á markaði. (Gott dæmi um slíkt er LÍN-appið)
Þetta hefur orðið til þess að forritin í App Store eru hreinlega orðin allt of mörg. Einhverr þeirra eru mjög góð (innan við 10%), einhver allt í lagi, og sum hver algjört drasl. Apple hefur greint frá því að eftir iPhone kynninguna á miðvikudaginn muni nokkurs konar hreinsun hefjast.
Fyrsta skrefið í þessari tiltekt Apple er að fjarlægja öll forrit úr App Store sem hrynja (eða krassa (e. crash)) við ræsingu. Varðandi forrit sem virka illa, þá munu forritarar fá 30 daga til að uppfæra sín forrit þannig að þau virki almennilega.
Apple ætlar einnig að takmarka fjölda stafabila sem geta verið í nafni forrits, úr 255 stöfum niður í 50. Athugið að hér er ekki um að ræða heiti forritsins sem birtist á heimaskjá, heldur í iTunes Connect, sem er ekki sýnilegt hinum almenna notanda. Útgefendur forrita hafa oft sett inn ýmis stikkorð í nafn forrits, þannig að það birtist þegar leitað er að vinsælum leik (t.d. flappy bird), eða að forritum almennt á ýmsu sviði (t.d. podcast eða movies).