fbpx

Apple aðdáendur víða um heim fengu óvæntan glaðning er fyrirtækið lokaði netverslun sinni í fáeinar klukkustundir og opnaði hana svo aftur með nýjum vörum. Apple hefur farið þessa leið áður þegar það gerir lítils háttar breytingar á vörulínu fyrirtækisins.

iPhone (PRODUCT)RED

Nú er hægt að fá iPhone í rauðum lit, sem er hluti af PRODUCT(RED) vörulínu fyrirtækisins. PRODUCT(RED) er samstarf á milli Apple og (RED) sem vinnur gegn útbreiðslu alnæmis í heiminum.

Apple hóf samstarf með (RED) árið 2007 (með sölu á rauðum iPod Nano), og á þessum tíu árum hefur fyrirtækið gefið 130 milljónir dala (sem er erfitt að breyta yfir eina heildarupphæð í íslenskum krónum, því á þessu tímabili hefur gengi bandaríkjadals farið úr 58 krónum og upp í 135 krónur).

Ódýrari iPad – einfaldari vörulína

Nýr ódýr iPad

Undanfarið ár hefur verið hægt að kaupa iPad Air 2, iPad mini 2, iPad mini 4 ásamt iPad Pro í tveimur skjástærðum (9,7 og 12,3 tommu). Það eru fimm mismunandi gerðir af iPad.

Í gær var iPad vörulínan einfölduð til muna, og iPad Pro aðgreindur betur frá öðrum spjaldtölvum fyrirtækisins. Apple kynnti iPad sem kostar frá 329 dölum vestanhafs (rétt tæplega 40 þúsund krónur með söluskatti vestanhafs). Hann mun líklega kosta á bilinu 55-60 þúsund krónur hérlendis með 32GB geymsluplássi, að teknu tilliti til verðlags á iPad vestanhafs annars vegar og á Íslandi hins vegar (athugið þó að þetta er eingöngu getgátur).

Fyrir áhugasama þá kostaði forverinn, iPad Air 2, frá 399 dölum með 32GB geymsluplássi, þannig að þessi nýi iPad er tæplega 18% ódýrari. Hann er einnig bæði þykkari og þyngri, 7,5mm og 469 grömm á meðan iPad Air 2 var 6,1mm á þykkt og 437 grömm að þyngd.

Þessi nýi iPad er ekki bara þykkari og þyngri, heldur líka hraðari. Hann er með 64-bita A9 örgjörva, sem er með mun betri afköst í single core performance heldur en A8X örgjörvinn í iPad Air 2.

iPad Mini
iPad mini er áfram í sölu, en einungis í einni útgáfu, þ.e. iPad mini 4 með 128 GB geymsluplássi, og kostar 399 dali. Ef þú vilt fá ódýrasta iPadinn frá Apple, þá er nýi iPadinn því varan fyrir þig.

Enginn iPhone lengur með 16 GB

Geymsluplássið á iPhone SE var einnig tvöfaldað, þannig að hann kemur nú með 32GB og 128 GB. Með þessari breytingu þá er iPod Touch eina iOS tækið sem er fáanlegt með 16 GB af geymsluplássi.

Apple Watch

Apple Watch var ekki skilið út undan, en nú er eingöngu hægt að kaupa þessi hefðbundnu Apple Watch úr með sport ól annars vegar og Milanese Loop hins vegar. Áður stóð neytendum til boða að kaupa úrin með leðuról, nælon-ól o.s.frv., en nú þarf að kaupa slíkar ólar sérstaklega.

(Við bendum á að það er hægt að kaupa fjölda Apple Watch óla á Amazon sem eru ódýrari en þessar opinberu ólar).

Avatar photo
Author