fbpx

Á heimili þínu má eflaust finna einhvern af eftirfarandi hlutum: sjálfskipta bifreið, soundbar heimabíókerfi, flatböku í frystinum, Betty crocker kökumix, gufutæki fyrir skyrtur og/eða Bluetooth heyrnartól. Það er þægilegra að keyra sjálfskiptan bíl þótt beinskiptir bílar séu ódýrari og gefi bílstjórum meiri stjórn. Soundbar heimabíókerfi eru skárri en innbyggðir sjónvarpshátalarar en mun síðri kostur en heimabíómagnari og stakir hátalarar.1 Þessir hlutir eru úr ólíkum áttum en eiga flestir það sameiginlegt að kaupandinn velur þægindi á kostnað gæða.

Fyrir tæpu ári síðan (desember 2016) gaf Apple út sín fyrstu heyrnartól í nánast áratug sem fylgja ekki með seldu Apple tæki.2 Heyrnartólafyrirtækið Beats hefur verið í eigu Apple síðan 2014, en þrátt fyrir það ákvað raftækjarisinn að að gefa út AirPods undir sínu eigin vörumerki. AirPods heyrnartólin hafa notið mikilla vinsælda meðal eigenda þeirra, og nú höfum við notað ein slík í nógu langan tíma til að hægt sé að rita nokkur orð um þau.

AirPods og W1 kubburinn

Hefðbundin Bluetooth heyrnartól eru þannig að þú þarft að para þau við hvert tæki sérstaklega. Nýjustu Bluetooth heyrnartólin frá Apple og Beats koma einnig með svokölluðum W1 kubb. Kubburinn virkar þannig að þegar þú tengir heyrnartólin við eitt tæki (sem er oftast iPhone) þá eru þau líka pöruð við önnur Apple tæki (iPad, iPod Touch og Mac tölvur) sem eru tengd við sama iCloud reikning.

Um leið og þú tengir AirPods eða önnur Bluetooth heyrnartól með W1 kubbi við eitt tæki, þá er það parað við öll tæki á sama iCloud aðgangi.
Um leið og þú tengir AirPods eða önnur Bluetooth heyrnartól með W1 kubbi við eitt tæki, þá er það parað við öll tæki á sama iCloud aðgangi.

Galdurinn við W1 kubbinn er að notandinn getur einfaldlega rænt Bluetooth tengingunni af öðru tæki. Það er m.ö.o. engin þörf á því að aftengjast heyrnartólunum frá iPhone og tengja tækið svo við Mac eða iPad, eins og raunin er með hefðbundin Bluetooth heyrnartól.

W1 kubburinn í AirPods sér til þess að hljóðið haldist samtillt (e.  in sync) í bæði hægri og vinstri pinnanum,3 er með nálægðarskynjara sem stöðva spilun ef þú tekur annan hvorn pinnann úr eyranu.

Pörun

Að para AirPods heyrnartólin við iOS tæki er nokkuð ljúft ferli út af áðurnefndum W1 kubbi. Fyrir þann sem hefur tengt hefðbundin Bluetooth heyrnartól þá er ferlið örlítið þægilegra, en alls ekki nein bylting.

AirPods - Pörun

Þegar þú notar flest önnur Bluetooth heyrnartól þá þarftu alltaf að byrja ferlið á því að kveikja á heyrnartólunum og bíða eftir að þau parist við tækið þitt. Þetta er ekkert vandamál ef heyrnatólin eru einungis tengd einu tæki.

Galdurinn við AirPods er að þetta þarf aldrei að gera. Það er engin power takki á heyrnartólunum sem gera notandanum kleift að kveikja eða slökkva á þeim. Þú einfaldlega tekur pinnana úr öskjunni, stingur þeim í eyrað og þá eru þau tengd. Töfrum líkast.4

Ljóminn af þessari ljúfu pörun fer þó ef þú prófar að tengja þau við annað iOS tæki eða Mac tölvu. Það sem gerist þá er eftirfarandi. Þú tengir AirPods við Mac tölvu með því að velja þau úr Bluetooth valmyndinni (sjá Mac skjáskot ofar í færslu). Þegar þú gengur svo af stað með heyrnartólin og vilt nota þau með iPhone símanum þínum, þá opnarðu öskjuna og þetta blasir við þér.

„AirPods eru tengd. Spilun getur hafist, right? Wrong“

Myndin hér til hliðar er gott dæmi. Þá höfðu AirPods verið tengt við fartölvuna mína. Ég setti þau síðan aftur í boxið, fór úr húsi og opnaði öskjuna nálægt símanum mínum. Síminn var eina nálæga tækið  og AirPods birtust á skjánum eins og sést, sem gefur notandanum þá tilfinningu að heyrnartólin séu tengd. Raunin er sú að þegar þetta gerist þá þarfð notandinn alltaf að virkja AirPods sérstaklega í Settings > Bluetooth eða úr Control Center.5. Mælum þá með því að þrýsta fast á Settings valmyndina ef þú átt iPhone 6S eða nýrra tæki því þá geturðu farið beint í Bluetooth valmyndina.

Hegðunin sem er lýst hér fyrir ofan er á vissan hátt verri en á hefðbundnum Bluetooth heyrnartólum í sambærilegum aðstæðum, því þau leita gjarnan að öllum pöruðum tækjum (sem í þessu tilfelli er Mac tölva og iPhone sími) og tengjast sjálfkrafa því tæki sem það finnur. Ef heyrnartólin finna enga Mac tölvu (af því hún er ekki nálæg) þá tengjast þau símanum þínum. Það sem AirPods gera er að sýna að þau séu virk og nálæg tækinu þínu, en gefa ekki til kynna hvort þau séu tengd eða ekki.

Notkun

Til þess að stjórna AirPods er hægt að slá létt á pinnann, og þá geturðu annaðhvort notað Siri í ýmsar aðgerðir, skipt um lag, eða ýtt á play/pause. Hægt er að stilla heyrnartólin þannig að þegar þú slærð létt á vinstri pinnann þá biðurðu Siri um aðstoð, en þegar þú ýtir á hægri pinnann þá ýtirðu á Play/Pause (og aðrar útfærslur)

Stillingar fyrir double-tap á stakan AirPods pinna.

Ég bjóst við því að það myndi pirra mig að geta ekki hækkað eða lækkað á heyrnartólunum nema með Siri, en í raun hefur það ekki haft nein áhrif á mig að geta ekki hækkað eða lækkað, því síminn er sjaldnast langt undan þegar AirPods eru í notkun og þá er hægt að hækka/lækka á honum. Ef þú átt Apple Watch, þá geturðu líka hækkað eða lækkað á úrinu.

Það er þó nauðsynlegt að geta þess að ef þú stillir AirPods til að virkja Siri þá virka þau vitaskuld ekki ef þú ert netlaus. Það ætti ekki að vera stórmál fyrir Íslendinga sem eru almennt einum of meðvitaðir um að þeir séu að tala ensku við tækið sitt, og gera það síður á almannafæri.

Í janúar 2018 mun svo koma út ný útgáfu af öskjunni, sem hægt verður að hlaða á sérstakri hleðslumottu frá Apple sem heitir AirPower.6

Hvernig passa þau í eyru?

AirPods byggja á sömu hönnun og EarPods frá Apple (eru aðeins stærri). Við þróun EarPods heyrnartólanna þá skoðaði Apple hundruð margvíslegra eyra í leit að sameiginleigum eiginleikum. Það leiddi til þess að EarPods passa í flest eyru, jafnvel hjá einstaklingum sem geta ekki notað „hefðbundna tappa“. Þetta hefur aldrei verið vandamál hjá mér því slíkir tappar tolla ágætlega í eyrunum mínum. Konan mín er aftur á móti með öðruvísi eyru og getur ekki notað þannig tappa, en AirPods passa vel í eyrun hennar. Tveggja ára sonur hefur einnig prófað AirPods (og finnst þau mjög spennandi), og þau haldast í eyrunum á honum svo fremi sem hann er ekki með snöggar hreyfingar sem er nokkuð merkilegt.

Ef þú hefur áhyggjur af því að AirPods passi ekki endilega í eyrun þín, þá skaltu prófa EarPods sem fylgja með iPhone símanum þínum og meta stöðuna í kjölfar þess.

Rafhlöðuending

Svona geturðu kannað hversu mikið er eftir af rafhlöðunni á AirPods

Apple segir að rafhlaðan á AirPods endist 5 klukkustundir í spilun eða 2 klst í tali. Ég mældi í raun aldrei hvort þau entust allan þann tíma. Ástæðan fyrir því er sú að þegar heyrnartólin eru sett í öskjuna sem fylgir þeim, þá eru þau hlaðin. Askjan geymir fjórar hleðslur fyrir AirPods. Samkvæmt Apple er heildar-rafhlöðuending AirPods u.þ.b. sólarhringur í spilun eða 11 klst í tali.

Á vörusíðu AirPods segir Apple segir að 15 mínútna hleðsla í öskjunni gefi þeim 3 klukkustundir í spilun, eða 1 klst í tali.

Besta leiðin til að kanna stöðuna á rafhlöðunni er með því að gera eitt af eftirfardandi:

  1. Fara í Batteries widget-ið á iOS.
  2. Opna AirPods öskjuna í lítilli fjarlægð frá iPhone (sjá mynd ofar í umfjöllun) eða
  3. Spyrja Siri „How’s the battery on my AirPods?“

Þar sem askjan hleður AirPods heyrnartólin, þá þarf maður í raun aldrei að hafa  áhyggjur af rafhlöðuendingu þeirra, a.m.k. ekki á meðan um hefðbundna notkun er að ræða (þ.e. gönguferð, líkamsrækt, útréttingar o.s.frv.). Þetta er einn mesti lúxusinn við að eiga AirPods.

AirPods askjan er með Lightning tengi fyrir hleðslu. Flest Bluetooth heyrnartól eru með micro USB tengi, þ. á m. nokkur úr vörulínu Beats (einkum heyrnartól sem komu á markað áður en Apple keypti fyrirtækið). Öll iOS tæki sem Apple selur í dag eru með Lightning tengi og því má telja það eðlilegt að hafa sama tengi á AirPods öskjunni svo iPhone og iPad eigendur geti notað sömu snúru til að hlaða heyrnatólin.

Hversu oft þarf að hlaða AirPods?

Það fer eftir því hversu mikið þú notar þau. Ef þú vinnur í símanum og ætlar að nota þau í staðinn fyrir handfrjálsan Bluetooth búnað, þá muntu þurfa að hlaða þau daglega. Ástæðan er sú að rafhlaðan endist talsvert skemur í símtölum eins og rakið er að ofan.

Með hefðbundinni notkun (þ.e. 1-2 klst á dag sem takmarkast við hlustun) þá ætti að vera nóg að hlaða AirPods öskjuna einu sinni í viku.

[adsanity id=“13659″ align=“center“]

Hljóðgæði og hljóðnemi

AirPods kosta sitt og þú finnur líklega ekki önnur heyrnartól á svipuðu verðbili sem hljóma verr. Að því sögðu þá eru hljóðgæðin á þeim nógu góð, og ættu ekki að valda neinum vonbrigðum.

Annað sem ber þó að hafa í huga er að heyrnartólin fara ekki langt inn í eyra, og það er því ekki hægt að kalla þau hljóðeinangrandi heyrnartól (e. noise isolating) eins og flestar vörur frá samkeppnisaðilum Apple. Það þýðir að við notkun AirPods þá heyrast umhverfishljóð alveg ágætlega. Svo maður taki nærtækt dæmi þá bjóða BeatsX heyrnartólin bjóða t.d. upp á betri einangrun fyrir minni pening, og sambærilegan hljóm.

Hljóðneminn á AirPods er á móti frábær, og viðmælendur mínir eru allir á sama máli um að það heyrist mjög vel í mér þegar ég tala í AirPods.

Hönnun

Þetta einn helsti gallinn við AirPods. Útlitið. AirPods eru að mínu mati ekki flott, og það er ekki að ástæðulausu að vinsælasti brandarinn sem tengist AirPods er að viðkomandi líti út fyrir að vera með tvo þráðlausa tannburstahausa í eyrunum.

Á eftirfarandi mynd má sjá hvernig sambærilegar vörur frá samkeppnisaðilum Apple í þessum þráðlausu Bluetooth töppum líta út (smelltu á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð):

Þeir sem hafa séð EarPods frá Apple taka eftir því að fyrirtækið hélt sig við sömu hönnun, og það er ótrúlegt hvernig þessi sömu heyrnatól verða allt í einu mikið ljótari þegar snúran er farin og, og pinnarnir fá að lifa sjálfstæðu lífi.

Niðurstaða

Heimili mitt er óformlegt heyrnartólasafn. Þar má m.a. finna hágæða heyrnatól eins og B&O BeoPlay H7 (þráðlaus) og Sennheiser HD 25 sem eru bæði með frábært hljóð, en einnig minni og nettari heyrnartól á borð við BeatsX og Bose QuietComfort 20.

Þrátt fyrir mikið úrval frábærra heyrnartóla á heimilinu fylgja AirPods mér hvert sem ég fer,  vegna þess að það er svo þægilegt að vera alltaf með öskjuna í vasanum og geta stungið AirPods í eyrun þegar ég vil hlusta á eitthvað.

Þegar ég keypti mér fyrstu Bluetooth heyrnartólin mín þá sneri ég ekki aftur í snúruheyrnartól, nema í sérstökum tilvikum eins og flugferðum þar sem Bose QC20 koma að góðum notum. Eftir að ég fór að nota AirPods þá finnst mér ólíklegt að ég snúi aftur í hefðbundin Bluetooth heyrnartól nema í sérstökum tilvikum þegar ég vil fá betri hljóðeinangrun eða betri hljóm í skamman tíma.

AirPods hljóma ekki betur en heyrnartól á sambærilegu verði. Það skiptir ekki máli því þú kaupir AirPods ekki út af hljóminum þeirra. Þú kaupir þau út af þægindunum sem fylgja notkun þeirra. Þess vegna nota ég AirPods daglega.

AirPods kosta 24.990 krónur og fást á eftirfarandi stöðum: Epli | Macland | Síminn | NOVA | Heimkaup (kosta 25.990 þar).

  1. Slíkar græjur fá auk þess ekki alltaf samþykki annarra á heimilinu.
  2. Síðustu heyrnartólin voru Apple in-ear heyrnartólin sem komu á markað í september 2008.
  3. Nokkuð sem virkar t.d. alls ekki nógu vel í QCY Q29 heyrnartólunum sem undirritaður hefur einnig prófað, og virðist vera vandamál í öðrum truly wireless heyrnartólum, eins og þessi flokkur heyrnartóla er oft kallaður.
  4. Rétt er að geta þess að þessi ótrúlega þægilega tenging er bara til staðar á AirPods. Önnur Beats heyrnartól með W1 kubbnum (t.d. BeatsX) þarf að kveikja á sérstaklega, og því er upplifunin þar svipuð hefðbundnum Bluetooth heyrnartólum.
  5. Af einhverri ástæðu tekur það skemmri tíma að tengjast AirPods úr Settings > Bluetooth heldur en úr Control Center þannig að við mælum frekar með þeirri aðferð.
  6. Sjá meira um AirPower hér