fbpx

Það hafa eflaust margir tekið eftir, og látið það fara í taugarnar á sér, breytingum á Spotlight leitinni í iOS 11.

Í fyrri útgáfum af iOS þá hefur jafnan verið nóg að skrifa „f“ eða „fa“ í leitargluggann til að Facebook forritið birtist, en með iOS 11 breyttist það þannig að notandinn þarf að skrifa nafn forritsins í heild sinni.

Þetta getur verið hvimleitt, einkum þegar um er að ræða forrit sem flestir þekkja undir einhvers konar stuttnefni. Dæmi um slíkt er forritið sem heitir fullu nafni Já.is í App Store, og birtist því ekki í leitarniðurstöðum nema notandinn skrifi „já.is“ eða „ja.is“.

Til að leysa vandann þarftu að gera þetta:

  1. Byrjaðu á því að fara í Settings > Siri & Search og kveikja á Suggestions in Search og Suggestions in Look Up.
  2. Síðan þarftu að fara í hvert forrit sem þú vilt að birtist í leitinni ýta á hakið þannig að það birtist í leitinni.

Það er dálítið handavinna að gera þetta fyrir öll forrit og leiki, en þetta er nauðsynlegt. Þegar þú hefur gert þetta þá ætti leitin að vera mun betri.

Voilà. Komið!

Hvað er Spotlight?

Spotlight er nafnið á kerfisleitarvél Apple í bæði macOS og iOS. Þegar ný Mac tölva er tekin í notkun eða hún uppfærð þá er hún stundum hæg fyrstu dagana á meðan Spotlight býr til skrá (e. index) yfir lýsigögn (e. metadata) á tölvunni.

Spotlight er aðgengilegt á macOS með því að ýta á Cmd+Space (nema þú hafir breytt þeirri flýtiskipun) eða með því að ýta á stækkunarglerið uppi í hægra horninu.

Á iOS tækjum virkjarðu Spotlight leitina með því að draga skjáinn niður þegar heimaskjárinn er virkur.