fbpx

Afrita DVD

Ef þú átt myndarlegt DVD safn sem gerir ekkert nema að safna ryki, þá hefurðu ef til vill velt því fyrir þér hvort það sé ekki hægt að koma þessu myndum á tölvutækt form, svo hægt sé að koma myndunum snyrtilega fyrir í geymslunni.

Hér á eftir ætlum við að benda á nokkrar mismunandi leiðir til að koma DVD myndum (og Blu-ray þegar svo ber undir) yfir á tölvutækt form.

Leið 1: Handbrake

Handbrake er ókeypis forrit fyrir Windows, Mac og Ubuntu (Linux) sem gerir notandanum kleift að afrita DVD mynd yfir á tölvu. Forritið býður upp úrval stillinga, t.d. hvort þú viljir hafa gæðin í einhverju hlutfalli af upprunalegu útgáfunni eða stefna að ákveðinni stærð (t.d. minnka 4,47GB DVD mynd niður í 2GB .mkv skrá).

Með Handbrake geturðu líka afritað hluta myndarinnar, eða einn titil af mörgum (t.d. ef þú ert með marga sjónvarpsþætti á einum disk). Forritinu fylgja svo ýmsar sjálfgefnar stillingar sem hægt er að notast við ef þú vilt horfa á myndirnar þínar í ákveðnu tæki, eins og sjá má eftirfarandi mynd (smellið á myndina til að sjá hana í fullri stærð).

HandbrakeDæmi: Ef þú vilt afrita DVD disk yfir í tölvuna þína og spila í Apple TV-inu þínu þá þarftu að fylgja eftirfarandi leiðarvísi:

Skref 1: Settu DVD diskinn í og opnaðu Handbrake.

Skref 2: Smelltu á Source, og finndu DVD diskinn þinn í glugganum sem opnast. Þegar þú sérð AUDIO_TS og VIDEO_TS möppurnar þá skaltu smella á Open, en án þess þó að velja þessar möppur.

Skref 3: Forritið skannar diskinn þinn og setur oftast sjálfa myndina í Title (sjá myndina að ofan). Þú ættir að sjá hvort það sé tilfellið ef þú smellir á lengd titilsins og sérð hina titlana.

Skref 4: Veldu stillingar, t.d. Apple TV, í valmyndinni hægra megin, og smelltu síðan á Start. Athugið að ef þú vilt bæta myndinni í iTunes þá þarftu að velja MP4 file í Format reitnum.

Skref 5: Smelltu á Start. Ferlið getur tekið nokkra klukkutíma, þannig að ekki gera ráð fyrir því að þú setjir ferlið í gang, takir einn netrúnt og myndin verði síðan tilbúin.

Notendur geta eins og áður sagði stillt forritið eins og þeir vilja, en ef þú koma DVD safninu þínu yfir í iTunes og skoða í Apple TV, þá er þetta nokkuð einföld leið. Handbrake forritið er ókeypis, þannig að það er lítið mál að prófa forritið og kanna hvort maður nenni að fara í þennan pakka.

Leið 2: RipIt

RipIt er afritunarforrit fyrir Mac sem hefur áður verið til umfjöllunar á síðunni. Eins og fram kom í fyrri umfjöllun þá er lítið um stillingar í RipIt. Forritið nemur sjálfkrafa hvort það sé diskur í geisladirifinu, og síðan er  hægt að smella á tvo hnappa í forritinu, Rip eða Compress. Fyrri takkinn (Rip) afritar DVD diskinn eins og hann leggur sig, en sá síðarnefndi ( Compress) breytir efni disksins yfir í .mp4 skrá sem hægt er að spila í öllum iOS tækjum, auk flestra gerða af sjónvarpsflökkurum og öðrum margmiðlunarspilurum.

RipIt

Ólíkt Handbrake þá er RipIt ekki ókeypis. Forritið fæst á heimasíðu The Little App Factory og kostar $24.95.

Leið 3: MakeMKV

MakeMKV

MakeMKV er líkt og Handbrake til fyrir Windows, Mac og Linux, og býður upp á einfalda og þægilega leið til að koma DVD og Blu-ray myndum yfir á hið vinsæla .mkv skráarsnið.

Forritið er í raun jafn einfalt og RipIt, nema það skilar myndinni í öðru skráarsniði (þ.e. .mkv í staðinn fyrir .mp4). Til að nota MakeMKV þá nægir að setja diskinn í og smella á „DVD 2 Disc“ hnappinn. Nýttu svo tímann og keyptu í matinn fyrir vikuna, og myndin ætti að vera tilbúin þegar þú kemur heim (tekur að jafnaði 30-40 mínútur).

MakeMKV er ókeypis og er fáanlegt á opinberri heimasíðu forritsins.

Samantekt – Hvaða forrit er best?

Það er erfitt að segja að eitthvað forrit sé best af þessum þremur. Handbrake er í raun öflugast af þessum þremur forritum, en að sama skapi þá þarf maður að verja meiri tíma í að afrita hverja mynd með Handbrake. RipIt og MakeMKV bjóða upp á minni möguleika, en myndin ætti að vera tilbúin innan klukkustundar.

Avatar photo
Author

1 Comment

  1. Handbrake var ágætt forrit á sínum tíma, En ég gafst endanlega upp á því um daginn og fann forrit sem heitir MacX DVD Video Converter. http://www.macxdvd.com Mjög einfalt, fjölhæft og áreiðanlegt.

Write A Comment