Bandaríkin eru án nokkurs vafa einn allra vinsælasti áfangastaður Íslendinga, sem vilja taka smá pásu frá hversdagsleikanum og sjá hversu mikið álag segulröndin á kreditkortinu þolir.
Þessir sömu ferðalangar hafa oft hug á því að kaupa einhver ákveðin raftæki, og nýta sér ódýrt verðlag í Bandaríkjunum, og iPhone símar eru þar engin undantekning. Mörgum þykir þó verðlag á iPhone símum vera heldur ruglingslegt, og ætlun okkar er að skýra betur hvar og hvernig þú getur keypt iPhone síma í Bandaríkjunum.
Ef þú ferð á heimasíðu Apple búðarinnar og smellir á iPhone þá blasir þetta við þér:
iPhone 5 á $199? Já takk!!!
Það er ekki nema von að maður spyrji sig hvort maður geti ekki fengið iPhone 5 síma í Apple búðinni á einungis $199? 30.000 krónur fyrir síma sem kostar (þegar þetta er ritað) 169.000 krónur hérlendis? Því miður er málið ekki svo einfalt.
Til þess að kaupa iPhone 5 síma á $199 þá verður maður að gera tveggja ára samning við símafyrirtæki. Í fyrsta lagi, þá getur ferðamaður ekki gert slíkan samning. Í öðru lagi, þá myndi það vera dýrara. Sigurjón Guðjónsson, íslenskur ljósmyndari sem búsettur er í New York, greindi nýverið frá þessu á persónulegu bloggi sínu (uppfært: vefurinn farinn), en þar kemur fram að lágmarkskostnaður einstaklings á samningi hjá Verizon sé u.þ.b. 16-17 þúsund krónur á mánuði.
16.000 krónur á mánuði í 24 mánuði = 384 þúsund kr. + 30.000 kr. til að kaupa símann „ódýrt“ = 414.000 krónur. Þetta borga Bandaríkjamenn fyrir að vera með iPhone síma. Til að kóróna þetta þá er síminn síðan einnig læstur á það símafyrirtæki sem þú gerir samning við, þannig að Bandaríkjamenn sem eru hjá AT&T geta ekki látið vin eða fjölskyldumeðlim sem eru hjá öðru símafyrirtæki fá símann sinn ef þeir vilja skipta yfir í Android símtæki.
Hvernig kaupi ég, ferðamaðurinn, þá opinn síma sem hægt er að nota á Íslandi?
Til þess að kaupa opinn (eða ólæstan) síma, þá þarftu að ganga inn í næstu Apple búð og biðja um Factory Unlocked iPhone síma. Apple hefur ekki gefið upp verðið á því hvað þeir muni kosta, en iPhone 4S kostaði $649 (81.000 krónur miðað við núverandi gengi) og það má leiða líkur að því að iPhone 5 muni kosta svipað mikið, og að iPhone 4S muni þá lækka eilítið í verði.
Til að sjá lista yfir Apple búðir þá skaltu smella hér. Apple búðir er að finna á öllum áfangastöðum Icelandair (já… líka Anchorage).
Ef þú ert að kaupa iPhone 5 þá þarftu einnig að leggja ríka áherslu á að þú ætlir að nota símann í Evrópu svo þú fáir rétta gerð af iPhone 5 (þetta verður til umfjöllunar í annarri grein á næstunni).
Ferðalangar í litlum raftækjabúðum á borð við þær sem þekktar eru í kringum Times Square í New York verða að vara sig á sölumönnum þar. Margir lesendur hafa nefnilega lent í því að slíkir sölumenn segja símann vera ólæstan og selja hann á fullu verði (eða rúmlega fullu verði). Kaupandinn endar þá með létta buddu og læstan síma.
Ef maður ætti að taka þetta allt saman í eina setningu: Eingöngu kaupið símann í Apple búð ef henni er til að dreifa, og biðjið um Factory unlocked síma.