Hin árlega WWDC ráðstefna Apple (Worldwide Developers Conference) verður sett í dag með stefnuræðu (e. keynote) æðstu stjórnenda fyrirtækisins, þar sem helstu nýjungar Apple varðandi iOS, Mac OS X og á fleiri sviðum verða kynntar.
Til að sækja WWDC þurfa ráðstefnugestir að reiða fram 1600 dali eða rúmar 180 þúsund krónur miðað við núverandi gengi. Þrátt fyrir dýran ráðstefnupassa þá eru færri sem komast að en vilja, og eftirspurnin er svo mikil að Apple ákvað að hafa happdrættisfyrirkomulag þetta árið, en í fyrra seldust allir miðar á einungis tveimur mínútum og margir sátu eftir með sárt ennið.
WWDC ráðstefnan verður fram á föstudag, en þetta er í raun eini vettvangurinn þar sem forritarar hafa greiðan aðgang að starfsfólki Apple sem kemur að þróun iOS og Mac OS X.
Stefnuræðan hefst kl. 17.00 að íslenskum tíma og við ætlum að gera henni góð skil hérna á Einstein.is með beinni textalýsingu. Einnig verður hægt að horfa á herlegheitin á hefðbundnum einkatölvum (Mac með Safari eða Windows með Quicktime 7), iOS tækjum og Apple TV.