fbpx

Bandaríski tæknirisinn Amazon var með viðburð í síðustu viku, þar sem fyrirtækið kynnti margar vörur þ. á m. nýja hátalara í hinni vinsælu Echo vörulínu, sem fólk talar almennt um sem „Alexa hátalara“ þar sem að allar Echo vörur koma með stuðningi við Amazon Alexa.

Echo Studio

Þetta er varan sem fær mesta athygli. Nýr hátalari frá Amazon sem kemur með mun betri hljómi en aðrir Echo hátalarar, og ætti að vera sambærilegur við Apple HomePod, Google Home Max í hljómburði.

Echo Studio kostar $199.99, sem er ansi lágt verð miðað við þann búnað sem er inni í hátalaranum. Hægt að kaupa tvo Echo Studio og para þá saman til að fá stereo hljóð. Hátalarinn styður einnig 3D audio (Dolby Atmos, Sony 360 Reality Audio). Þá er auðvelt að tengja hátalarann (eða hátalarana) við vissar gerðir af Fire TV margmiðlunarspilaranum til að fá betra hljóð við sjónvarpsnotkun.

Hægt er að forpanta Echo Studio í dag, en hann er fáanlegur 7. nóvember og kostar eins og áður segir $199.99.

Echo Show 8

Echo Show eru það sem Amazon kallar snjallskjáir (e. smart displays), sem er Amazon Echo hálatari með skjá. Þótt Amazon Echo sé fínn snjallhátalari, þá gerir það nokkuð fyrir notandann þegar skjánum hefur verið bætt við. Það einfaldar t.d. yfirlit með niðurteljurum (e. timers) í eldamennsku, gerir manni kleift að kíkja á myndefni úr Ring dyrabjöllu-og-myndavél (sem er í eigu Amazon) og margt fleira.

Echo Show 8 er þriðja varan í Echo Show línunni. Hinar eru Echo Show (sem er með 10 tommu skjá og verður líklega fasað út á næstunni) og Echo Show 5, sem með 5 tommu skjá.

Echo Show 8 kemur í sölu 21. nóvember næstkomandi og kostar $129.99.

Echo Dot með klukku

Ekkert mikið meira um þetta að segja. Echo Dot hefur (þangað til núna) verið minnsta varan sem hægt er að hafa á heimilinu með Alexa. Núna er innbyggð klukka í tækinu.

Echo Dot með klukku kemur í sölu 16. október og kostar $49.99.

Echo Buds

Þetta eru heyrnartól í samkeppni við Apple AirPods, Jabra Elite 65t, Sennheiser Momentum True Wireless og fleiri í sama flokki.

Þessi heyrnartól bjóða upp á noise reducing tækni (athugið, Amazon talar ekki um noise cancelling, heldur noise reducing), sem eiga að takmarka umhverfishljóð, og nýta tækni frá Bose til þess.

Eins og nánast allt frá Amazon þá styðja Echo Buds Alexa, sem nýtir þá Alexa forritið á símanum þínum til að streyma tónlist, spila hljóðbækur á Audible o.s.frv. Einnig er vert að geta þess að á heyrnartólunum er sérstakur voice assistant takki sem nýtist til að tala við Siri eða Google Assistant. Rafhlaðan á Echo Buds endist í 5 klukkustundir, og allt að 20 klukkustundir með hleðsluvöggunni sem fylgir.

Echo Buds koma í sölu 30. október og kosta $129.99. 3 mánuðir af Audible fylgja hverju seldu eintaki fyrst um sinn.

Amazon Echo

Hinn upprunalegi Echo hátalari fær líka uppfærslu. Þetta er þriðja kynslóð hátalarans vinsæla, sem markaði upphaf snjallhátalara í heiminum.

Hátalarinn kemur í sölu 16. október og kostar $99.99.

Aðrar vörur sem Amazon kynnti í dag

Ring innimyndavél – $59.99.

Nýr og ódýrari Eero netbeinir – $99 fyrir einn, eða $249 fyrir 3 í pakka (til samanburðar þá kostar einn Eero Pro $199 eða $499 fyrir þrjá í pakka). Eero er vinsæll framleiðandi netbeina (e. routers) sem Amazon keypti fyrr á árinu. Helstu fréttirnar hér eru að Amazon hefur gefið út að Eero muni koma með vörurnar sínar á Evrópumarkað, en í dag eru þeir aðeins fáanlegir í Bandaríkjunum og Kanada.

Echo Flex – Pínulítill Echo hátalari sem þú stingur beint í samband, og er með USB-A port á botninum svo hægt sé að hlaða tæki. $24.99.

Echo Glow lampi – Já. Echo Lampi. Vörusíðan segir að hann sé sérstaklega hannaður með börn í huga. Kemur í sölu 20. nóvember og kostar $29.99.

Amazon Smart Oven. Kemur í sölu 14. nóvember og kostar $249.99.

Einstein.is er í tilvísunarsamstarfi við ýmsa aðila og gæti fengið þóknun fyrir vörur sem eru keyptar í gegnum slíka tengla. Það heldur vefnum gangandi, þér að kostnaðarlausu.