fbpx

Þegar Last of Us kom út á PlayStation 3 fyrir rúmu ári síðan, þá var leikurinn lofaður í hástert af gagnrýnendum, og er kominn í hóp  bestu PS3 leikjum allra tíma.

Í lok júlímánuðar kom Last of Us Remastered í búðir, sem er endurbætt útgáfa af leiknum fyrir PlayStation 4 tölvur.

Sögusvið leiksins

Leikurinn gerist tuttugu árum eftir að farsótt hefur gert út af við heiminn, þar sem sýktar manneskjur eru á sveimi og heilsuhraustir aðilar drepa mann og annan til að verða sér úti um mat, vopn og aðrar vistir. Aðalpersóna leiksins er smyglarinn Joel, sem er ráðinn til að smygla hinni 14 ára Ellie úr sóttkví. Verkefnið er nokkuð saklaust til að byrja með, en þróast yfir í hasarmikið ferðalag þvert yfir Bandaríkin. Naughty Dog framleiðir leikinn, en flestir þekkja fyrirtækið fyrir gerð Uncharted og Crash Bandicoot.

Hvað er nýtt?

Öll útslithönnun á leiknum var til fyrirmyndar í PS3 útgáfu leiksins, en Naughty Dog náði að gera gott betra með Remastered útgáfunni. Last of Us Remastered er í fullri háskerpu (1080p), og keyrir á 60 römmum á sekúndu fyrir betri upplifun, en spilarar geta einnig spilað leikinn á 30 römmum/sekúndu ef þeir kjósa það frekar. Með hærri upplausn og fleiri römmum á sekúndu ætti spilun að vera betri í alla staði.

Spilun

Leikurinn fer rólega af stað, og spilarinn þarf að horfa á langt en magnað myndband sem kemur manni í réttan gír áður en spilun hefst. Þegar líða fer á leikinn þá þróast samband Joel og Ellie aðeins, og spilarar munu sjá að hún er ekki bara þarna að vísa manni veginn, eins og er oft raunin í svona leikjum. Ef spilarinn eru fastur á ákveðnu svæði í langan tíma þá gefur leikurinn manni stundum ábendingu hvað sé best að gera næst, eða breyta um erfiðleikastig ef maður kemst ekki í gegnum óvinasvæði.

last-of-us-remastered-2

Eðli leiksins er slíkt að spilarinn þarf helst að skoða hvern krók og kima gaumgæfilega í leit að vistum, sem Joel notar til að búa til heilsupakka og sprengjur svo fátt eitt sé nefnt. Manni þykir þessi leit kannski leiðinleg til að byrja með, en hún verður smám saman eðlilegur hluti af spilun leiksins, og getur skipt sköpum á óvinasvæðum. Skotfæri eru líka takmörkuð, þannig að þýðir ekki að spila Last of US eins og hreinræktaðan skotleik. Joel er oft í svipaðri stöðu og Davíð á móti Golíati, sem leiðir til þess að skemmtilegustu bardagarnir eru þeir sem gera kröfu um laumulega aðkomu að óvinum, og komast í gegnum svæði án þess að einu einasta skoti sé hleypt af.

Sífelld leit að vistum hefur vitaskuld áhrif á það hversu lengi maður er að klára leikinn, en tölfræði frá vefsíðunni How Long To Beat sýnir að spilarar eru almennt rúma 15 klukkutíma að klára leikinn. Sú tala getur farið upp fyrir 30 tíma ef þú spilar leikinn í rólegheitum eða verður fastur/föst á einhverjum stað í leiknum.

Leikurinn býður upp á fjölspilun (e. multiplayer) sem er skemmtileg, og áherslan er lögð á laumulega herkænsku, en ekki heilalausa byssubardaga.

Niðurstaða

The Last of Us: Remastered er frábær leikur, og skyldueign í safnið ef þú kannt að meta leiki af þessari gerð. Sagan er bæði spennandi og skemmtileg, sem heldur manni við efnið allan tímann. Aftur á móti hefur leikurinn ekki það mikið af nýjungum til að réttlæta kaup á leiknum aftur ef þú átt eða hefur spilað leikinn á PlayStation 3.

Einkunn: 9,5/10

Write A Comment