fbpx

Fyrsta kynslóð Apple TV margmiðlunartækisins kom á markað árið 2007, og keyrði á breyttri útgáfu af Mac OS X sem hafði verið sniðin að þörfum tækisins. Tækið var ákveðin tilraunavara, kostaði mikið og samkeppnin á markaðnum var lítil sem engin.

Síðan þá hefur margt breyst. Önnur kynslóð af Apple TV kom í september 2010, og þriðja kynslóð í mars 2012 (með sama viðmót og önnur kynslóð nema með betri vélbúnaði, og stuðning fyrir myndefni í fullri háskerpu). Nýtt Apple TV var svo kynnt í september, og fór í sölu fyrr í þessum mánuði.

„I finally cracked it“

Apple aðdáendur út um allan heim hafa beðið með öndina í hálsinum síðustu ár eftir annaðhvort Apple sjónvarstæki eða gjörbreyttu Apple TV margmiðlunartæki. Ástæðan fyrir því eru þessar sjö línur í ævisögu Steve Jobs, sem kom út árið 2011.

Steve Jobs tilvitnun

Fyrir utan það sem fylgir öllum nýjum tækjum, þ.e. hraðari örgjörvi, meira geymslupláss, andlitslyftingu á viðmóti og nýja fjarstýringu þá er helsta breytingin þessi: App Store, Siri stuðningur og spilun leikja.

Í kynningu sinni í september sagði Tim Cook að framtíð sjónvarpsins væru öpp. Með nokkurri einföldun má segja að það sé rétt hjá honum, enda minnkar áhorf á línulegt sjónvarp ásamt lestri prentmiðla með ári hverju. Þegar maður les orð Steve Jobs um hvernig hann hefði loksins náð að leysa sjónvarpsvandann, þá leyfir maður sér samt að efast um að App Store hafi verið töfralausnin.

Nýja Apple TV-ið

Apple TV - kassinn

Fyrsti munurinn sem maður sér við fjórðu kynslóð Apple TV tækisins er sýnilegur án þess að því sé stungið í samband. Tækið er stærra en önnur/þriðja kynslóð og fjarstýringin er öðruvísi.

Annaðhvort er Apple þeirrar skoðunar að útlit tækisins sé fullkomið, eða að útlitið skipti ekki máli, því fyrir utan aukið rúmmál tækisins þá lítur það annars nákvæmlega eins út og forverinn.

 

Fjarstýringin

atv-4-fjarstyring

Helsti gallinn við gömlu fjarstýringuna, þ.e. þeirri sem fylgir 2. og 3. kynslóð Apple TV er að fjarstýringin er svo lítil að hún á það til að sogast í sófapullurnar og „týnast“ þar. Fjarstýringin sem fylgir nýja Apple TV-inu er mun betri en sú gamla, og kemur með eftirfarandi tökkum/stjórntækjum:

  • Snertiflötur: Efst á fjarstýringunni er snertiflötur, sem maður þarf smá tíma til að venjast, en mjög þægilegur til að vafra um og spila leiki.
  • Menu takki: Fer í stillingar á aðalvalmynd, en fer annars aftur um einn skjá.
  • Home takki: Sama hvar þú ert, þá ferðu aftur á heimaskjá ef þú ýtir á þennan takka. Með því að tvísmella á hann þá geturðu skipt hratt á milli forrita/leikja (svipuð virkni og með því að tvísmella á Home takkann á iOS tækjum).
  • Siri takki: Ef þú heldur Siri hnappinum niðri, þá geturðu beðið um ákveðna mynd, sagt í hvernig stuði þú ert, eða beðið um kvikmyndir með ákveðnum leikara, og Siri hjálpar þér.
  • Play/Pause: Þarfnast ekki skýringa.
  • Hækka/lækka: Á flestum sjónvörpum ætti þessi takki að hækka eða lækka í sjónvarpinu þínu, þannig að þú þurfir ekki að vera með tvær fjarstýringar uppi við á meðan þú notar tækið. Þú getur einnig stillt fjarstýringuna þannig að það læri á annað tæki, eins og heimabíómagnara ef þú vilt það frekar.

Fjarstýringin tengist með Bluetooth, þannig að þú þarft ekki lengur að beina fjarstýringunni að tækinu til að það taki við skipunum, og getur því hent tækinu inn í skáp eða skúffu ef þú vilt.

Hún er líka með Lightning tengi svo hægt sé að hlaða hana, þannig að þú þarft ekki lengur að kaupa rándýra CR 32 rafhlöðu einu sinni á ári. Rekstrarkostnaðurinn er því minni, ef þig vantar ástæðu til að sannfæra makann um að uppfæra.

Snertiflöturinn
Í stað þess að vera með hefðbunda upp, niður, hægri og vinstri takka, þá ákvað Apple að vera með snertiflöt á fjarstýringunni. Fyrst um sinn fannst mér hann dálítið einkennilegur, svo skárri… svo fínn… svo frábær. Með snertifletinum er notandinn fljótari að vafra almennt um í valmyndum forrita.

Stærsta breytingin sem hefur áhrif á daglega notkun manns er þegar vill spóla áfram eða til baka í efni sem er í spilun. Ef frá er talinn gamall Inoi/Argosy sjónvarpsflakkari sem ég keypti fyrir u.þ.b 6 árum, þá hefur spólun í þeim margmiðlunarspilurunum alltaf verið ómöguleg nema maður setji upp forrit á borð við XBMC/Kodi þar sem hægt er að stilla þetta.

Á Apple TV getur maður núna maður núna smellt á hægri eða vinstri hlið flatarins til að hoppa áfram eða til baka um 10 sekúndur, og ef maður skrunar til hægri eða vinstri þá getur maður spólað áfram um 30 eða 100 mínútur á svipstundu. Þú þarft því ekki lengur að spóla í 5-10 mínútur til að ná endinum af Titanic ef þú sofnaðir yfir myndinni kvöldið áður. Það er yndislegt.

Snertiflöturinn er líka nokkuð þægilegur við spilun leikja, en ég hef þó bara prófað einfalda leiki eins og Crossy Road og Alto’s Adventure.

Vélbúnaður

Nýja Apple TV-ið er stærra en forverinn, en agnarsmátt móðurborð tækisins rúmar 64-bita, tveggja kjarna A8 örgjörva (örgjörvinn í iPhone 6/6 Plus) og 2GB af vinnsluminni. Tækið styður einnig hraðasta Wi-Fi staðalinn í dag, 801.11.ac, en fræðileg flutningsgeta á 802.11ac er 1,3 Gbps (eða 166 MB/s). Það kemur svo einnig með Bluetooth 4.0 stuðningi og IR móttökubúnaði.

Það sem Apple TV styður ekki er myndefni í 4K upplausn. Einhverjir kynnu að líta á það sem galla, en staðreyndin er sú að það er voðalega lítið framboð af efni í 4K upplausn. Þar að auki myndi það fara langt með gagnapakkann á heimilum landsmanna að streyma myndum frá erlendum streymiveitum í 4K gæðum, en Netflix hefur sagt að u.þ.b. 20-30 GB/klst sé varið í að streyma myndefni frá þjónustunni í 4K gæðum.

Portum á tækinu hefur fækkað, en nú er engu Optical hljóðtengi til að dreifa. Það eru líklega ekki margir sem munu gráta það, en þetta er þó nokkur missir. Ég prófaði t.d. um tíma að tengja Apple TV-ið mitt gamla beint við magnarann þökk sé þessu tengi, og gat þannig spilað tónlist í hátölurunum mínum án þess að kveikt væri á sjónvarpinu. Þetta get ég ekki á nýja Apple TV-inu.

Apple TV - bakhlið
Ekkert Optical Out tengi.

Geymslupláss
Hægt er að kaupa Apple TV með 32 GB eða 64 GB af geymsluplássi. Það er merkilegt fyrir ýmsar sakir, m.a. þær að þetta er sama geymslupláss og á ódýrustu gerðinni af iPad Pro, sem kostar 120 þúsund krónum meira, og meira geymslupláss en ódýrasti iPhone síminn, sem kostar liðlega 100 þúsund krónum meira en þetta tæki.

Uppsetning

Ef þú átt iOS tæki með iOS 9.1 eða nýrri útgáfu þá er uppsetningin á Apple TV nokkuð þægileg. Það er vegna þess að þegar kveikt er á tækinu í fyrsta sinn þá er notandanum boðið að nota iOS tæki til að einfalda uppsetninguna. Þú færir bara iOS tæki nálægt Apple TV spilaranum, og þá tengist Apple TV-ið því þráðlausa staðarneti sem iOS tækið er á, og tengir tækið við Apple reikning iOS tækisins.

Apple TV - uppsetning

Á gömlu Apple TV tækjunum þá var nóg að breyta iTunes Store Country yfir í United States, og þá birtist Netflix, Hulu, HBO Now og urmull annarra forrita á skjánum. Það gerist ekki á þessu tæki. Einu forritin sem notandinn sér þegar heimaskjárinn birtist í fyrsta sinn eru Apple þjónustur og App Store.

Það þýðir að til að nálgast Netflix og Hulu forritið, þá þarf viðkomandi núna að vera með bandarískan Apple reikning, innskrá sig á hann í App Store og síðan sækja forritin þaðan. Það tekur ekki langan tíma ef þú ert með slíkan reikning fyrir, en annars þarftu að búa hann til.

Ástæðan er sú að þú átt ekki bara að geta horft á Netflix, Hulu og YouTube á tækinu, heldur einnig spilað tölvuleiki, bókað gistingu á Airbnb og margt fleira. Möguleikarnir eru óteljandi.

Svona upp á gamanið þá er mun auðveldara að tengjast Airbnb á Apple TV en margan hefði grunað, því maður þarf ekki að innskrá sig á Apple TV, heldur einfaldlega tengja tækið við reikninginn með því að fara á airbnb.com/appletv og slá inn kóða sem birtist á skjánum.

Airbnb Apple TV

Airbnb Mac

Remote forritið og Bluetooth lyklaborð
Þegar maður er með lykilorð sem Edward Snowden myndi samþykkja þá er það heldur seinlegt að slá það inn á skjályklaborði með fjarstýringu.

Þess vegna hafði ég hugsað mér að nota Remote forritið frá Apple á nýja tækinu (sem við höfum fjallað um áður), til að flýta fyrir sjálfum mér. Nema hvað að í liðnum „Remotes and Devices“ í Apple TV stillingunum er ekki einu orði minnst á Remote forritið (eins og í gömlu útgáfunni). Það sem meira er, þá gat ég ekki heldur tengt Bluetooth lyklaborð við tækið.

Það að þetta tvennt sé ekki til staðar er út af fyrir sig engin ástæða til að kaupa tækið eða ekki. Samt sem áður er heldur fúlt að þægilegir eiginleikar sem voru til staðar í eldri kynslóðum séu teknir burt, einkum þar sem innsláttur texta með fjarstýringunni tekur lengri tíma en áður. Þessi myndasaga lýsir því ansi vel.

Joy of Tech - Apple myndasaga

Samhliða þessu hafa forritarar bent á að ekki sé hægt að nota svokallað Webview í forritum sem eru hönnuð fyrir tvOS. Webview er það sem forrit á borð við Twitter og Facebook nota í forritum til að þú getir fylgt tenglum innan forritsins í staðinn fyrir að þér sé hent yfir í Safari á iOS tækjum.

App Store

Forrit fyrir margmiðlunartæki eru ekki ný af nálinni. Þau hafa verið í boði fyrir Roku spilarann (en kallast channels eða rásir þar. Roku spilarinn er ekki seldur hérlendis, og við mælum ekki með honum af því tækið er með Google DNS hardkóðað líkt og Google Chromecast, og því erfitt að nota þjónustur eins og Netflix, Hulu o.s.frv. hérlendis á tækinu).

Amazon Fire TV er einnig með App Store, en þar til þessi kynslóð Apple TV tækisins kom út þá var ekkert slíkt í boði þar. Stærri fyrirtæki gátu þó komið forriti sínu í App Store, og er úrval forrita/rása orðið talsvert á Apple TV 2/3. Mörg þessara forrita eru þó einungis í boði fyrir þá sem eru með bandaríska kapaláskrift (þ.e. forrit á borð við WatchESPN, DisneyKids o.fl.) og því geta Íslendingar ekki komist í slíkar þjónustur, jafnvel þótt þeir notist við DNS þjónustur eins og playmoTV til að njóta Netflix, Hulu o.s.frv.

Ólíkt Roku og Amazon þá er Apple TV-ið mun vinsælli vara á heimsvísu. Fjöldi forritara út um allan heim eru í Apple Developer Program og gefa út forrit í App Store fyrir Mac, iPhone og iPad, sem geta því fiktað sig áfram og búið til forrit fyrir Apple TV. Gott dæmi um það er að einn Íslendingur hefur strax gert forrit fyrir Apple TV sem spilar RÚV í beinni, þ.e. Árni Jónsson, forritari hjá Plain Vanilla.

 

Ofangreint forrit er ein helsta ástæða þess að ég er svo ánægður með þetta Apple TV. Ég er núna áskrifandi að eftirfarandi þjónustum: Netflix, Hulu, CBS All Access, HBO Now og Showtime. Ef HBO NOW er tekið út, þá er mánaðargjaldið fyrir afruglarann frá Vodafone dýrasta þjónustan sem ég borga fyrir, og um leið sú lélegasta (ég þarf að endurræsa Amino boxið mitt að jafnaði einu sinni í vik). Ég bíð því spenntur eftir því að fá Sarpinn frá RÚV og/eða forrit sem spilar línulegt sjónvarp í beinni útsendingu á Apple TV.

Hér er svo óskalistinn minn yfir forrit sem ég væri til í að sjá á Apple TV.

  1. Sarpurinn frá RÚV.
  2. Sjónvarpsappið (hét áður OZ eða OZ Sjónvarp) – Hvort þetta forrit kemur fyrir Apple TV skal ósagt látið, en það sem Íslendingar þekkja flestir sem OZ er nú önnur þjónusta sem starfar undir sama nafni. „Gamla OZ“ heitir því núna Sjónvarpsappið á iOS og Android.
  3. Forrit sem streymir RÚV, SkjárEinn og aðrar íslenskar stöðvar í beinni.
  4. Infuse, til að spila efni úr einkasafni (þetta forrit er væntanlegt).
Mikið væri gaman ef @RUVohf myndi koma Sarpinum á nýja Apple TV-ið. Share on X

Betur má en duga skal

App Store á Apple TV er langt frá því að vera fullkomið fyrirbæri. Í dag skiptist flokkun forrita einungis í „Games“ og „Entertainment“, en engir undirflokkar eru því til viðbótar sem þörf er á því fjölmörg heilsuforrit á borð við 7 Minute Workout og ýmis forrit sem hjálpa manni að stunda jóga fyrir framan imbakassann eru komin í App Store. Uppgötvun forrita/þjónusta er líka örðug því ef maður velur t.d. þennan Entertainment flokk, þá er stór hluti forritanna þar sá sami og þau sem voru boði á Apple TV 3 áður en þessi kynslóð tækisins kom út.

Apple TV-ið býður manni líka að uppfæra forrit sjálfvirkt, en ef maður hefur slökkt á því þá getur maður hvergi uppfært forrit handvirkt (eða það er þá vandfundið hvernig það er gert). Eftir að Hulu hafði verið bilað hjá mér í örfáa daga þá var eini kostur minn sá að breyta í sjálfvirka uppfærslu forrita, endurræsa tækið og þá virkaði Hulu á ný. (Reyndar getur verið að Hulu hefði virkað bara eftir endurræsingu, því það gamla húsráð lagar ótrúlegustu villur).

Apple TV - Entertainment
Þetta er forsíðan á Entertainment flokknum i App Store á Apple TV.

Apple gerir sumum forritum hærra undir höfði en öðrum, og það kom bersýnilega í ljós þegar þjónustan Plex gaf út forrit sitt á App Store fyrir Apple TV. Plex er stór og viðurkennd þjónusta fyrir aðila sem eiga stórt safn af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, tónlist o.s.frv. Þrátt fyrir að útgáfa forritsins fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun vestanhafs, og það sé meðal vinsælustu ókeypis forritana í App Store, þá er forritið ekki sýnilegt á forsíðu App Store.

Leikir
App Store fyrir Apple TV þýðir líka að spilun leikja sé loksins möguleg á tækinu. Þessi notkun á margmiðlunarspilurum er kannski ekki þekkt fyrirbæri á Íslandi, en þetta hefur verið mögulegt á Roku tækjum í nokkur ár, og einnig á Amazon Fire TV sem kom út í fyrra.

Apple TV-ið hefur getu til að spila ansi massífa leiki, en tíminn mun leiða í ljós hvort einhverjir muni kaupa tækið einkum út af þeim möguleika. Að spila leiki með fjarstýringunni er allt í lagi, ekkert frábært. Þetta eru mestmegnis leikir til að drepa tíma sem eru núna fáanlegir fyrir Apple TV, þ.e. leikir á borð við Crossy Road og Alto’s Adventures.

Til að líkja spilun leikja við einhverja leikjatölvu þá kemst þetta næst Nintendo Wii, en jafnast ekkert á við PlayStation eða Xbox. Hægt er að kaupa hefðbundinn leikjastýripinna fyrir tækið, en tæki og tveir pinnar kosta meira en 50 þúsund krónur.

Siri

Einn af örfáum tökkum á fjarstýringu tækisins er Siri hnappur, sem aðstoðar þig við að finna efni. Siri leitin er þó takmörkuð við allra stærstu þjónusturnar á Apple TV til að byrja með, þ.e. iTunes, Netflix, Hulu, HBO og Showtime.

Apple fær þó rós í hnappagatið fyrir að hafa ekki takmarkað Siri leitina við iTunes leiguna, eins og Amazon gerði fyrst um sinn á Fire TV tækinu. Leitin er líka einnig nokkuð snjöll. Þú getur leitað að stökum titlum, en einnig kastað víðu neti út, eins og beðið um myndir með einhverjum leikara í ákveðinni þjónustu, leitað að ákveðnum flokki mynda eða þátta o.s.frv. Sjá nokkur dæmi fyrir neðan.

Siri - Critically acclaimed movies on Netflix
Siri – Critically acclaimed movies on Netflix
Siri - Critically acclaimed movies on Netflix
Leitarniðurstöðurnar sem birtast þegar maður spyr um „critically acclaimed movies on Netflix“
Baltazar Kormákur - Apple TV
Það er vonlaust að reyna að fá Siri til að skilja „Baltasar“. Tveir mánuðir af Hulu í boði fyrir lesanda sem nær skjáskoti af „Movies by Baltasar Kormákur“. (Ekki grín.)

Þegar maður leitar að þáttunum The West Wing þá sýnir Apple TV-ið manni líka að þættirnir séu aðgengilegir á iTunes leigunni og Netflix.

West Wing - Apple TV

Með Siri geturðu líka opnað forrit, þannig að ef þú ert komin með hafsjó af forritum og leikjum þá geturðu einfaldlega haldið Siri hnappinum inni og beðið Siri um að opna viðkomandi forrit.

Aðrar nýjungar

Eitt sem Apple á lof skilið fyrir að bæta við tækið er möguleiki á að segja upp áskriftum sem greiddar eru með iTunes beint úr tækinu. Á eldri kynslóðum gerir Apple notendum kleift að kaupa þjónustu í gegnum tækið (Netflix, Hulu, HBO Now og Showtime) en ef viðkomandi vill segja þjónustunni upp, þá verður hann að gera það úr iOS tæki (þar sem stillingarnar eru faldar í Settings > iTunes & App Store, og þar í View Apple ID eftir að þú smellir á Apple ID-ið þitt) eða iTunes á Windows/Mac tölvu. Þetta er því kærkomin nýjung. Vert er að geta þess að til þess að kaupa áskrift að þjónustum sem eru á myndinni fyrir neðan þarf viðkomandi að vera með bandarískan iTunes reikning og kaupa inneignarkort hjá aðila eins og Eplakort.is.

Apple TV - Subscriptions

Hoppaðu á milli forrita
Notendur geta skipt hratt á milli forrita með því að tvísmella á HOME takkann.

HDMI-CEC
Þessi kynslóð af Apple TV styður HDMI-CEC (framleiðendur henda oft eigin nöfnum á þessa tækni, þekkist sem Anynet hjá Samsung, BRAVIA Link og BRAVIA Sync hjá Sony, VIERA Link hjá Panasonic og EasyLink hjá Philips).

HDMI-CEC er eiginleiki sem leyfir notandanum að nota fjarstýringu tækisins til að stjórna sjónvarpinu. Þá nægir notandanum að ræsa Apple TV-ið úr svefni þegar það er slökkt á sjónvarpinu, sem kveikir þá á sjónvarpinu og og stillir á HDMI innganginn sem Apple TV-ið er tengt við.

Þetta skýrir líka af hverju hægt er að nota hækka/lækka takkana á Apple TV fjarstýringunni til að stjórna sjónvarpinu. (Leiðrétting 15:01: hækka/lækka fer ekki yfir HDMI-CEC, heldur IR. Þú getur því hækkað og lækkað í sjónvarpstækjum sem styðja ekki HDMI-CEC. Sjá þessa grein frá iDigitalTimes fyrir nánari upplýsingar. H/T til @addininja fyrir að benda á þetta.)

Search forritið
Fyrir utan leit með hjálp Siri þá er líka sérstakt leitarforrit á Apple TV. Þegar leitin er opnuð þá blasir við manni hvaða myndir og þættir eru vinsælir þá stundina. Með því að smella á viðkomandi titil, þá getur maður séð hvar hægt er að nálgast efnið, hvort sem það er iTunes og öðrum áskriftarveitum. Apple birtir iTunes alltaf fyrst en gerir veitunni sinni annars ekkert hærra undir höfði en öðrum veitum hvað það varðar, sem er vel.

Niðurstaða

Tækið er ekki fullkomið, en nýjasta kynslóð af Apple TV er besti margmiðlunarspilarinn á markaðnum í dag, og sá langbesti ef einungis tæki fáanleg á Íslandi eru borin saman.

Fyrir utan lítil smáatriði þá er verð tækisins eini galli þess. Síðustu kynslóðir kostuðu um eða undir tuttugu þúsund krónur hérlendis (þ.e. áður en Apple lækkaði verð spilarans erlendis úr $99 niður í $69). Verð tækisins er núna nær þrjátíu þúsund krónum, sem gerir það að dýrari jólagjöf heldur en margur hefði kosið.