fbpx

Í nóvember kom út nýjasta innslagið í Call of Duty seríunni og er þetta ellefti leikurinn í einni söluhæstu leikjaseríu allra tíma. Advanced Warfare færir sögusviðið fram um gróflega 30 ár frá síðasta leik (Ghosts) og markar upphaf nýrrar sögu innan Call of Duty heimsins, en venjulega hafa samhangandi sögur náð yfir þrjá leiki, að frátöldum Call of Duty: Ghosts, sem stóð einn og sér (hingað til).

Hefð er fyrir því að mismunandi leikjaframleiðendur spreyti sig á Call of Duty leikjunum og í ár er það Sledgehammer Games sem tekur við keflinu í fyrsta sinn sem aðalframleiðandi, eftir að hafa unnið með Infinity Ward að gerð Modern Warfare 3.

Hvað er nýtt?

Call of Duty leikirnir eru ekki frægir fyrir að breytast mikið milli ára, en Advanced Warfare tekur líklega mestu framförum sem Call of Duty leikur hefur tekið síðan að Modern Warfare kom út.
Í báðum tilfellum var hlaupið fram í tímann sem gerir það að verkum að vopnabúnaður breytist og fyrir vikið breytist spilun leiksins.

Það sem hefur mestu áhrifin á breytta spilun er háþróaður búningur hermanna sem kallast exoskeleton. Búningurinn er eins konar stoðgrind sem leggst meðfram hrygg og útlimum hermanna og færir þeim fjöldann allan af ofurkröftum sem kynna til leiks nýja og skemmtilega vídd í Call of Duty upplifunina. Einn helsti kraftur exo-búningsins er aukni stökkkrafturinn, sem gerir spilurum kleift að skjóta sér hátt upp í loft og fyrir vikið minnir fjölspilun leiksins á Quake, þar sem menn stunduðu það að skjóta sér upp í loftið með sprengjuvörpum(rocket launcher).

Einspilun (e. single player)

Í einspilun leiksins fer maður í hlutverk hermannsins Jack Mitchell. Árið er 2054 og fyrsta verkefni Jack og besta vinar hans, Will Irons, er að stöðva árás Norður-Kóreu á nágranna sína í suðri. Vinunum tekst að stöðva Norður Kóreu mennina, en Will lætur þó lífið á dramatískan hátt. Í jarðaförinni er það faðir Will, Jonathan Irons, sem bregður sér á tal við Jack og býður honum vinnu hjá Atlas, einkareknum hernaðarverktökum, og þaðan fer boltinn að rúlla.

Call of Duty - Kevin Spacey

Undanfarin ár hefur áhuginn á einspilun og söguþræði Call of Duty leikjanna farið dvínandi og talsvert meiri áhersla verið á net- og fjölspilun. Svo virðist sem framleiðendur hafi viljað hressa upp á þennan hluta leiksins og kemur sú vítamínsprauta í formi óskarsverðlaunaleikarans Kevin Spacey. Spacey fer með hlutverk Atlas foringjans Jonathan Irons og er frammistaða hans mjög öflug og færir einspiluninni ákveðinn kvikmyndablæ. Það slæma er hversu illa leikstýrð B-mynd sú kvikmynd reynist vera. Söguþráðurinn er álíka fyrirsjáanlegur og Law & Order þáttur og myndskeiðin milli borða eru í kjánalegri kantinum. Mögulega eru það laun Spacey sem bitna á þessum hlutum.

Að því sögðu þá mæli ég engu að síður með því að spilarar gefi sér tíma í að fara í gegnum einspilunina. Borðin í leiknum bjóða oft á köflum upp á frábært sjónarspil og þar sem söguþráður og samskipti karaktera líkist B-mynd, þá er hasarinn sannkölluð stórmynd. Einspilunin gerir þér líka kleift að nota fjöldann allan af nýjum vopnum og hertækni, sem er það sem gerir leikinn flottan. Þessir hlutir eru svo að sjálfsögðu líka til staðar í fjölspiluninni fyrir þá sem ná að drepa ákveðið marga án þess að drepast, en eins og eflaust margir þekkja getur verið erfitt að komast yfir bitastæðustu vopnin.
Call of Duty - Advanced Warfare - Biolab

Fjölspilun

Það fer ekkert á milli mála að fjölspilun á netinu er það sem hefur gert Call of Duty að einni stærstu leikjaseríu allra tíma. Advanced Warfare er líklega skemmtilegasti Call of Duty leikur sem ég hef spilað á netinu og er það líklega tvennt sem veldur því. Í fyrsta lagi er þetta fyrsti leikurinn sem ég spila á þessari kynslóð leikjatölva og bætt grafík ásamt hærri rammatíðni(“frame rate”) gera leikinn einstaklega glæsilegan.

Í öðru lagi er það áðurnefndur exo-búningur, sem í breytir spilun leiksins til hins betra svo um munar. Eins og áður segir er búningurinn gæddur þeim eiginleika að auka stökkkraft, en þessi sami eiginleiki geri manni líka kleift að skjóta sér í allar áttir, ekki bara lóðrétt. Þetta gerir byssubardaga mun æsilegri, þar sem óvinurinn sem þú ert með í sigtinu skýst allt í einu til hægri og hoppar svo hátt upp í loftið áður en hann skýtur í þig handsprengju sem límist við þig. Einnig er hægt að velja aukna krafta á búninginn, t.d. ósýnileika, aukna heilsu eða aukinn hraða. Borðin sem eru í boði eru flest öll skemmtileg í spilun og búa yfir hæfilegri fjölbreytni í stærð og útréttingu.

Survival og Zombies

Eins og tíðkast í Call of Duty leikjunum er þriðja tegund spilunar í boði. Þekktasta fyrirbærið í þessum hluta er eflaust Zombies, þar sem leikmenn berjast við bylgjur af uppvakningum. Það sem hefur einkennt þennan hluta Call of Duty leikjanna er að tveir til fjórir geta spilað saman, bæði á netinu og heima í sófa. Í Advanced Warfare er það Exo Survival, þar sem leikmenn kljást við bylgjur af hermönnum. Aðdáendur Zombies þurfa þó ekki að örvænta þar sem stendur til að gefa út Zombies fyrir Advanced Warfare í formi niðurhalanlegs aukaefnis.

Niðurstaða

Fyrir þá sem hafa ekki haft gaman af Call of Duty leikjunum mun Advanced Warfare líklega ekki breyta miklu. Fyrir þá sem spiluðu Call of Duty hér áður, en fannst leikirnir staðna of mikið, þá er þetta rétti tíminn til að prófa aftur. Fyrir aðdáendur leikjanna er þetta himnasending. Advanced Warfare kemur með ferskan andvara í formi exo búningsins, inn í þessa leikjaseríu sem vantaði einhvers konar nývæðingu.

Author

Write A Comment