fbpx

Nýr iPad umfjöllun
Laust eftir miðnætti í dag, nánar tiltekið kl. 00:01, kom nýr iPad á markaðinn hér á Íslandi. Verslunin iPhone.is fékk nýja iPadinum í byrjun vikunnar og lánaði okkur hann til umfjöllunar.

Hvað er nýtt?

Retina skjár – Retina skjár – Retina skjár

Helsta uppfærslan í nýjasta iPadinum er Retina skjárinn, sem hefur ekki eflaust farið á milli mála hjá þeim sem hafa fylgst með fréttum af iPad spjaldtölvunni. Retina skjárinn er með 2048×1536 skjáupplausn, sem þýðir að skjárinn er með fjórum sinnum fleiri díla (e. pixels) en iPad 2 með sömu skjástærð. Sumum finnst erfitt að gera sér í hugarlund hver munurinn er nákvæmlega, þannig að við tókum skjáskot annars vegar á iPad 2 annars vegar og nýja iPadinum hins vegar, sem eru birt hér að neðan.

Fyrst sjáum við skjáskot á iPad 2, sem er 768×1024 dílar. (Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð.)

Skjáskot á iPad 2
Skjáskot á iPad 2. 768×1024 dílar

Síðan má sjá skjáskot á nýja iPadinum, sem er 1536×2048 dílar.

Skjáskot á nýja iPadinum
Skjáskot á nýja iPadinum. 1536×2048

Loks má sjá bæði skjáskotin saman á einni mynd. Á síðastnefndu myndinni sést hversu margir dílar  eru í rauninni á nýja iPadinum, í ljósi þess að skjástærðin er sú sama og á iPad 2.

iPad 2 vs nýi iPadinn
Samanburður á skjáskotunum sýnir muninn á skjáupplausninni

Við gerðum litla rannsókn þar sem við bárum saman iPad 2 saman við nýjasta iPadinn, þá fyrst og fremst með skjáinn í huga. Sömu birtustillingar voru á báðum tækjum. Sú rannsókn leiddi í ljós að litaleiðréttingin er orðin betri á nýja iPadinum, þar sem að birtan var helst til of mikil stundum á iPad 2 (svo sem ekki mikið mál að bjarga því, bara minnka birtustigið). Einnig þá var allur texti á vefsíðum mun skýrari á nýja iPadinum.

Gamla tuggan á svo sannarlega við í þessu tilviki, að sjón er sögu ríkari, og við mælum eindregið með því að fólk geri samanburð á iPad 2 og nýja iPadinum ef tök eru á því þannig að það sjái hversu skýr skjárinn er í raun.

Myndavél

Á bakhliðinni hefur nýi iPadinn 5 megapixla iSight myndavél, á meðan iPad 2 inniheldur 0,7 megapixla myndavél. Ágætis stökk þar í gæðum myndavélar. Ef ég leyfi mér nú að miðla af reynslu minni, þá fór ritstjóri síðunnar í erindisferð til New York síðastliðið haust, og þar var það mál manna að þeir sem notuðu iPad sem myndavél litu út eins og algjörir kjánar.

Myndavélin á framhliðinni er með snertifókus, auk þess sem hún gerir manni kleift að taka upp myndbönd í fullri háskerpu (1080p). Linsan er líka endurbætt, með stærra ljósop (f / 2,4). Líkt og iPhone 4S, þá táknar þetta að hægt verður að taka betri myndir í minni birtu.

Framhliðsmyndavélin er VGA myndavél, en hún hefði að okkar mati vel mátt fá meiri bætingu, til að auka myndgæði í Skype, FaceTime og annars konar myndsímtölum.

Örgjörvi – vinnsluminni – bluetooth

Nýi iPadinn er með svokallaðan A5X örgjörva. Hann hefur sama klukkuhraða og A5 örgjörvinn í iPad 2 (1 GHz Dual-Core) en A5X örgjörvinn er einnig með fjögurra kjarna skjástýringu, sem gerir alla grafík glæsilegri, og á það jafnt við um bæði myndvinnslu og leiki. Vinnsluminnið hefur verið tvöfaldað úr 512MB upp í 1GB, sem ætti að gera manni auðveldara að vera að vinna í stórum og þungum forritum eða leikjum.

iPadinn styður líka Bluetooth 4.0 líkt og iPhone 4S, sem étur ekki upp rafhlöðuna eins og tæki með Bluetooth 2.1 eða eldra, auk þess sem að pörun tækja með Bluetooth 4.0 er mun auðveldari en á fyrirrennurum þess. Þetta þýðir að ef þú munt geta notað lyklaborð eða önnur tæki sem styðja Bluetooth 4.0 staðalinn án þess að rafhlaðan fari úr 50% í 10% á örfáum tímum.

Hvað með 4G net?

Skv. okkar heimildum þá virkar 4G LTE á iPad einungis á tíðnisviðunum 700 MHz og 2100 MHz. Því miður fyrir okkur Evrópubúa er ekki notast við þessi tíðnisvið í Evrópu, og því einhver bið í að maður geti fengið allt að 72 Mbit/s eins og 4G LTE styður .

iPadinn stður einnig HSPA, HSPA+ og DC-HSDPA sem eru hröðustu 3G staðlarnir. HSPA+ styður allt að 21 Mbit/s og DC-HSDPA styður allt að 42 Mbit/s. Við ræddum þó við helstu símfyrirtæki landsins fyrr í vikunni varðandi 3G net og iPad, og fengum þau svör að hámarkshraðinn hérlendis væri í kringum 5-6 Mbit/s eins og staðan væri núna.

Ég á iPad 2. Ætti ég að uppfæra?

Ef þú átt iPad 2 og ert efins um hvort þú eigir að uppfæra í nýja iPadinn, þá mælum við helst með því ef þú hyggst nota nýja iPadinn í leikjaspilun, mikinn lestur á texta eða myndvinnslu. Ef þú átt iPad 2 og notar hann bara í hversdagslegt vefráp í Safari og stöku YouTube myndband, þá teljum við uppfærslu óþarfa.

Samantekt

Þegar allt kemur til alls þá er nýi iPadinn stórkostleg spjaldtölva, og ljóst að framleiðendur spjaldtölva með öðrum stýrikerfum eiga mikið verk fyrir höndum ef þeir ætla að . Það helsta sem hægt er að setja út á græjuna er að það tekur lengri tíma að hlaða nýja iPadinn heldur en iPad 2. Þar að auki hefði myndavélin á framhliðinni mátt vera ögn betri eins og nefnt var að ofan.

Heilsunnar vegna er samt betra að vera með nýja iPadinn, en sérfræðingar hafa leitt í ljós að álag á augun sé minna þökk sé Retina skjánum á nýju iPad spjaldtölvunni.

Nýi iPadinn er kominn í verslanir. Ódýasta gerðin er 16GB Wi-Fi sem kostar 89.990 krónur á meðan 16GB með 4G+Wi-Fi kostar 124.990 krónur.

 

Avatar photo
Author

Write A Comment