fbpx

iPad - thumbnail

Til að hjálpa lesendum nær og fjær þá ætlum við nú að byrja með liðinn „Einstein rýnir“ þar sem fjallað verður um stóra og smáa hluti sem einstaklingar geta vonandi nýtt sér þegar valkvíðinn er sem mestur.

Í þessum umfjöllunum okkar munum við leitast við að finna kosti og galla viðfangsefnisins hverju sinni.

Fyrsta viðfangsefni okkar er nýtt iPad hulstur frá fyrirtækinu ZooGue, sem ber nafnið Prodigy (eða undur ef heitið er þýtt yfir á íslensku), sem verslunin iStore í Kringlunni ljáði okkur fyrir þessa gagnrýni.

Hefst þá rýnin.

 

ZooGue Prodigy hulstur fyrir iPad

Val á hinu fullkomna iPad hulstri er erfitt, og hver iPad eigandi þarf að velta ýmsu fyrir sér áður en hann festir kaup á hulstri. Margir iPad eigendur eru eflaust kunnugir Case Genius hulstrinu frá ZooGue, sem er selt í mörgum Apple verslunum hérlendis og hefur notið gífurlegra vinsælda. Nú er komið nýtt hulstur frá ZooGue sem eins og greint var frá hér að ofan heitir ZooGue Prodigy.

ZooGue Prodigy miðar að því að taka alla helstu kostina úr fyrirrrennara sínum, og losa sig við gallana. Þess vegna kemur Prodigy hulstrið ekki lengur með hinum franska rennilás, sem voru sjónrænt lýti á Genius hulstrinu. Stjórnarmenn ZooGue hafa einnig ákveðið að teygjan sem geri manni kleift að festa iPad spjaldtölvuna í hendi sér eða aftan á hauspúða bíls hafi ekki verið í forgangi, því slík teygja er ekki lengur til staðar. Á myndunum fyrir neðan má sjá muninn á Prodigy hulstrinu og Genius hulstrinu.

Helstu kostirnir við ZooGue Prodigy eru þessir:

  • Hægt er að hafa nánast hvaða halla sem er á tækinu, þannig að þú ert ekki bundinn við að hafa iPadinn þinn annaðhvort í 80° eða 10° halla eins og er tilfellið með Smart Cover og Smart Case frá Apple. Ég nota t.d. minn iPad mikið til lestrar og finnst þá þægilegt að geta breytta hallanum örlítið miðað við það hvernig ég kem mér fyrir hverju sinni.
  • Ef við förum aftur í samanburðinn við eldri gerðir af ZooGue hulstrum þá er Prodigy hulstrið mun flottara, og er nú orðið nokkuð stílhreint og fínt. Það má einnig segja að Prodigy hulstrið sé talsvert faglegra í útliti, og gæti því höfðað til þeirra sem nota iPad spjaldtölvuna sína í vinnu þar sem þeir sýna viðskiptavinum eða öðrum samstarfsmönnum eitthvað á iPadinum sínum.
  • Þegar þú ert með iPadinn í þessu hulstri þá finnurðu að hann er öruggur. Hulstrið umlykur allan iPadinn þinn, þannig að það gildir einu hvernig þú missir hann, að þá mun hann ekki lenda á neinum punkti sem er berskjaldaður fyrir höggi.
  • Auðvelt er að breyta hallanum á hulstrinu ef þú vilt breyta sjónarhorninu þínu. Ólíkt gamla Genius hulstrinu frá ZooGue þá notast Prodigy hulstrið við segla en ekki franskan rennilás. Hagkvæmara og flottara.

Helstu gallarnir eru síðan þessir:

  • Teygjan sem var á Genius og Genius Pro er farin. Ég notaði hana reyndar sjálfur alveg samtals núll sinnum þegar ég notaði mitt Genius hulstur. Fyrir þá sem nota það mikið, t.d. þeir sem ferðast og festa iPadinn við hauspúða bílsins, þá getur það haft áhrif.
  • Hulstrið tvöfaldar þykktina á iPadinum þínum (svona hér um bil) og sumum gæti þótt iPadinn heldur þungur í þessu hulstri.

Lokaniðurstaða: Flott og öruggt hulstur fyrir iPad, dálítið þungt. Þörf uppfærsla frá ZooGue Genius hulstrinu.

ZooGue Prodigy fæst í iStore (Kringlunni), Macland (Klapparstíg 30) og iSímanum (Skipholt 21).

Avatar photo
Author

Write A Comment