fbpx

Einhverjir þekkja það eflaust að sjá einhverja sniðuga vöru á netinu, og vilja gefa í tækifærisgjöf, en varan er ekki seld á Íslandi (t.d. Clocky vekjaraklukkan sem sér til þess að þú snooze-ar aldrei). Ef þú vilt fá meira úrval þegar þú kaupir gjafir, mögulega spara nokkra þúsundkalla, og auðvelda þér jólagjafakaupin almennt, þá er þjónustan sem MyUS býður upp á eitthvað sem þú mættir skoða.

MyUS er þjónusta sem sérhæfir sig í að taka á móti pökkum og senda þá áfram til notenda þjónustunnar. Við skráningu er þér úthlutað heimilisfangi (líkt og hjá ShopUSA) sem þú notar þegar þú pantar hluti af netinu. Þegar pakki (eða pakkar) koma í pósthólfið þitt, þá færðu tilkynningu um það í tölvupósti.

 

Af hverju ekki bara ShopUSA?

Með ShopUSA þá geturðu ekki sent fleiri en einn pakka saman í einni sendingu nema það sé keypt úr sömu búð (t.d. Amazon). Hjá MyUS þá geturðu safnað pökkum saman (frí geymsla í allt að 30 daga fyrir Premium meðlimi) og sent alla í einu til Íslands.

Þá eru pakkar frá MyUS sendir með hraðsendingu (getur valið á milli DHL eða FedEx) á nokkuð viðráðanlegu verði, þannig að pakkinn getur verið kominn til þín innan nokkurra daga frá því hann kom í pósthólfið (oftast 2-4 dagar).

Vert er að benda á að úr því MyUS notar DHL eða FedEx þá geturðu rakið feril sendingarinnar, og vitað hvar hún er staðsett nákvæmlega á leiðinni til Íslands.

 

Hvað kostar þetta?

Skráningargjaldið er $10 (bandaríkjadalir) fyrir Standard þjónustu og $20 fyrir Premium þjónustu. Velji maður Premium þjónustu þá bætist við áskriftargjald, sem er annaðhvort $7 á mánuði eða $60 á ári.

Með Premium þjónustunni þá standa þér fleiri möguleikar til boða (eins og frí geymsla á pökkum eins og nefnt var að ofan) auk þess sem verðið

 

Hvað er svona þægilegt við þetta?

Ef þú vinnur fyrir framan tölvu 8-10 tíma á dag þá hefurðu mögulega takmarkaðan tíma til að kaupa jólagjafir að vinnu lokinni. Með þessu þá geturðu nýtt lausan tíma í vinnunni til að klára jólagjafakaupin, og jafnvel fundið sniðugri gjafir, heldur en þú finnur bæði almennt á íslenskum markaði, og getur einnig keypt gjafirnar í ró og næði og losnað við að kaupa gjöf í stressi á Þorláksmessukvöldi. Gjafirnar eru svo sendar heim að dyrum.

Með því að panta vörur innan Bandaríkjanna þá geturðu líka oft nýtt þér afsláttarmiða (e. coupons) í þeirri verslun til að fá ýmist afslátt af vöru eða sendingarkostnað felldan niður innan Bandaríkjanna. Nóg er að smella inn „nafn búðar + coupons“ og sjá hvað kemur upp (RetailMeNot er síða sem er með mjög stórt safn af afsláttarmiðum sem eru í boði hverju sinni).

 

Ef ég panta eitthvað núna á netinu, hvenær er það komið heim til mín?

Það veltur auðvitað allt á því hversu lengi það tekur að senda vöruna frá seljanda í vöruhús MyUS, sem er staðsett í Sarasota, Florida. Að jafnaði ættu allar vörur að vera komnar heim til þín eftir tvær vikur frá því þú pantar síðustu vöruna, þ.e. 1-7 dagar í plássið þitt hjá MyUS (fer eftir því hvaða sendingarmáta þú velur), og 2-4 dagar frá því sendingin fer af stað frá þeim til Íslands.

 

Búðin sem ég vil kaupa vöru af tekur ekki við íslenskum kreditkortum. Hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi, þá taka sumar búðir eingöngu við kortum með bandarískt billing address, þ.a. ef það er raunin þá þarftu að tala við kortafyrirtækið og biðja þau um að bæta MyUS heimilisfanginu þínu sem secondary billing address.

Sumar búðir ganga þó enn lengra og taka einungis við kortum sem eru gefin út í Bandaríkjunum (t.d. NewEgg og Bath & BodyWorks) eða þá að þau senda ekki á þjónustur eins og MyUS (t.d. Apple Store). Ef það er raunin þá er hægt að nýta sér þjónustu fyrirtækisins sem heitir Personal Shopper, þar sem að fyrirtækið kaupir vöruna fyrir þig í sínu nafni. Þú færð hana svo í pósthólfið, og sendir hana til Íslands. Gjaldið fyrir notkun á Personal Shopper er þjónustunni er 6% af andvirði pöntunar ef þú ert Premium meðlimur, og 10% af andvirði pöntunar ef þú ert Standard meðlimur. Einnig er tekið $1 í gjald fyrir hverja vöru umfram 10 vörur. Dæmi: Ef varan kostar $100 þá borgaru $6 fyrir þessa þjónustu, og heildarkostnaðurinn er þá $106.

 

Ok, gerum þetta. Hvað kostar að senda pakka til Íslands?

Hér að neðan má sjá áætlaðan sendingarkostnað eftir því hvort maður er Standard eða Premium meðlimur hjá MyUS.

0,46kg (1 pund): Standard = $35.81, Premium = $29.84
1kg: Standard = $51.19, Premium = $42.66
2kg: Standard = $65.54, Premium = $54.62
5kg: Standard = $104.03. Premium = $86.69
10kg: Standard = $153.96, Premium = $128.30

Athugið að þyngdin á pökkunum mælist í pundum (lbs) þegar þeir koma í pósthólfið. Við viljum líka vekja athygli á því að ef léttar en stórar vörur eru keyptar, þá miða þeir við rúmmálsþyngd (e. Dimensional Weight). Við sendingu á pakka þá taka þeir annars vegar saman raunþyngd sendingarinnar, og svo rúmmálsþyngd hennar, og styðjast við þá tölu sem er hærri. (Útskýring MyUS á rúmmálsþyngd).

Til að fá einhverja hugmynd um hversu mikið pakkar vega, þá er gott að fletta annaðhvort sömu eða sambærilegri vöru upp á heimasíðu Amazon, því þar má oft finna Shipping Weight, og út frá því færðu smá hugmynd um hvað sendingin verður þung í heildina, og hversu mikill sendingarkostnaðurinn verður.

 

Dæmi: Síðustu jól þá keypti undirritaður 31 pakka af netinu (ásamt nokkrum öðrum aðilum). Andvirði þeirra var í kringum $1000 (fatnaður og raftæki), og sendingarkostnaður til Íslands fyrir sendinguna, sem vó 15.6kg var $187.

 

Eitthvað sem ber að varast?

Sérstakt meðhöndlunargjald ($15) er tekið fyrir að senda ilmvatn, og svo má ekki senda sumar vörur með hraðsendingu (t.d. hársprey og vörur í þannig þrýstiloftsbrúsum). (Listi yfir vörur sem MyUS flytur ekki)

Það verið smá handavinna að taka saman alla reikninga, en tollinum finnst það ekki vera fullnægjandi gögn um andvirði vöru þegar tollfulltrúi fyrirtækisins skráir andvirði varanna áður en þær eru sendar af stað.

Að endingu þá þarf að hafa í huga að (skiljanlega) hefurðu ekki jafn víðtæka ábyrgð á vörum, þannig að ef ætlunin er að kaupa raftæki ýmist til að spara sér einhverja aura eða , þá gilda ábyrgðarskilmálarnir almennt bara innan Bandaríkjanna, nema aukaábyrgð sé keypt eða alheimsábyrgð fylgi vöru (mjög ólíklegt).

MyUS.com

Svona rétt í lokin, þá viljum við benda á að ef fólk er í vafa um hvort eða hversu mikil gjöld vörur bera við komu til landsins þá er ykkur velkomið að spyrjast fyrir um það í ummælum, senda okkur tölvupóst á einstein@einstein.is hafa samband við okkur á samskiptamiðlum (sjá tengla að neðan á þá).

Author

1 Comment

Write A Comment