Mac: Resume er ein af helstu nýjungum í Mac OS X Lion (eða Mac OS X 10.7). Í fullkomnum heimi þá virkar Resume þannig að þú ert að vinna í skjali, getur slökkt á tölvunni, kveikt á henni 1-100 dögum síðar og þá opnast forritið og skjalið í sama ástandi og þegar þú skildir síðast við tölvuna.
Því miður þá virðast einhverjir hnökrar vera á Resume eiginleikanum í Lion. Svo dæmi sé tekið, þá var ég að vinna í Word skjali fyrir stuttu síðan, lokaði síðan forritinu og slökkti á tölvunni. Daginn eftir opnaði ég Word á ný til að laga skjalið aðeins, en Resume sá þá ástæðu til að opna öll Word skjölin sem ég hafði opnað síðasta mánuðinn, í staðinn fyrir þetta eina. Heldur hvimleitt.
Ef þú kannast við svipaða atburðarás, eða vilt einfaldlega slökkva á Resume, þá er það auðvelt með því að fylgja eftirfarandi leiðarvísi.
Skref 1:
Opnaðu System Preferences og smelltu á General í efstu röðinni.
Skref 2:
Rétt fyrir neðan miðjan skjáinn skaltu taka hakið af Restore windows when quitting and re-opening apps, eins og sýnt er á myndinni hér fyrir neðan.
Ef þér finnst Resume vera mesta snilld í heimi síðan telefax kom til sögunnar, þá geturðu vitanlega virt þennan leiðarvísi að vettugi.