fbpx

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple hefur nú selt yfir 500 milljón eintök af hinum vinsæla iPhone snjallsíma.

Fyrsta kynslóð iPhone símans kom á markað árið 2007, og þegar síminn var kynntur spáði Steve Jobs, þáverandi forstjóri Apple, því að árið 2008 myndi fyrirtækið selja 10 milljón eintök af símanum.

Í mars 2008 hafði Apple einungis selt 1,7 milljón tækja og sérfræðingurinn Edward Snyder sagði að það yrði erfitt fyrir bandaríska tæknirisann að ná markmiði sínu. Snyder vísaði í lélegar sölutölur, og sagði að Nokia væri að selja fleiri síma á viku heldur en Apple hefði gert frá kynningu iPhone sumarið 2007.

Apple seldi ekki 10 milljón iPhone síma árið 2008, heldur 13,7 milljón. Í febrúar 2011 náði Apple þeim áfanga að selja 100 milljón tæki, og þá fyrst fór boltinn að rúlla. Ári síðar var 200. milljónasti síminn seldur, og fyrirtækið hafði selt 100 milljón tæki til viðbótar áður en árið var liðið.

Frá því í janúar 2013 hafa 200 milljón iPhone símar verið seldir út um allan heim, sem þýðir að á þessu tímabili hefur Apple selt að meðaltali 444 þúsund síma á dag samkvæmt (mjög) lauslegum útreikningum okkar.

 

 

Write A Comment