fbpx

Fyrr í mánuðinum útbjó Apple sérstakt veftól sem gerir notendum kleift að kanna stöðu á Activation Lock ef þeir eru með IMEI eða raðnúmer iOS tækisins.

Apple gerði þetta ekki að ástæðulausu, en með því að kveikja á Find My iPhone/iPad þá virkjar eigandi tækisins Activation Lock, sem leiðir til þess að ekki er hægt að forsníða (e. format) tækið (í daglegu tali er oftast talað um að „restore-a“ iOS tæki, sem er vísun til Restore aðgerðarinnar í iTunes).

Sjá einnig: Lögreglan vill að þú uppfærir í iOS 7

Ef þú ert að spá í að kaupa notað iOS tæki, hvort sem það er á Bland hérlendis eða á erlendum uppboðsvefjum eins og eBay, þá mælum við með því að þú fylgir þessu ferli:

Skref 1: Biðja um IMEI númer eða raðnúmer (e. serial number) tækisins.
Skref 2: Eftir að þú færð þessar upplýsingar, þá skaltu fara á icloud.com/activationlock, og slá inn númerið.

Ef þú færð þessi skilaboð:

Activation Lock - Off

þá geturðu haldið kaupunum áfram, en ef þetta birtist:

Activation Lock - On

þá þarftu að hafa samband við seljanda tækisins og gera honum grein fyrir því að þú það verði ekkert af sölunni nema hann slökkvi á Find My iPad/iPhone.

Það er góð vísbending um að tækið sé illa fengið ef seljandinn kemur með einhverjar afsakanir um að hann geti ekki slökkt á þessu, en að það sé ekkert mál að gera það eftir á.

Auðvitað getur það einnig komið upp á daginn að einstaklingur selji gamlan iPhone eða iPad í góðri trú og einfaldlega gleymi að slökkva á þessu. Komi það fyrir, þá geturðu farið á þessa síðu sem hefur að geyma leiðbeiningar um næstu skref.

Write A Comment