fbpx

Knattspyrnuleikurinn FIFA 15 kom út fyrir rúmum mánuði síðan, á öllum helstu leikjatölvum og Windows einkatölvum.

Hvað er nýtt?

Helsta tekjulind EA Sports fyrir utan sölu leiksins kemur frá Ultimate Team, sem gerir spilurum kleift að búa til og spila með sitt draumalið. Það kemur því ekki neinum á óvart að fyrirtækið varði mörgum vinnustundum í að bæta þennan hluta leiksins, og kynntu þá nýjung að nú geta spilarar fengið leikmenn lánaða, spilað við vini með draumaliðinu og skipulagt sig aðeins með svokölluðum Concept Squads.

Notendaviðmót
Notendaviðmótið er einnig gjörbreytt, til hins betra. Nú er loksins hægt að gera breytingar á kerfum (e. formation) án þess að leikurinn áskilji að maður visti kerfið, eins og var raunin í fyrri leikjum. Hið sama má segja á um hvernig liðið leggur upp leikinn (e. custom tactics). Loksins er einnig hægt að velja “Restart with new teams” í lok leiks, þannig að ef vinirnir/vinkonurnar eru með FIFA hitting, þá er ekki lengur nauðsynlegt að fara í aðalvalmynd, velja þar Kick Off, velja lið o.s.frv.

FIFA 15 - Stillingar

Með leiknum koma einnig tvær nýjar stillingar, þ.e. Park the bus og All out attack sem getur verið ráðlegt að nota ef spilarar eru að tapa eða vinna (og það ósanngjarnt auðvitað).

Raddstýring
FIFA 15 kynnir til sögunnar raddskipanir (e. voice recognition), en með henni er hægt að skipta um leikkerfi, breyta sjónarhorni myndavélar (gerir það einhver?), skipta leikmönnum út af og leitt andstæðinginn í rangstæðugildru svo fátt eitt sé nefnt.

Helsti gallinn við þessa raddstýringu er að hún virkar ekki í netspilun, en það er einmitt staðurinn þar sem hún gæti helst komið að gagni. Ástæðan fyrir því er sú að hljóðneminn er frátekinn fyrir spjall í netspilun, en að okkar mati ættu spilarar að geta valið á milli þess að nota hljóðnemann fyrir spjall eða raddskipanir. Vonandi verður bætt úr þessu í FIFA 16, því tölvan sendir manni aldrei skilaboð um að maður eigi að haska sér ef ýtt er á pásu þrisvar á jafn mörgum mínútum, á meðan það gæti vel komið fyrr þegar keppt er á móti óþolinmóðum einstaklingum á netinu.

Gervigreind markvarða
EA Sports tóku hegðun markvarða alveg í gegn og það… tókst ekki alveg nógu vel. Ný gervigreind var kynnt til sögunnar, með betri viðbrögðum og fleiru til að gera upplifunina eins raunverulega og hægt er. Það gekk ekki betur en svo að fyrirtækið gaf út litla uppfærslu fyrr í vikunni sem átti m.a. að bæta þetta, eftir að í ljós kom að leikmenn gátu stundum skorað auðveldlega frá miðju og stundum skotið nánast í gegnum markverðina.

Þrátt fyrir þessar litlu villur þá eru merkverðir talsvert betri en í fyrri leikjum, og það kemur fyrir að maður sjái markvörð (þ.e. stjórnaðri af tölvu) vera á leið í skógarferð, en efast svo um ákvörðun sína og snúa aftur í markteiginn. Vippumörk eru því nokkuð erfiðari í FIFA 15 heldur en forverum hans.

Spilun

Þegar leikurinn er spilaður, þá er ljóst að það er búið að draga úr vægi sprettharðra leikmanna á borð við Theo Walcott, Pierre Aubameyang og Marco Reus. Við val á liði þá þarf því ekki eingöngu að horfa til þess hvort það sé með einhvern lítinn og snöggan, því aðrir eiginleikar geta líka skipt sköpum í baráttu við varnarmenn andstæðingsins. Sirkus-leikmenn á borð við Neymar og Hatem Ben Arfa hafa heldur ekki það forskot sem þeir höfðu í eldri leikjum, sem er til marks um úrbætur á útfærslu varnarmanna og leik þeirra í FIFA 15.

Svo virðist sem EA Sports hafi einnig komið með einhvern „momentum“ fíling í leikinn, þannig að leikmenn geti skorað utan af velli við vissar aðstæður þrátt fyrir að þeir séu ekki að stjórna stjörnubomburum eins og Gareth Bale eða Robin van Persie.

Meiðsli í leikjum eru tíðari heldur en FIFA 14 og eldri leikjum. Hugsunin á bak við það hlýtur að vera sú að spilarar skoði líkamsástand leikmanna þegar líða tekur á leikinn, og skipti þreyttum leikmönnum út af.

Föst leikatriði eru orðin miklu, miklu betri. Horn koma með nokkrum forstilltum kerfum (þ.e. Run at near post, Run at far post, Crowd the keeper og Edge of Corner) sem hægt er að nýta. Einnig er hægt að stjórna leikmanni í föstum leikatriðum, þ.e. öðrum en þeim sem framkvæmir spyrnu eða kast, líkt og í Be a Pro. Þetta tvennt verður til þess að að aukaspyrnur utan af velli og hornspyrnur eru ekki leiðinlegasti hluti leiksins, heldur nokkuð sem getur framkallað mikla gleði hjá spilara ef vel tekst til.

Fögnin eru líka fleiri, sem getur hjálpað þér að pirra andstæðinginn eftir að þú skorar mark, hvort sem hann situr við hliðina á þér í sófanum eða í annarri heimsálfu.

Online Seasons hefur tekið miklum breytingum, þannig að ferli fyrir spilara sem leika alltaf sama lið er mun styttra en það var í gamla leiknum.

Niðurstaða

FIFA er einn af þessum iðnaðarleikjum, sem kemur út árlega og á dyggan aðdáendahóp. Helsti gallinn er sá að ekki sé hægt að nota bestu raddskipanir, frábæra nýjung, í netspilun, og að Ísland sé hvergi að finna þegar landslið eru valin, þrátt fyrir að liðið sé nú meðal 30 efstu landa á styrkleikalista FIFA.

Fyrir utan þessi atriði er leikurinn frábær skemmtun eins og vanalega, og mörg atriði löguð sem hafa farið í taugarnar á spilurum undanfarin ár.

Einkunn: 8/10

Write A Comment