fbpx

Bandaríska tæknifyrirtækið Microsoft hélt viðburð fyrr í vikunni og kynnti þar margt og mikið. Windows 10 stýrikerfið var kynnt til sögunnar, sem kemur með ýmsum nýjungum, eins og möguleika á að streyma Xbox One leikjum yfir á tölvu, netvafranum Spartan sem kemur í staðinn fyrir Internet Explorer, auk þess sem Start hnappurinn snýr aftur.

Það sem vakti þó mesta athygli var Microsoft HoloLens, sýndarveruleikagleraugu sem Microsoft hefur verið að þróa undanfarin sjö ár, en notandanum birtast heilmyndir af því sem hann er að vinna með hverju sinni þegar gleraugun eru notuð.

http://www.youtube.com/watch?v=aThCr0PsyuA

Myndbandið að ofan er vægast sagt ótrúlegt. Þeir Dieter Bohn og Tom Warren frá tæknimiðlinum The Verge fengu að prófa Hololens eftir kynninguna, og í nýjasta þætti hlaðvarpsins The Vergecast sagði Bohn að HoloLens væri ekki jafn flott og kynningarmyndbandið gæfi til kynna, en tæknin væri samt ótrúleg, og gæti haft mikil áhrif á spilun vinsælla leikja eins og Minecraft (sem Microsoft keypti á síðasta ári).

Auk kynningarmyndbandsins að ofan þá mælum við með því að lesendur horfi á myndbandið fyrir neðan, en þar greinir áðurnefndur Dieter Bohn hjá The Verge frá því sem fyrir augu hans bar þegar hann prófaði HoloLens.

Ekkert var sagt um hvorki útgáfudag né verð HoloLens.

Write A Comment