fbpx

Apple hefur boðað til blaðamannafundar 25. mars næstkomandi. Talið er að þar muni fyrirtækið kynna streymiþjónustu, en þrálátur orðrómur hefur verið undanfarið ár eða svo um streymiþjónustu á vegum Apple sem yrði þá í beinni samkeppni við Netflix, Amazon Prime, Hulu og fleiri þjónustur. Einnig herma fregnir að fréttaþjónusta í áskrift verði kynnt, sem mun veita notendum aðgang að læstu efni frá stórum fjölmiðlum á borð við Wall Street Journal, Washington Post og New York Times svo dæmi séu nefnd í Apple News.

Apple hefur þegar náð samningum við stórstjörnur á borð við Oprah Winfrey, Jennifer Aniston, Reese Witherspoon, Steve Carell, Steven Spielberg og J.J. Abrams varðandi þátttöku þeirra í framleiddu efni á vegum Apple, þannig að fréttir um streymiþjónustuna ættu ekki að koma þeim sem fylgjast grannt með Apple fréttum á óvart.

Hvort Apple muni kynna einhverjar nýjungar í vélbúnaði er hugsanlegt en að sama skapi ólíklegt. Ef til þess kemur þá benda allar líkur til þess að AirPower hleðslumottan fari loks í almenna sölu, sem var upphaflega kynnt í september 2017 og átti að koma á markað í fyrra.

Verður streymiþjónustan aðgengileg á Íslandi?

Apple býður ekki einu sinni upp á aðgengi að Apple Music, né iTunes kvikmynda- og þáttaleigunni fyrir einstaklinga sem eru með íslenskan Apple reikning, þannig að líklegt má telja að það sama muni gilda um nýju streymiþjónustuna.