fbpx

Google Plus var ein af nokkrum tilraunum Google til að ná sínum samfélagsmiðli á markað (þ.e. fyrir utan YouTube, sem sumir túlka sem samfélagsmiðil). Í október greindi fyrirtækið frá því að það myndi hætta með Google Plus í ágúst 2019. Það gerðist í kjölfar þess að villa fannst sem gerði forriturum kleift að safna saman gögnum um hundruð milljón Google Plus notenda.

Í nóvember kom svo önnur villa í ljós, sem gerði forritum sem nýta sér Google+ þjónustuskilin (e. API) kleift að fá upplýsingar um nafn, netfang, starfsheiti, aldur og fleira frá Google+ notendum, jafnvel þótt þær upplýsingar voru stilltar þannig að þær ættu einungis að birtast notandanum sjálfum.

Í kjölfar þessarar villu birti Google þessa færslu, en í henni kemur fram að sólin muni setjast fyrr en búist var við hjá þjónustunni, hugsanlega einhverjum til mæðu. Lokað verður á aðgang að Google+ þjónustuskilum innan 90 daga, og í apríl 2019 verður hinum almenna hluta Google+ lokað.