fbpx

Eins og allir helstu fjölmiðlar landsins hafa greint frá (nema Vísir, sem virðast ekki viðurkenna tilvist þjónustunnar), þá býður Netflix upp á þjónustu sína hérlendis. Við fögnum þessum fréttum hérna á Einstein.is, en í kjölfar þeirra vakna nokkrar spurningar sem vert er að svara.

Einhverjum þessara spurninga hefur þegar verið svarað á öðrum miðlum, en við höfum fengið margar fyrirspurnir og teljum því ástæðu vera til að svara þeim hér.

Hvaða áhrif hefur þetta á íslenskan markað?

Ekkert nema jákvæð áhrif, höldum við. Ísland er mikill fákeppnismarkaður, og fyrir utan Netflix, Hulu og fleiri erlendar þjónustur, þá takmarkast úrval neytenda við streymiþjónustur sem eru hluti af sjónvarpspökkum Vodafone eða Símans.

Kostnaður þeirra þjónusta er mun hærri, og til samanburðar þá kostar Vodafone Play 2.490 krónur á mánuði.

Er íslenska Netflix með íslenskan texta eða íslenskt tal?

Þetta er eitt af lykilatriðum þess að fá íslenskt Netflix. Við ritun þessarar greinar skoðaði ég nokkra titla í barnaefninu, og sá ekkert á forsíðu Netflix Kids með íslenskum texta eða talsetningu.

Sá texti og talsetning sem er í boði við Pokemon Indigo League.

Þrátt fyrir að efnið á forsíðu Netflix Kids sé ekki með íslensku tali, þá má finna tuttugu titla á íslenska Netflix með íslensku tali. Bera þar hæst margar teiknimyndir frá kvikmyndafyrirtækinu DreamWorks (eins og Shrek). Auk þess eru 444 titlar með íslenskan texta, 431 kvikmynd og 13 sjónvarpsseríur.

Þessir sjónvarpsþættirnir eru með íslenskan texta: Black Mirror, Californication, Dexter, Drop Dead Diva, Elementary, Friends, Gotham, Hjordis, Peaky Blinders, Pee-wee’s Playhouse, Rita, The Returned og Under the Dome.

Hægt er að horfa á Peaky Blinders er með íslenskum texta.

Það má ekki gleyma því að þetta er fyrsta vikan í opinberri þjónustu Netflix á Íslandi, þannig að við ættum að játa þeim smá svigrúm í þessum efnum.

Hvernig er efnisúrvalið?

Samkvæmt frétt DV frá því fyrr í dag þá eru um þúsund titlar á íslenska Netflix. Það rímar við frétt Viðskiptablaðsins frá 17. desember í fyrra kom fram að Sam-félagið hefði selt Netflix 250 myndir. Sam-félagið er einn stærsti dreifingaraðili afþreyingarefnis hér á landi, þá verður að gera ráð fyrir að úrvalið sé ekkert gífurlegt ef fyrirtækið seldi Netflix einungis 250 myndir.

Bandaríska Netflix er með tæplega 6000 titla, á meðan danska Netflix er með rúmlega 2000, þannig að ljóst er að munurinn er einhver.

Ég er núna að nota Netflix í gegnum playmoTV/Unblock eða annan aðila. Mun ég geta notað bæði íslenska og bandaríska Netflix þar?

Íslenska Netflix er komið hjá playmoTV, en við vitum ekki hver staðan er hjá öðrum DNS þjónustum.

Skjáskot úr fréttabréfi PlaymoTV

Hvað felst í að íslenska Netflix sé „komið“ ?

Flestar DNS þjónustur bjóða notendum sínum að hoppa á milli Netflix svæða, þannig að þeir geta horft á bandarískt Netflix eina mínútuna, breskt Netflix þá næstu o.s.frv. Með þessari viðbót verður hægt að njóta Netflix frá fjölda landa.

Ég skipti t.d. oft yfir á þýskt Netflix til að viðhalda þýskukunnáttu minni, auk þess sem þar er að finna efni eins og seríu 2 af Fargo sem er nú í sýningu vestanhafs. Með þessum hætti geta unglingar t.d. hoppað yfir á danska Netflix og horft á þætti með dönskum texta til að læra fyrir samræmdu prófin.

Ég fylgdi leiðarvísinum ykkar og er því með bandarískan Netflix reikning. Á ég að segja honum upp og stofna íslenskan?

Nei, þú þarft þess ekki. Netflix reikningurinn þinn fylgir þér hvert sem þú ferð. Því til viðbótar, þá er bandarískt Netflix aðeins ódýrara en íslenskt Netflix (ca. hundrað krónum ódýrara).

Er íslenskt Netflix innlent niðurhal?

Nei. Vefþjónar Netflix eru í Hollandi þannig að þetta er erlent niðurhal.

Hvaða Netflix svæði er best?

Það er háð huglægu mati hvers og eins. Forritarinn og fyrrum skrípóbloggarinn Henrý Þór benti á nokkra áhugaverða titla á ýmsum svæðum í gærkvöldi, og undirritaður tók þátt í gamaninu.

Til að skoða hvaða titlar eru til á Netflix þá er hægt að styðjast við leitarvél eins og Unogs.com.