Síðasta mánudag uppfærði Apple 13 tommu útgáfuna af MacBook Pro fartölvu fyrirtækisins.
Nýja gerðin kemur með svokölluðu Magic Keyboard, með tökkum sem eru eins og takkarnir á samnefndu lyklaborði sem hægt er að kaupa eitt og sér, og fylgir með dýrari Mac borðtölvum (iMac og Mac Pro).
Líkt og aðrar tölvur sem hafa fengið uppfærslu þá hefur geymsluplássið í ódýrustu gerðinni verið tvöfaldað, og kemur nú með 256GB geymsluplássi.
Fjögurra porta útgáfan kemur einnig með 10. kynslóðar örgjörva frá Intel, sem eins og gefur að skilja býður upp á aukin afköst og líklega betri endingartíma tölvunnar.
Útgáfa þessarar tölvu markar endalok Butterfly lyklaborðshnappanna, sem í daglegu tali hefur verið kallað Butterfly lyklaborðið, og Apple selur nú eingöngu fartölvur með svokölluðum skæratökkum (e. scissor switches).
Þessi nýja útgáfa af MacBook Pro 13″ er líklega væntanleg hingað til lands í lok maí eða byrjun júní. Miðað við núverandi gengi má gera ráð fyrir að 2-porta útgáfan kosti frá 260-270 þúsund krónur og að 4-porta útgáfan kosti frá 350-360 þúsund krónum.