fbpx

Bandaríska stórfyrirtækið Apple var með sína árlegu september kynningu í gær, þar sem helstu nýjungar fyrirtækisins á raftækjamarkaði eru kynntar. Venjulega er nýr iPhone sími kynntur á þessum viðburði, en það var ekki tilfellið ekki í ár þar sem COVID-19 hefur valdið töfum á framleiðslu nýjustu kynslóðar af iPhone.

Fyrir vikið var sjónum beint að þremur hlutum: Apple Watch, uppfærslum á iPad línunni og nýrri áskriftarþjónustu, Apple One.

Series 6

Apple Watch Series 6 er annað af tveimur nýjum snjallúrum frá Apple sem koma út í mánuðinum, sem gerir notendum kleift að mæla súrefnismettun í blóði. Sú mæling gæti einkum hjálpað eldri notendum, en hjá öldruðum minnkar súrefnismagn blóðsins vegna minnkaðrar starfsemi lungna og hjarta. Súrefnismettunarmæling tekur 15 sekúndur í úrinu.

Úrið kemur einnig með nýjum tvíkjarna örgjörva sem er byggður á A13 Bionic í iPhone 11, sem er allt að 20% hraðari en örgjörvinn í Series 4 og 5, sem voru í raun með sama örgjörvann.

Series 6 úrið tekur líka við hleðslu hraðar en forverinn, og hægt er að hlaða úr 0 og upp í 100% á u.þ.b. 90 mínútum.

Bjartari Always-On-Display

Með Series 5 þá kynnti Apple til sögunnar Always-On-Display. Með þeirri breytingu var ávallt hægt að kanna hvað klukkan væri, en á Apple Watch úrum Series 0 – Series 4 þá þarf notandinn annaðhvort að ýta létt á skjáinn eða lyfta hendinni snöggt upp til að það kvikni á skjánum og sýni hvað klukkan slær. Always-On-Display skjárinn er meira en tvöfalt bjartari en á Series 5, þannig að auðveldara er fyrir notandann að sjá hvað klukkan er í mikilli birtu.

Series 6 státar einnig af hæðarmæli, sem ætti að gleðja fjallgöngufólk, og sýnir hækkun í rauntíma.

Verðið á Apple Watch S6 er óbreytt frá síðasta ári, en Series 6 kemur til með að kosta frá $399 vestanhafs, sem þýðir að það ætti að kosta frá 83-85 þúsund hérlendis þegar það kemur í sölu. Úrið fer í sölu í dag, og fyrstu úrin verða afhent vestanhafs á föstudaginn.

Watch SE

Apple kynnti einnig „nýtt“ ódýrara úr, sem kemur í stað Apple Watch Series 3, sem hefur verið til sölu sem ódýr valkostur fyrir þá sem vilja dýfa tánni í Apple Watch laugina en ekki stinga sér til sunds.

Apple Watch SE er með svefnmælingu og fallmæli (e. fall detection) eins og Series 6, en skortir þennan always-on-display sem Series 5 og Series 6 hafa. Watch SE kemur heldur ekki með EKG mæli eða súrefnismettunarmæli eins og Series 6.

Úrið er með örgjörvann úr Series 5, og mun kosta frá $279. Ef maður reynir að áætla verð á þessu úri miðað við verðið á Series 5 hérlendis þá mun það líklega kosta frá 60 þúsund krónum.

Watch SE fer í sölu í dag, og fyrstu úrin verða afhent vestanhafs á föstudaginn.