Vinsældir spurningaleiksins QuizUp frá Plain Vanilla halda áfram, en nú hafa milljón manns sótt leikinn í App Store.
Viðtökurnar eru framar björtustu vonum stjórnenda Plain Vanilla Games. Starfsmenn fyrirtækisins fögnuðu ákaft á föstudagskvöld þegar milljón notenda markinu var náð.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, er að vonum ánægður með viðtökurnar og segir að spennan í kringum fyrirtækið erlendis fari vaxandi.
Hversu lengi voru Facebook og fleiri að ná milljón notendum?
Mörg vinsælustu netfyrirtæki heims voru lengur að ná einni milljón notenda. Svo dæmi séu tekin þá tók það Twitter tæp tvö ár, Facebook tíu mánuði og Instagram hálfan þriðja mánuð að ná þessum áfanga.
Í þættinum Sunnudagsmorgunn þá var bent á þennan skemmtilega áfanga, og Þorsteinn forstjóri sagði af mikilli hógværð að nú væru talsvert fleiri að nota iOS tæki út um allan heim heldur en þegar forrit ofangreindra fyrirtækja komu í App Store.
Frábær árangur samt sem áður og við óskum Plain Vanilla til hamingju með þennan áfanga.