fbpx

NBC, ein stærsta sjónvarspstöð Bandaríkjanna, mun framleiða 10 þátta seríu sem byggir á spurningaleiknum QuizUp, sem þarf vart að kynna fyrir Íslendingum. Þátttakendur í sjónvarpssal munu etja kappi við áhorfendur heima í sófa sem spila leikinn í snjalltækjum sínum.

Út á hvað gengur þátturinn?

Þættirnir ganga þannig fyrir sig að ef þátttakandi í upptökuveri NBC vinnur átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppendum, sem geta verið staddir hvar sem er innan Bandaríkjanna, þá geta þeir unnið allt að eina milljón dala. Ef einhverjir af andstæðingunum í heima í stofu vinna sínar lotur, þá hljóta þeir upphæðina sem í boði var fyrir þá lotu.

Þeir sem vilja etja kappi við þátttakanda vikunnar í upptökuverinu og eiga möguleika á að hljóta verðlaunaféð munu geta komist í pott með því að keppa í ákveðnum spurningaflokkum í QuizUp forritinu vikuna fyrir hvern þátt. Það geta því allir sem eru með QuizUp appið komist í pottinn. Búist er við að sjónvarpsstöðvar víða um heim muni framleiða sínar eigin útgáfur af QuizUp-spurningaþættinum.

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri QuizUp, er skiljanlega ánægður með fréttirnar, enda gífurlega erfitt að koma þætti í bandaríska kvölddagskrá hjá risa eins og NBC.

QuizUp hefur náð að virkja ástríðu fólks um allan heim fyrir spurningaleikjum með langbesta appinu af þessu tagi. Sjónvarpsþáttur er einfaldlega eðlileg framlenging á leiknum. Við erum að búa til viðbót við þetta stafræna viðskiptamódel, sjónvarpskonsept sem höfðar til allra og er frábær afþreying á hvaða tungumáli sem er. Þessi þáttaröð mun breyta vinsælasta spurningaappi í heiminum í skemmtilegan sjónvarpsviðburð þar sem allir geta tekið þátt og hver sem er getur unnið. Sjónvarp verður ekki mikið gagnvirkara en þetta.

NBC hefur sýnt nokkra af farsælustu gamanþáttum síðustu áratuga, þætti á borð við Cheers, Frasier, Seinfeld, The Office og 30 Rock.

Hvenær fer þátturinn í sýningu? Mun ég geta horft á hann hérlendis?

Þar sem fréttir eru að berast núna af framleiðslu þáttanna þá fer þátturinn líklega ekki í sýningu fyrr en eftir áramót. Hvort hann verði sýndur hérlendis er óvíst, en miðað við fárið sem var í kringum Magna og Rock Star: Supernova fyrir níu árum, þá má telja líklegt að einhver íslensk sjónvarpsstöð muni sýna þáttinn.

Write A Comment