iphone-5mynd

Okkur berast reglulega fyrirspurnir varðandi hátt verðlag á iPhone hérlendis, sem eru  oftast eitthvað á þessa leið:
[pl_blockquote cite=“Reiður lesandi“]Hvaða rugl er það að iPhone kosti 83 þúsund krónur í Boston en 150 þúsund kall á Íslandi? Þetta er bara hreinasta okur![/pl_blockquote]

Rannsóknarstofa Einstein.is hélt því í mikla sannleiksleit, til að leita skýringa á iPhone verðlagi hérlendis.

Við höfðum samband við þrjá tæknisinnaða fagurkera, þ.e. verslunareigendur Macland, iStore og iSímans, en allar þessar verslanir hafa getið sér gott orð hérlendis fyrir sölu á iPhone símum. Ýmislegt áhugavert kom fram, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Framboð og eftirspurn

iPhone síminn frá Apple er eftirsóttasti farsími heims, enda af mörgum álitinn brjóstmylkingur tæknilegrar snilldar og fegurðar.

Í hvert sinn sem ný kynslóð af iPhone kemur á markað, þá er eftirspurnin ávallt slík, að Apple er hreinlega að framleiða símann allt of hægt. Sem dæmi má nefna að það var ekki fyrr en undir lok nóvembermánaðar að ólæstur iPhone 5 kom í almenna sölu vestanhafs (2 mánuðum eftir að hann kom á markað), og það sama var einnig uppi á teningnum varðandi iPhone 4S fyrir rúmu ári síðan.

Þessi gífurlega eftirspurn veldur því að íslenskar verslanir kaupa símann á yfirverði frá erlendum aðilum sem hafa engin tengsl við Apple. Þessir aðilar borga einstaklingum fyrir að fara í næstu Apple búð, bíða þar í röð og kaupa tvo iPhone síma. Eftir að einstaklingarnir hafa keypt tvo síma, þá reyna þeir að ýmist að endurtaka leikinn í sömu eða annarri búð, eða þurfa að finna annan aðila til að kaupa næstu tvo síma.

Af því hver sími er keyptur í gegnum ýmsa milliliði, þá má segja að ferðalag iPhone síma úr verksmiðju yfir í vasann þinn sé óhjákvæmilega mun lengra ef síminn er keyptur hérlendis. Munurinn á ferðalaginu hljóðar einhvern veginn svona:

 

iPhone – úr verksmiðju í vasa

Sími keyptur á Íslandi Sími keyptur í Apple búð
1. iPhone kemur úr verksmiðju í Apple Store 1. iPhone kemur úr verksmiðju í Apple Store
2. Viðskiptavinur kaupir síma í Apple Store (má kaupa 2 stk) 2. Viðskiptavinur kaupir síma í Apple Store
3. Söluðili kaupir síma af einstaklingi úr skrefi 2, kemur sér upp lager og selur símana úr landi.
4. Íslenskar verslanir kaupa símann af aðila í skrefi 3.
5. Íslenskur neytandi kaupir símann úti í búð.

Eins og áður hefur verið rakið og sést á ofangreindri töflu þá eru íslenskar verslanir að kaupa iPhone í gegnum a.m.k. tvo milliði þegar síminn er nýr á markaði. Báðir þessir aðilar taka þóknun fyrir sinn þátt í ferlinu, og leiðir til hækkunar á verði símans. Þess vegna má slá því föstu að þegar nýr iPhone sími kemur á markað, þá eru íslenskar verslanir kaupa símann á hærra verði (þ.e. með u.þ.b. 30% álagningu á listaverði) heldur en íslenskir ferðamenn, og aldrei nokkurn tímann á lægra verði heldur en býðst í Apple Store.

Einnig getur það gerst að íslenskar verslanir lenda í óviðráðanlegum atvikum sem eru með öllu óviðráðanleg, líkt og að vera sendur aftur á byrjunarreit í slönguspilinu.

[pl_blockquote pull=“right“ cite=“Sigurður Þór Helgason, eigandi iStore“]Maður hefur lent í því að pöntun sem er ætluð manni endar í Dubai, af því einhverjir auðjöfrar sem vita ekki aura sinna tal yfirbjóða mann hressilega.[/pl_blockquote]

 

Þegar við spurðum hver álagning verslana væru á hverjum seldum síma, þá fengum við þau svör að hún væri í raun sáralítil eða u.þ.b. 5-10% (til samanburðar þá er álagning verslana á fötum og húsgögnum oft allt að 100%). Eftir stendur þá líka kostnaður vegna lögbundinnar ábyrgðarþjónustu.

Af hverju ekki bara að kaupa símann beint frá Apple?

Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn. Ísland, er ekki til sem markaðssvæði iPhone í heiminum. Þessu er öðruvísi farið um iPad og iPod touch, en Epli hefur leyfi frá Apple Inc. til að flytja inn og dreifa vörum fyrirtækisins hérlendis.

Í skjóli þess leyfis þá kaupir Epli hefðbundnar Apple tölvur, iPad spjaldtölvur og ýmsa aukahluti beint frá bónda (þ.e. Apple). Engir milliliðir sem taka þóknun fyrir sinn þátt í ferlinu, og betra verð fyrir neytendur.

[pl_blockquote cite=“Hörður Ágústsson, eigandi Macland“]Það er að enginn hér heima er að kaupa iPhone beint frá Apple. Enginn.[/pl_blockquote]

iPhone, er aftur á móti ekki á þessum lista. Ef iPhone væri seldur opinberlega á Íslandi þá má gera ráð fyrir að verð símans væri u.þ.b. 120 þúsund krónur, ef tekið er mið af hlutfallslegum verðmun á iPad og iPhone 5 í Bretlandi.

 

En síminn kostar bara 85.000 kr. í Bandaríkjunum?

Satt er það. Ódýrasta gerðin af nýjum Toyota Yaris kostar líka 1,8 milljónir króna í Bandaríkjunum, en 2,7 milljónir króna hérlendis.

Jú, Yaris-dæmið er öfgakennt, en það er einungis til að leggja áherslu á að Bandaríkin eru allt annað markaðssvæði en Evrópa, og símarnir eru seldir á markaði við gjörólík skilyrði. Þótt Bandaríkin séu einn vinsælasti áfangastaður íslenskra ferðalanga, þá er því ekki mikið vit í því að gera samanburð á verði símans vestanhafs annars vegar og hérlendis hins vegar (svo ekki sé minnst á að maður þarf að huga að ýmsu áður en iPhone 5 er keyptur í Bandaríkjunum).

[pl_blockquote cite=“Tómas Kristjánsson, eigandi iSímans“]Það er mikið raunsærra að gera verðsamanburð við Bretland heldur en Bandaríkin á Apple vörum.[/pl_blockquote]

Í ljósi þessara ummæla, þá er fróðlegt er að sjá hvert verð verð símans er að viðbættum íslenskum virðisaukaskatti, ef íslenskir ferðamenn kaupa hann Tax-Free í evrópskum Apple búðum .

Tax-Free verð í Apple Store Verð að viðbættum íslenskum VSK
Apple Store UK = 469.5 pund (~90.000 kr.) 112.500 kr.
Apple Store DK = 4493 DKK (~100.000 kr.) 125.500 kr.
Apple Store DE = 603 evrur (~100.500 kr.) 125.500 kr.

UPPFÆRT: Taflan var uppfærð eftir ábendingar lesenda, sýndi áður listaverð í Apple Store, gleymdist að taka Tax-Free hlutann inn í myndina (og við biðjumst velvirðingar á því). Ferðamenn fá þó ekki allan virðisaukaskatt endurgreiddan þegar síminn er keyptur með þessum hætti. Hægt er að reikna hversu mikil endurgreiðslan er af keyptri vöru með reiknivél Global Blue.

Eins og greint var frá fyrr í greininni þá eru íslenskir söluaðilar ekki að kaupa símann beint úr Apple búðum, heldur í gegnum ýmsa milliliði. Taflan er því ekki dæmi um hvað síminn kostar fyrir íslenska söluaðila. Þeir þurfa að greiða áðurnefndum milliliðum sína þóknun, borga fyrir flutning til Íslands og veita ábyrgðarþjónustu. Þegar allt er tekið saman þá var það niðurstaða okkar að iPhone sé seldur með mjög hóflegri álagningu hérlendis, þrátt fyrir að verð símans sé í hærra lagi.