Quiz Up

Nýr leikur frá íslenska leikjaframleiðandanum Plain Vanilla Games er kominn í App Store. Um er að ræða gríðarlega stóran spurningaleik sem heitir QuizUp, þróaður hérlendis en markaðssettur fyrir heimsmarkað.

Með QuizUp er hægt að keppa við vini jafnt sem ókunnuga í spurningaleik á tilteknum áhugasviðum. Leikurinn er einfaldur í spilun og notendur geta ýmist nýskráð sig í gegnum Facebook eða með skráningu netfangs.

Hægt er að velja úr gífurlegum fjölda flokka þar sem aðilinn spilar einn, við aðra samtímis eða leikur eina umferð og bíður eftir að áskorandi klári sinn leik.

Hver umferð samanstendur af sjö spurningum, sem aðilinn verður að svara innan 10 sekúndna, og því er heil umferð spiluð á um það bil einni mínútu. Hin einfalda regla gildir að sá sem svarar fleiri spurningum rétt vinnur þá umferð, og ef báðir svara jafnmörgum spurningum rétt þá hefur það áhrif hvor var fljótari að hugsa.

Með aukinni þátttöku í leiknum þá hljóta keppendur ýmsar heiðursnafnbótir og titla sem gefa til kynna hversu öflugir þeir eru, og jafnvel hvort þeir séu bestir á landinu í tilteknum flokki.

QuizUp fæst í App Store og er ókeypis.

Ritstjórn
Author

1 Comment

Write A Comment