fbpx

Apple sýndi heiminum Mac OS X Yosemite síðastliðinn mánudag, sem verður ókeypis uppfærsla fyrir allar Apple tölvur. Þetta eru helstu nýjungarnar sem fyrirtækið kynnti.

Útlitsbreytingar

Viðmót OS X Yosemite svipar nokkuð til iOS 7 (og iOS 8), en meðal breytinga er ný leturgerð, og í fyrsta sinn síðan Mac OS X 10.1 kom út árið 2001 að Apple breytir um letugerð, en OS X Yosemite mun notast við Helvetica Neue í stað Lucida Grande.

Letur - Mavericks - Yosemite

Nýtt letur er ekki eina breytingin því allt viðmótið er orðið flatara. Einnig er hægt að skipta yfir í næturham (e. Dark mode) og Notification Center fékk einnig litla uppfærslu, sem gefur notendum möguleika á að bæta viðbótum (e. widgets) eins og veðri, áminningum o.fl. í Notification Center.

Þetta markar kannski endalok Dashboard (sem notendur eldri stýrikerfa geta slökkt á ef þeir nota það ekki).

iCloud Drive

iCloud þekkja flestir Apple notendur, sem gerir notendum kleift að taka afrit af gögnum, og geyma skrár örugglega hjá vefþjónum Apple. Gallinn við þjónustuna núna er m.a. notendur geta farið á milli mappa í iCloud svæðinu, heldur er einungis hægt að opna skrár í sumum forritum, og þá birtist listi yfir allar skrár sem forritið getur opnað og eru geymdarí iCloud.

Með iCloud Drive breytist þetta, og þjónustan fer raunar í beina samkeppni við Dropbox, Google Drive og fleiri skýþjónustur. Hægt verður að skoða iCloud Drive svæðið beint úr Finder, eins og er hægt hjá áðurnefndum samkeppnisaðilum.

Notendur geta geymt 5GB af gögnum ókeypis, og 200GB kostar $3.99/mán. Til samanburðar þá rukkar Dropbox notendur um $9.99/mán sem kjósa að hafa 100GB pláss á Dropbox svæðinu sínu.

iCloud Drive mun einnig virka á Windows, þannig að þetta er ekki Mac-only þjónusta.

Spotlight

Með Yosemite þá takmarkast möguleikar Spotlight, leitartóls Apple, ekki við leit að gögnum á harða disknum, merkingu orða eða framkvæma vefleitir.

 

Spotlight verður ekki lengur ekki geymt uppi í horni, heldur sprettur fram fyrir miðju skjásins, líkt og forritin Quicksilver og Alfred sem auðvelda notendum að ræsa forrit og gera fleiri aðgerðir á tölvum sínum. Notendur munu einnig geta leitað að efni í Wikipedia (Einnig er hægt að skoða veitingastaði og bíótíma, en ekki á Íslandi).

Safari og Mail

Bæði forrit fengu sína árlegu skoðun og uppfærslur. Mail Drop gerir notendum kleift að senda allt að 5GB viðhengi í tölvupósti, sem er geymt á vefþjónum Apple (en ekki póstþjóninum þínum). Með Markup er svo hægt að merkja inn á myndir, hvort sem það er einhver merki eða texti án þess að opna myndvinnsluforrit.


 

Safari kemur með betri stuðningi fyrir HTML5 myndbönd sem lengir rafhlöðuendingu og betra yfirliti yfir opna flipa (e. tabs), auk annarra tæknilegra betrumbóta þannig að síður hlaðast hraðar.

Samhæfni við iOS

Nú geturðu t.d. byrjað að skrifa tölvupóst á iPhone, og klárað hann á Mac tölvunni þinni.

Stærsta nýjungin á stýrikerfinu. Ef aðilar eiga bæði iPhone tæki og Mac tölvu, þá geta þeir tengt símann þráðlaust við tölvuna og bæði hringt/tekið á móti símtölum og sent/skoðað skilaboð (hvort sem það eru hefðbundin SMS eða iMessage skilaboð).

Handoff er önnur viðbót, þannig að maður getur byrjað að vinna á einhverju í iOS en haldið áfram í Mac, og öfugt. Mac notendur geta nú notað iPhone símann sem Wi-Fi hotspot án þess að taka símann úr vasa eða tösku.

Write A Comment